Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 8; Æsustaðir

Fyrsta verk Bygginganefndar Akureyrar á árinu 1906 var að afgreiða lóð og byggingaleyfi til handa Jóni nokkrum Guðmundssyni. Lóð þessi stóð að heita mátti „uppi í sveit” eða sunnanvert í Grófargili, nokkuð utan þéttbýlisins. Í upphafi ársins 1906 var þéttbýlismyndun utan hinnar eiginlegu Akureyrar, Fjörunnar og Oddeyrar nokkuð skammt á veg komin. Þó að heita mætti, að hin bratta og illfæra brekka, sem skildi þessa byggðakjarna að, væri að mestu fullbyggð, voru sárafá hús í brekkunum sjálfum. Í nágrenni Stóra – Eyrarlands hafði reyndar risið myndarlegt sjúkrahús og háreist Gagnfræðaskólahús en að frátöldum smábýlum í landi Eyrarlands voru næsta fá íbúðarhús á brekkunum. Akureyrarbær hafði keypt Eyrarlandsjörðina árið 1893 og lagt hana undir sitt lögsagnarumdæmi þremur árum síðar, gagngert til þess að eiga land undir íbúðarhús og smábýli. En það var þann þriðja janúar árið 1906 að Bygginganefnd bókaði eftirfarandi:
 

Var þá tekið fyrir að útmæla lóð til handa trjesmið [svo] Jóni Guðmundssyni […]. Takmörk lóðarinnar eru ákveðin þannig: Lóðin er 125 suður frá húsi Alberts Jónssonar, rjetthyrndur [svo] ferhyrningur, 60 fet á lengd meðfram Eyrarlandsvegi, 40 fet til vesturs frá húslínunni en húslínan er 45 vestur frá Eyrarlandsvegi, eins og hann liggur nú. Á lóð þessari var Jóni Guðmundssyni leyft að byggja hús úr timbri, tvílypt [svo] með lágu risi, 14x12 ½ al. og standi það neðst á lóðinni, 5 ál. sunnan við norðurtakmörk hennar (Bygg.nefnd.Ak. nr. 304, 1906).

En hvert var hús Alberts Jónssonar? Þar var um að ræða hús sem reist var árið 1902 og stóð nokkurn veginn þar sem nú er anddyri Safnaðarheimilis Akureyrarkirkju. Það hús kallaðist jafnan Stóruvellir, eftir bernskuheimili Alberts og var rifið upp úr miðri 20. öld, þegar kirkjulóðin var skipulögð. (Stóruvellir sjást á þessu stórmerkilega myndskeiði af Akureyri sumarið 1950, á 44. sekúndu).

Eyrarlandsvegur 8 er tvílyft timburhús með lágu risi á miðlungsháum kjallara, ef svo mætti segja. Það er að heita má tvær álmur, sú stærri og fremri snýr hlið að götu og stöfnum NA-SV og á henni er útskot að aftan. Suðvestur úr húsinu er smærri álma sem snýr stafni til vesturs og tengist hún „framhúsinu“ með tengibyggingu sem skagar 2m frá til suðurs og vesturs frá suðurstafni og vesturhlið. Á suðurhlið eru inngöngudyr og tröppur að þeim á útskoti þessu. Húsið er klætt steinblikki og bárujárn er á þaki og einfaldir þverpóstar í flestum gluggum. Á framhlið er upphleyptur kantur eða band meðfram neðri gluggabrúnum hvorrar hæðar og yfir inngöngudyrum að sunnan voldugur, þríhyrndur bjór (rammi yfir dyrum) sambyggður hliðargluggum. Tveir gluggar á efri hæð útskotsins eru með bogadregnum efri lista. Setur þessi umbúnaður skemmtilegan og skrautlegan svip á húsið, sem annars er einfalt og látlaust að gerð. Grunnflötur suðurálmu mælist 9,10x8,14m, útskot að vestan 2,54x2,04m og útskot að sunnan 2x7,68m. Vesturálma er 5,73x5,35m. Tengigangur milli álmanna er 2,05x4,10m. Þessi nákvæmu mál eru fengið af uppmælingateikningum Aðalsteins Júlíussonar af húsinu frá 1994. Upprunalegar teikningar af húsinu liggja ekki fyrir, en það er raunar mjög sjaldgæft í tilfelli húsa frá upphafi 20. aldar.

