Fara í efni
Pistlar

Kirkjan er bóluefni gegn einsemd

Á Íslandi sækja flestir kirkju til að vera viðstaddir fjölskyldutengdar athafnir, skírn, fermingu, giftingu og jarðarför. En þessar athafnir eru aðeins lítill partur af erindi kirkjunnar. Kirkjan á að vera fjölskylda án blóðtengsla, kirkjubyggingar eiga að vera heimili, öruggur staður til að vera á (eins og Brimborg) staður þar sem haldið er úti félagsstarfi að hætti Jesú frá Nasaret þar sem fólk finnur að það skiptir máli, er sýnilegt, virt og síðast en ekki síst elskað. Þar sem engin undirliggjandi pólitík eða gróðastarfsemi ræður ríkjum. Þar sem börn geta fundið hæfileikum sínum farveg en líka bara verið á eigin forsendum án þess að þurfa að sýna fram á sérstaka hæfileika eða getu, já bara verið. Hlutverk kirkjunnar er að vera bóluefni gegn einsemd og einangrun sem er því miður stækkandi mein í nútímasamfélagi.

Já einsemd er að verða ein mesta heilsufarsvá samtímans. Fyrir því eru margar ástæður en kannski skiptir meira máli að bregðast hratt við í stað þess að eyða of miklum tíma í að greina vandann. Það eru margir einmana í okkar samfélagi og þeir sem eru einmana bera það ekkert endilega utan á sér. Fólk getur verið í flottri vinnu, í góðu líkamlegu formi og í fínum fötum en samt verið þjakað af einsemd. Kokteilboð og VIP boð eru ekki að fara að rjúfa þá einsemd. Það eina sem getur rofið djúpstæða mannlega einsemd eru einlæg, berskjölduð samskipti. Alvöru samskipti þar sem fólk er ekki krafið um árangur heldur meðtekið eins og það er frá skaparans hendi. Eitt af því sem Jesús bað okkur um að gera var að eiga borðsamfélag í hans nafni, sem við og gerum í flestum guðsþjónustum safnaðarins. Í vetur ætlum við að útvíkka þetta borðsamfélag altarisgöngunnar með sunnudagsmáltíð að loknum þemamessum sem haldnar verða reglulega í Akureyrkirkju en sú fyrsta er næstkomandi sunnudag kl 17:00.

Næstkomandi sunnudag 10. sept er fyrsta þemamessan en þar tala ljósmæðurnar Kristín Hólm Reynisdóttir og Tinna Jónsdóttir um ýmislegt sem varðar meðgöngu og fæðingu og Margrét Rún Kristinsdóttir fjallar um uppeldi barna og unglinga. Eyþór Ingi Jónsson og Anna Skagfjörð munu flytja hugljúf lög í takti við þema messunar og séra Hildur Eir heldur utan um stundina. Strax að lokinni messu er söfnuðinum boðið til kvöldverðar í safnaðarheimili kirkjunnar.

Hildur Eir Bolladóttir er sóknarprestur í Akureyrarkirkju

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30