Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Hafnarstræti 88; Gamli bankinn

Árið 1890 bjuggu þrettán manns í Húsi Snorra Jónssonar á Oddeyri. Auk fjölskyldu Snorra Jónssonar skipa-og húsasmíðameistara bjó þar meðal annars smíðalærlingur hans, hinn 18 ára gamli Bergsteinn Björnsson, frá Norðurbotni við Tálknafjörð. Átta árum síðar, eða þann 8. nóvember 1898 fékk Bergsteinn keypta lóð á Torfunefi, sunnan við hið nýreista hús Pöntunarfélagsins (KEA) ásamt heimild til uppfyllingar. Það skilyrði var sett að bygging hæfist næsta sumar (1899).

Þann 22. nóvember 1898 var Bergsteini Björnssyni heimilað að fylla upp á lóð sinni á Torfunefi, 60 álnir (40m) suður með veginum milli bæjarhlutanna. Fékk hann að taka uppfyllingarefnið frítt úr brekkunum ofan fjörunnar, með því skilyrði, að hann hefði byggingu innan þriggja ára frá 1. jan 1899. Bergsteinn lét ekki segja sér þetta tvisvar heldur sótti hann um og fékk leyfi 11. apríl 1899 fyrir húsi og það engu smáræðis húsi, 30x16 álnir að grunnfleti. Framkvæmdir við uppfyllingar munu hafa staðið sumarið 1899 og árið eftir var hús Bergsteins risið af grunni. Var það þá eitt stærsta hús bæjarins, en það stóð ekki lengi, því á næstu árum risu mikil stórhýsi eitt af öðru; vestast við Strandgötu, Hótel Akureyri, Gagnfræðaskóli (MA) og Samkomuhúsið. Nútímafólk getur í sömu andránni virt fyrir sér brekkuna á bakvið suðurhluta Hótel KEA og Hafnarstræti 88 og reynt að gera sér í hugarlund, hvers konar verk það hefur verið: Að grafa út úr brekkunni og fylla upp í fjöruborðið, grunninn fyrir hinu reisulega húsi, sumarið 1899. Væntanlega hefur aðeins verið notast við haka, skóflu og hjólbörur, e.t.v. hestakerrur. En höfum það jafnframt í huga, að Bergsteinn og hans menn þekktu auðvitað ekkert annað.

Skömmu áður (1897) hafði lærifaðir Bergsteins, Snorri Jónsson, reist á Oddeyri eitt stærsta hús Oddeyrar og Akureyrarkaupstaðar í heild. Var húsið tvílyft með rúmri lofthæð, á háum kjallara og með háu risi, 18,8x9,4m að grunnfleti (skv. Brunabótamati 1916) og hugði Bergsteinn ekkert minna; hús hans var ámóta og raunar örlítið stærra að grunnfleti en 30x16álnir eru nærri 20x12m en í brunabótamati 1916 er grunnflötur hússins sagður 18,8x10,4m. Stórhýsi Bergsteins og Snorra hafa kallast dálítið skemmtilega á yfir Pollinum, svipuð að lögun, stærð og gerð. Aldamótaárið 1900 mun hús Bergsteins hafa verið fullreist. Allt er breytingum undirorpið: Snorrahús var rifið á níunda áratug 20. aldar og Hafnarstræti 88 er nú umlukið enn stærri steinhúsum.

Hafnarstræti 88 er stórt tvílyft timburhús með háu risi og miðjukvisti á báðum hliðum. Inngöngutröppur og svalir eru á báðum stöfnum. Greinarhöfundur hefur hvergi séð minnst á, að húsið hafi mögulega komið tilhöggvið frá Noregi, eins og mörg skrautleg stórhýsi um aldamótin 1900. Húsið er engu að síður undir miklum áhrifum frá sveitserstílnum norska og flokkast raunar sem slíkt í Húsakönnun 2012. Sem dæmi um það má nefna sérstakt skraut og kögur á svölum milli áttstrendra súlna, skreytt strik eða bönd undir gluggaröðum, þak slúttir yfir veggi og þar blasa við útskornar, útstæðar sperrutær. Kvistir hússins eru skemmtilega rammaðir inn af áttstrendum súlum milli þakskeggs og þakbrúna kvista og efst á þeim eru skrautlegir sperruendar. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak. Grunnflötur mun nærri 19x11m.

