Fara í efni
Pistlar

Hver er þinn skilningur á því að heimilið eigi að vera „snyrtilegt“?

„Magnaðir mánudagar“

9. pistill

Síðustu vikur hef ég haldið vinnustofur um samskipti á mörgum vinnustöðum, vinna með hópum sem starfa í ólíkum atvinnugreinum, hafa ólík hlutverk, ólíkan bakgrunn og sinna mismunandi störfum. En segja má að áskoranir og viðfangsefni þeirra séu engu að síður nokkurn vegin sprottin upp af því sama þegar kemur að samskiptum á vinnustað. Það hvernig við sjáum sömu aðstæður ólíkum augum, upplifun okkar er ólík og hvernig við leggjum mismunandi skilning í það sem við okkur er sagt. Já blessuð samskiptin eru mér hugleikin eina ferðina enn.

Það sem ég hef verið að vinna að með mörgum minna viðskiptavina er að leggja línur að sameiginlegum skilningi á lykilatriðum. Hvað þýðir það að hafa hreinskiptin, opin og uppbyggileg samskipti, hvað felur það í sér og hvað ekki? Oft erum við þá að vinna með orð eins og virðingu, sanngirni og traust - og rekum okkur á það að við skilgreinum og upplifum þessi orð ekki öll á námkvæmlega sama máta og skilgreiningarnar verða oft ólíkar. Tja kannski svolítið eins og heima hjá mér þegar við sammælumst um að hafa heimilið snyrtilegt. Hvernig lítur það út fyrir mig og hvernig lítur það út fyrir eiginmanninn eða fyrir 18 ára unglinginn? Hvað haldið þið, hversu líklegt eða ólíklegt er að þeir sjái það sömu augum og ég og hafi sömu mynd í huganum um hvað „snyrtilegt“ þýðir?

Hversu skýr erum við almennt með það sem við viljum og hversu vel hugum við að því að aðrir skiji og meðtaki það sem við erum að segja á þann hátt að það sem við erum sannarlega að hugsa komist til skila. Spyrjum við oft og reglulega „hvað heyrir þú mig segja“?, sem er afbragðsgóð spurning til að verða einhverju nær um hvort mótttakandinn sé einhverju nær um meiningu okkar.

Fyrir nokkrum árum var yngsti sonur minn að fara í gistingu til vinafólks, hann bað mig að spyrja þau hvort hann mætti hafa með sér bangsa sem ég og gerði. Hann mátti hafa bangsa, þá bað hann mig að spyrja hvað bangsinn mætti vera stór. Ég spyr að því og færi honum þau skilaboð að hann megi taka hvaða bangsa sem hann vill með sér, óháð stærð. Flott segir hann, þá tek ég Lúlla með mér. Sem ég hugsa ekki meira út í, enda þekkti ég ekki alla hans bangsa með nafni. Svo er hann sóttur og gistidótið sett í bílinn og svo nær hann í Lúlla. Lúlli reyndist vera heimagerður „bangsi“ gerður úr stórum kósýgalla af systur hans sem hann hafði troðið út af öllum teppum og púðum heimilisins. Lúlli var því ansi fyrirferðamikill og tók nánast tvö sæti í bílnum. En hann hafði jú fengið þau skilaboð að mega taka með hvaða bangsa sem hann vildi, og í hans huga var Lúlli sannarlega bangsi – þó hvorki ég né vinafólkið hefðum séð það sömu augum.

Að við sjáum heiminn eins og við sjálf erum en ekki eins og hann er kristallast svo skýrt í þessum vangaveltum og við eigum yfirleitt öll fjölmörg ónýtt tækifæri í því að spyrja og hlusta eftir því hvernig aðrir skilja okkur – sem líklega er sjaldnast á saman hátt og við skiljum okkur sjálf. Eða eins og sagt var og hlegið að á einni vinnustofunni minni í vikunni þegar sá starfsmannahópur sagðist hafa lært heilan helling um hvernig allt hitt samstarfsfólkið gæti nú bætt sig og eflt sig í samskiptum. En að öllu gamni slepptu þá sáu þau nú líka og sögðu að það sem þau tæku helst með sér eftir tímann okkar saman var hversu hollt og hressandi það hafi verið að líta í eigin barm og sjá tækifærin til að gera betur. Sem er einmitt það frábæra við samskiptin, þau eru ekki óhagganlegur og óbreytanlegur mannlegur eiginleiki heldur getum við breytt þeim og betrumbætt ævina á enda.

Sigríður Ólafsdóttir er mannauðsráðgjafi og PCC markþjálfi hjá Mögnum.

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00