Fara í efni
Fréttir

Kanna enn náin tengsl Samherja og Síldarvinnslunnar

Björg EA-7, Björgúlfur EA-312 og Kaldbakur EA-1. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Samkeppniseftirlitið hefur til meðferðar sem sérstakt athugunarefni hvort líta beri á Samherja hf. og Síldarvinnsluna hf. sem eitt og sama fyrirtækið, eða sem eina efnahagslega einingu, eins og það heitir í samkeppnisrétti, hvort samband félaganna sé svo náið að það jafngildi einni efnahagslegri einingu, en ekki samstarfi sjálfstæðra keppinauta. Þetta kemur fram í frétt á vef Samkeppniseftirlitsins.

Tilefnið er tilkynning um kaup Síldarvinnslunnar hf. á 50% hlut í Ice Fresh Seafood ehf. o.fl. af Samherja hf. „Með þeim kaupum munu sjávarútvegsfyrirtækin fara með sameiginleg yfirráð í Ice Fresh Seafood og það félag framvegis sjá um sölu og markaðssetningu þeirra afurða sem bæði Samherji og Síldarvinnslan framleiða, þ.e. íslenskar sjávarafurðir,“ segir í frétt Samkeppniseftirlitsins. 

Er hverjum þeim sem hagsmuni eða áhuga hafa gefið færi á að koma á framfæri umsögnum, athugasemdum og/eða sjónarmiðum um þessi viðskipti fyrir 7. mars. „Samkeppniseftirlitið veitir hér með hverjum þeim sem hagsmuni eða áhuga hefur færi á því að koma á framfæri umsögnum, athugasemdum og/eða sjónarmiðum um viðskiptin, svo sem um eignar- og stjórnunarleg tengsl þessara fyrirtækja, hvort líta megi á þau sem eina efnahagslega einingu í skilningi samkeppnislaga, áhrif samrunans, stöðu markaða og virkni samkeppni á viðkomandi mörkuðum,“ segir í fréttinni.

Þar kemur einnig fram að tilkynningarskyldir samrunar eigi sér stað samkvæmt samkeppnislögum þegar breytingar verði á yfirráðum. Eitt af þeim atriðum sem þarfnast nánari rannsóknar í þessu máli eru tengsl Samherja og Síldarvinnslunnar, bæði fyrir og eftir samrunann, þar með talið hvaða áhrif kaup Síldarvinnslunnar og sameiginleg yfirráð með Samherja í Ice Fresh Seafood hafa í því samhengi.