Fara í efni
Fréttir

Ingibjörg þakklát og hrærð – Líneik ánægð

Ingibjörg Ólöf Isaksen, til vinstri, og Líneik Anna Sævarsdóttir.
Ingibjörg Ólöf Isaksen, til vinstri, og Líneik Anna Sævarsdóttir.

„Ég er ótrúlega þakklát og hrærð yfir stuðningnum sem ég fékk hjá flokksmönnum,“ sagði Ingibjörg Ólöf Isaksen við Akureyri.net í kvöld, eftir að ljóst varð að hún skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við Alþingiskosningarnar í haust.

Póstkosning fór fram allan marsmánuð og voru atkvæði talin í dag. Ingibjörg, sem er bæjarfulltrúi á Akureyri, fékk 621 atkvæði í 1. sæti og Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður frá Fáskrúðsfirði, fékk 529 atkvæði í 1.-2. sæti. Þær sóttust báðar eftir oddvitasætinu.

„Það er búið að ýta á mig í töluverðan tíma að fara í landsmálin og ég hef fundið fyrir mikilli jákvæðni og miklum meðbyr síðan ég gaf kost á mér,“ segir Ingibjörg Ólöf. „Það er rétt að taka fram að svona sigur vinnur maður ekki einn. Gott fólk vann með mér og fyrir það vil ég þakka,“ bætti hún við.

„Þetta eru spennandi tímar og ég hlakka til komandi verkefna. Kosningabaráttan var ótrúlega skemmtileg og mjög málefnaleg, þetta er sterkur og öflugur hópur sem við bjóðum fram og við göngum samhent frá borði. Við erum í þessu saman,“ sagði Ingibjörg Ólöf.

Góður stuðningur

„Ég náði ekki markmiðinu en ég er samt ánægð með þann stuðning sem ég fékk,“ sagði Líneik Anna við Akureyri.net. Hún segist vissulega hafa velt því fyrir sér hvort hún ætti að þiggja annað sætið, kæmi þessi staða upp, en stuðningurinn hafi reynst góður og því hafi ekki annað komið til greina. „Þetta er mjög flottur hópur sem á eftir að ná góðum árangri – í samvinnu við félagsmenn í framsóknarfélögunum í kjördæminu; það skiptir mestu máli.“

Smelltu hér til að lesa um niðurstöðu kosningarinnar