Í Manntali 1901 er húsið sagt nr. 14 við Hafnarstræti og þar búa alls 24 manns. Þar er Bergsteinn Björnsson sagður Bjarnason. Á þessum árum stundaði hann síldarútgerð meðfram smíðinni og hafði þannig komist í góðar álnir. Árið 1903 telst Bergsteinshús númer 10 við Hafnarstræti og efst á blaði Manntals það ár eru Friðrik Kristjánsson og Jakobína Jakobsdóttir, en Bergsteinn er þar enn til heimilis, titlaður útvegsbóndi. Árið eftir mun Friðrik hafa keypt húsið af Bergsteini, sem jafnframt flutti úr húsinu. Friðrik gerðist bankastjóri Íslandsbanka og opnaði útibú bankans í húsinu árið 1904. Þar var bankinn starfræktur allt til ársins 1930 að hann var lagður niður. Enn þjónaði húsið sem banki, því Útvegsbankinn kom sér fyrir í Hafnarstræti 88 og mun hafa verið þar til ársins 1939. Af Bergsteini er það að segja, að hann fluttist til Vesturheims þegar útgerðin brást og ól þar manninn alla tíð síðan. Stundaði þar smíðastörf og gegndi herþjónustu á árum fyrri heimstyrjaldar (1915-1918). Bergsteinn Björnsson lést í Gimli í Winnipeg árið 1951.

Friðrik Kristjánsson bankastjóri fluttist einnig til vesturheims en það var með þvílíkum undraverðum hætti og kannski nær að tala um flótta en flutning. Á útmánuðum 1910 virtist Friðrik hafa horfið sporlaust og var hann af flestum talinn af, en einnig spunnust sögur um flótta hans, sem átti að hafa verið í kjölfar meints fjármálamisferlis. Er skemmst frá því að segja, að vikum saman var Friðrik í felum á Barði (sem stóð á brekkubrúninni ofan við Samkomuhúsið) og komst dulbúinn um borð í kútter við Glæsibæ. Leiðarlok Friðriks voru í Ameríku, en hann lést árið 1939 í Wynyard í Saskatchewan. Nánar er fjallað um hinn magnaða landflótta Friðriks Kristjánssonar og afdrif hans á bls. 69-76 í þriðja bindi Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason.

Í brunabótamati 1916 er Hafnarstræti 88 lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðar og bankahús, tvílyft með porti, kvisti og háu risi og kjallara. Þá þegar eru hvort tveggja veggir og þak járnvarið og telja Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir (2003:190) að húsið hafi jafnvel verið bárujárnsklætt frá upphafi. Alltént var bárujárnið komið á húsið árið 1916, en eftir mikla stórbruni hér í bæ 1901 og 1906 fór almennt að tíðkast, að verja timburhús með járni eða steinskífum. Í kjallara voru tvær sölubúðir, skrifstofa og úrsmíðaverkstæði auk geymslurými. Á 1. hæð voru að framanverðu (vestanmegin) þrjár stofur, bankaafgreiðsla og forstofa en „við bakhlið“ eða að austanverðu þrjár stofur, eldhús, búr og tvær forstofur. Á 2. hæð voru alls 7 stofur, eitt eldhús og forstofa. Í risi voru þrjár stofur, eldhús og búr vestanmegin en austanmegin tvær stofur, eldhús, geymsla og forstofa. Við norðurgafl var „stórt óinnréttað rými“ og svalir við suðurgafl. Þrír skorsteinar voru á húsinu og í því 16 kolaofnar, fjórar eldavélar, væntanlega einnig kola- eða mókyntar og einn þvottapottur, kyntur á sama hátt. Árið 1916 voru enn sex ár í rafvæðingu Akureyrar. Húsið sagt 18,8x10,4m að grunnfleti, 12,9m hátt og á því voru 64 gluggar. Eigandi hússins árið 1916 var Íslandsbanki (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1916 nr.126).

