Fara í efni
Fréttir

Hörð mótmæli kennara í VMA

Verkmenntaskólinn á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Kennarafélag Verkmenntaskólans á Akureyri mótmælir harðlega vinnubrögðum mennta- og barnamálaráðherra og stýrihóps um eflingu framhaldsskóla í tengslum við fyrirhugaða sameiningu framhaldsskólanna tveggja á Akureyri, Verkmenntaskólans og Menntaskólans.

„Kennarafélag VMA sér sóknarfæri í samstarfi framhaldsskólanna tveggja en leggst gegn fyrirhugaðri sameiningu skólanna á þeim forsendum sem koma fram í skýrslu stýrihópsins,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu í dag.

Yfirlýsingin frá Kennarafélagi Verkmenntaskólans á Akureyri er svohljóðandi:

Kennarafélag VMA mótmælir harðlega vinnubrögðum mennta- og barnamálaráðherra og stýrihóps um eflingu framhaldsskóla í tengslum við fyrirhugaða sameiningu VMA og MA. Skv. skýrslu stýrihópsins sem birt var meðan á opnum fundi mennta- og barnamálaráðherra í Hofi stóð, þriðjudaginn 5. september, er markmið sameiningar m.a. að auka stoðþjónustu við nemendur, fjölga námsbrautum, efla iðn- og verknám og auka námsval nemenda. Annað kemur þó á daginn þegar rýnt er í efni skýrslunnar. Af henni má berlega ráða að meginmarkmið með sameiningu skólanna er hagræðing og sparnaður sem m.a. kemur fram í fækkun námsráðgjafa, sálfræðinga og kennara og stækkun nemendahópa. Þetta fer gegn menntastefnu stjórnvalda þar sem lögð er áhersla á vellíðan nemenda og jöfn tækifæri til náms, óháð t.d. móðurmáli eða námslegri stöðu.

Í skýrslu Fjármálaráðuneytisins (2008:5) annars vegar og skýrslu Ríkisendurskoðunar (2021:15) hins vegar um sameiningar ríkisstofnana kemur fram að sameining og viðamiklar breytingar skili ekki þeim árangri sem vænst er, eða í færri en 15% tilvika, vegna þess að:

  • Markmið og framtíðarsýn væri ekki nógu skýr eða ekki útskýrð nógu vel.
  • Fjárhagsleg samlegð væri ofmetin.
  • Undirbúningi og skipulagningu væri áfátt.
  • Ekki tækist að kveikja nægan áhuga á sameiningunni.
  • Starfsmannamálum væri ekki sinnt nógu vel.
  • Breytingastarf lognaðist út af áður en því væri lokið.

Ekki verður annað séð en að allir þessi þættir einkenni vinnubrögð mennta- og barnamálaráðherra og stýrihóps hans þegar kemur að fyrirhugaðri sameiningu VMA og MA. Ljóst má vera að of geyst er af stað farið og niðurstaðan er ekki í anda menntastefnu stjórnvalda né nýrra farsældarlaga, þar sem hagsmunir nemenda eiga að vera hafðir að leiðarljósi. Kennarafélag VMA sér sóknarfæri í samstarfi framhaldsskólanna tveggja en leggst gegn fyrirhugaðri sameiningu skólanna á þeim forsendum sem koma fram í skýrslu stýrihópsins.