Þegar flett er í gegnum manntal ársins 1906 má finna hús sem hvorki er nefnt með nafni né götuheiti en ráða má, að það sé staðsett á brekkunni. Eigandi er skráður Jón Guðmundsson og hann þar búsettur ásamt fjölskyldu sinni, hann var kvæntur Sigurborgu Kristbjarnardóttur og áttu þau fjögur börn. Auk þess voru búsett í hinu ónefnda húsi á brekkunni þau Sv. Svendsen málari og Helga Bergþórsdóttir lausakona. Á næstu blaðsíðu við umrætt hús er annað ónefnt en eigandi þess Jón Guðlaugsson. Það var einmitt 14. apríl 1906 að þeir nafnar, Guðmundsson- og Guðlaugsson fá lóð og byggingarleyfi á melnum norðan Grófargils. En bíðum nú við, það er handan Grófargilsins og þessi hús kallast Melshús. Byggði Jón Guðmundsson tvö hús, sitt hvoru megin Grófargils árið 1906? Og er hið nafnlausa hús á Brekkunni í manntalinu árið 1906 e.t.v. Eyrarlandsvegur 8 og enginn búsettur í Melshúsi, eða öfugt? Af „registrum“ Bygginganefndar mætti ráða, að sá Jón Guðmundsson sem fær lóðina við Eyrarlandsveg í ársbyrjun 1906 sé sá sami, og fær lóðina á melnum ásamt nafna sínum Guðlaugssyni um vorið sama ár. En það mun þó ekki vera tilfellið. Í bókunum Bygginganefndar 3. janúar 1906 er Jón Guðmundsson, sem úthlutað er lóðinni við Eyrarlandsveg, titlaður trésmiður en sá Jón Guðmundsson sem reisti Melshúsið var skósmiður. Þannig er um tvo alnafna að ræða, sem báðir byggðu hús á Brekkunni, sitt hvoru megin Grófargils á sama ári. Jón Guðmundsson, sem fékk að byggja á melnum, var skósmiður og gekk undir nafninu Jón G. Ísfjörð.

Þannig er næsta víst, að Jón Guðmundsson trésmiður og byggingameistari hafi reist Eyrarlandsveg. Jón var fæddur 10. apríl 1875 í Grýtubakkahreppi. Hann nam trésmíðar á Akureyri hjá Davíð Sigurðssyni og hélt að því búnu til Danmerkur þar sem hann dvaldi í fjögur ár og nam iðnteiknun og „annað sem laut að fullkomnun í byggingariðn“. Hann kom að byggingu fjölda stórhýsa á Akureyri og nærsveitum m.a. Kristneshælis, Barnaskólans (sem nú kallast Rósenborg), Akureyrarapóteks og var auk þess einn aðalhvatamaður að stofnun Iðnaðarmannafélags Akureyrar. Þá stundaði hann einnig útgerð. Síðast en ekki síst má nefna, að Jón Guðmundsson var byggingameistari útileguskála sem skátasveitin Fálkar reistu sumarið 1932 og nefndu Fálkafell.

Jón Guðmundsson hefur ekki verið búsettur lengi hér, mesta lagi í fáeina mánuði, og mögulega hefur hann reist húsið gagngert til að selja það. Árið 1906 er hann skráður til heimilis í Aðalstræti 22 en enginn virðist búsettur að Eyrarlandsvegi 8 (sjá fyrri málsgrein um nafnlausu húsin á Brekkunni). Árið 1907 er eigandi hússins og íbúi orðinn Pálmi Jónsson. Hafði hann áður verið bóndi á Æsustöðum í Saurbæjarhreppi, þar sem konan hans, Jónína Jónsdóttir var uppalin. Pálmi var hins vegar fæddur og uppalinn á Kerhóli í Sölvadal. Nefndu þau hús sitt Æsustaði, eftir fyrrum bújörð þeirra og æskuheimili Jónínu. Nýlega hefur verið fest skilti með því nafni á framhlið hússins.

Árið 1909 fær Pálmi leyfi til að byggja fjós á lóð sinni við „No. 8 við Eyrarlandsveg“, 11x6 ½ álna breitt, 12 álnir frá „skúr aðalhússins“. Snemma árs 1915 er Pálma einnig heimilað að breyta húsinu „No. 8 við Eyrarlandsveg” en ekki kemur fram í hverju þær breytingar eru fólgnar, heldur aðeins, að þær séu gerðar samkvæmt framlögðum uppdrætti. Uppdrátturinn hefur líkast til ekki varðveist og höfundar er ekki getið. Pálmi Jónsson stundaði nokkurn búskap en hann átti erfðafestuland og fékk þar leyfi til að reisa peningahús úr torfi og grjóti. Mögulega hefur erfðafestuland hans verið aðliggjandi lóðinni við Eyrarlandsveg. Í Fasteignamati 1918 er húsinu sagt fylgja tún, sem fóðrað geti 30 kindur. Höfum það í huga, að fram á 3. áratug 20. aldar var þessi staður nokkurn veginn „upp í sveit“. Húsaröðin við Eyrarlandsveg tók ekki að byggjast fyrr en eftir 1923 og Barnaskólinn 1930. Hverfið þar ofan við, Möðruvallastræti, Laugargata og Skólastígur risu löngu síðar.

Í brunabótamati árið 1916 er húsið sagt vera tvílyft timburhús með skúr við bakhlið og „útúrbyggingu“ við suðurstafn. Húsið var timburklætt en þak járnvarið. Á neðri hæð voru alls sex stofur og forstofa og á efri hæð fjórar stofur, forstofa, eldhús og búr. Í kjallara voru fimm geymsluherbergi og „kokkhús“. Grunnflötur hússins var sagður 8,8x8,2m en „útúrbyggingin“ svokallaða var 4,9x3,8m (Brunabótafélagið 1916, nr. 129). Svokölluð útúrbygging er væntanlega forstofubyggingin á suðurhlið hússins, sem síðar var byggt við.