Afgreiðsla Íslandsbanka var í húsinu þar til sá banki lagði upp laupana árið 1930 en þá fluttist Útvegsbankinn í húsið. Tók síðarnefndi bankinn í raun þann fyrrnefnda yfir. Löngu síðar rann svo Útvegsbankinn ásamt tveimur öðrum inn í nýjan banka, sem hlaut nafnið Íslandsbanki! Útvegsbankinn mun hafa verið hér til húsa til ársins 1939. Bankastjóri Íslandsbanka var lengst af Bjarni Jónsson og var hann búsettur hér. Á tímabili var kjötbúð KEA í kjallara hússins á sama tíma og bankaútibú Íslandsbanka var á efri hæðinni og kjötbúðina prýddi veglegur nautshaus. Munu gárungar hafa gripið þetta á lofti og sagt, að þarna væri kominn hinn eini sanni gullkálfur, sem bankamenn dönsuðu í kringum. Á fyrrihluta 20. aldar bjó í húsinu Valdemar Steffensson læknir og starfrækti þar lækningastofu sína. Í Hafnarstræti 88 hafa alla tíð verið verslunarrými, þjónusta og smáiðnaður, kannski mætti segja, að húsið verið frá upphafi einhvers konar verslunarmiðstöð. Í bók sinni Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs segir Steindór Steindórsson (1993:122) að „[...]svo ör hafa verslunarskipti orðið þar [í Hafnarstræti 88] að varla hafa fleiri verið í nokkru öðru húsi í bænum“. Það segir e.t.v. sína sögu að sé „Hafnarstræti 88“ flett upp á gagnagrunninum timarit.is, koma upp nærri 2400 niðurstöður, frá 1906 (fram að því var húsið nr. 14 eða 10) til vorra daga. Þess má reyndar geta, að einhver hluti þessa fjölda getur átt við húsið Hafnarstræti 88b, sem byggt var 1945 og rifið 2001, og hýsti m.a. Prentverk Odds Björnssonar og síðar Hitaveitu Akureyrar. Í Fasteignaskrá eru nú skráðar fjórar íbúðir í Hafnarstræti 88 og fjögur verslunarrými. Í norðurenda er, þegar þetta er ritað, fasteignasala og í suðurenda Rakarastofa Akureyrar. Þangað sækir sá sem þetta ritar að jafnaði sínar hárklippingar og getur ekki annað en mælt með rakarastofunni, enda þótt þessum skrifum sé ekki ætlað að gegna hlutverki auglýsinga.

Hafnarstræti 88 er eitt af stærstu og reisulegustu timburhúsum bæjarins, skraut í anda sveitserstíls gefur húsinu skemmtilegan svip og er húsið auk þess í mjög góðri hirðu. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir árið 1923. Í Húsakönnun 2012 fær húsið umsögnina: „Húsið hefur verið endurbyggt af myndarskap. Það fer mjög vel í umhverfinu og setur svip á bæjarmyndina. Hlutföll eru falleg og frágangur allur vandaður“ (Árni Ólafsson 2012: 49). Greinarhöfundur tekur svo sannarlega undir hvert þessara orða.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 8. ágúst 2022 en einnig er mynd frá 31. júlí 2010 þar sem fjöldi manns er samankominn í sögugöngu um Innbæinn og Miðbæinn undir leiðsögn Gísla Sigurgeirssonar. Greinarhöfund minnir, að hann sé þarna að segja frá ævintýrum Friðriks Kristjánssonar bankastjóra.

Heimildir:

Árni Ólafsson, Akureyrarbær, Teiknistofa Arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar. 2012. Drottningarbrautarreitur-Hafnarstræti- Húsakönnun 2012. Minjastofnun. Pdf-skjal aðgengilegt á slóðinni https://husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_157.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 173, 11. apríl 1899. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.

Bæjarstjórn Akureyrar. Fundargerðir 1879-1900 (vélrituð afrit). Fundir nr. 771 og 772 8. nóv. og 22. nóv. 1898. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Brunabótamat 1917-22. Varðveitt á Héraðsskjalafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1917-1922 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar III bindi. Akureyrarbær.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30