Árið 1919 var Sigurði Kristinssyni bókbindara leyft að byggja lítið hús á túni Pálma Jónssonar fyrir ofan Æsustaði. Byggingin var „[...] leyfð með því skilyrði, að skúrbyggingin yrði tekin burtu hvenær sem bygginganefnd eða bæjarstjórn krefst þess“ (Bygg.nefnd Ak. 1919: nr. 453). Af því húsi er það að segja, að Kristján nokkur Helgason keypti það nýbyggt og flutti um nokkra metra og fékk undir það lóð og bráðabirgðastöðuleyfi. Umrætt hús stendur hins vegar enn og er nú Möðruvallastræti 1a (lengi vel Eyrarlandsvegur 14b). Aðrar byggingar Æsustaða við Eyrarlandsveg eru hins vegar löngu horfnar. Árið 1920 fá þeir Pálmi Jónsson og Aðalsteinn Kristinsson leyfi til breytinga; rífa svalir á norðurhlið og setja þar glugga og flytja dyr á bakhlið „nokkuð norðar“ og setja glugga þar að ofan. Í manntali það ár, eru eigendur hússins hins vegar sagðir, Sigurður Kristinsson kaupfélagsstjóri og dánarbú Kristjáns Kristjánssonar en Pálmi Jónsson og fjölskylda enn búsett hér. Þau eru hins vegar á bak og burt þegar borið er niður í manntali ári síðar, en þau munu hafa flust til Reykjavíkur. Pálmi lést 1935 og Jónína árið 1953. Á meðal íbúa hússins árið 1921 eru Jónas Þorbergsson, þáverandi ritstjóri Dags og kona hans Þorbjörg Jónsdóttir. Tæpum áratug síðar varð Jónas Þorbergsson útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins við stofnun þess árið 1930 og þar af leiðandi fyrstur manna til að gegna þeirri stöðu.

Hafa síðan fjölmargir átt Eyrarlandsveg 8 og búið í húsinu. Árið 1949 var byggt við suðurenda hússins til vesturs eftir teikningum Stefáns Reykjalín. Eigindur hússins þá voru dr. Kristinn Guðmundsson og Bernharð Laxdal. Var þar um að ræða þann hluta hússins, sem framar í þessari grein er kallaður “vesturálma” og fékk húsið þá það lag, sem það enn hefur.

Eyrarlandsvegur 8 er í senn einfalt og látlaust hús en jafnframt stórbrotið og skrautlegt vegna byggingarlags: Í grunninn er um að ræða einfalt hús af algengri gerð timburhúsa frá tímabilinu í kringum aldamótin 1900 en húsið dregur einnig dám af skrautstíl sama tíma. Þá gefur viðbygging frá miðri 20. öld og útskot að vestanverðu húsinu sérstakan svip, á því eru mörg horn og kverkar. Húsið setur þannig skemmtilegan svip á umhverfi sitt og sama er að segja af lóð sem er nokkuð víðlend, gróin og vel hirt. Húsið er í mjög góðri hirðu og virðist hafa fengið sérlega gott viðhald á síðustu árum. Á framhlið þess er skilti með áletruninni Æsustaðir. Er það mjög vel, því rétt er að halda á lofti nöfnum húsa frá fyrr tíð með þessum hætti. Húsið Eyrarlandsvegur 8 er nokkuð frábrugðið að gerð og stendur nokkurn spöl utan heildstæðrar götumyndar neðri hluta Eyrarlandsvegar, en hún er að mestu skipuð veglegum steinhúsum frá 3. áratug 20. aldar. Greinarhöfundur fann ekki húsakönnun, þar sem Eyrarlandsvegur 8 er tekinn fyrir; mörk ítarlegrar húsakönnunar um þetta svæði eru við Eyrarlandsveg 12. En það liggur fyrir að Eyrarlandsvegur 8 eða Æsustaðir er friðað vegna aldurs þar sem það er byggt fyrir 1923.

Myndirnar eru teknar 23. febrúar 2013 og 3. mars 2024. Myndin af Æsustöðum í Eyjafjarðarsveit, fyrrum Saurbæjarhreppi er tekin 29. ágúst 2020.

Heimildir:

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 304, 3. janúar 1906. Fundur nr. 310, 14. apríl 1906. 354, 11. maí 1909 Fundur nr. 402, 1. febrúar 1915 Fundur nr. 439, 19. febrúar 1917. Fundur nr. 476, 19. maí 1920. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.

Hús dagsins: Hafnarstræti 57; Samkomuhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. maí 2024 | kl. 06:00

Oddeyrargötuöspin og hæðarmælingar trjáa

Sigurður Arnarson og Bergsveinn Þórsson skrifa
22. maí 2024 | kl. 19:00

Fimmtudagskvöld

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. maí 2024 | kl. 11:30

Kunningi frænda míns

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. maí 2024 | kl. 14:00

Dagur læknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
17. maí 2024 | kl. 18:00

Kolefnissugur og endurskinshæfni gróðurlenda

Sigurður Arnarson skrifar
15. maí 2024 | kl. 13:30