186 brautskráð frá Verkmenntaskólanum

Það var þétt skipaður bekkurinn við brautskrift Verkmenntaskólans á Akureyri í Hofi í gær enda útskriftarhópurinn stór, 186 nemendur af tuttugu námsbrautum auk meistaranáms að loknu sveinsprófi. Skírteinin voru 219 því 33 nemendur tóku við tveimur og jafnvel þremur skírteinum. Þetta er næst fjölmennasti útskriftarhópur í sögu skólans að því er segir á vef skólans.
Á þessu skólaári hafa 302 nemendur útskriftast úr VMA – 116 nemendur í desember 2024 og 186 núna í maí 2025 – og eftir því sem næst verður komist hefur skólinn aldrei áður brautskráð jafn marga nemendur á einu skólaári.
Sigríður Huld Jónsdóttir var nú að brautskrá nemendur í síðasta skipti sem skólameistari VMA. Hún hóf mál sitt í gær á því að vitna til fyrstu brautskráningarræðu sinnar í Hofi í desember 2011:
„Það eru mörg hjörtu sem slá hratt núna. Þau slá hratt m.a. af stressi yfir því hvort maður líti nú örugglega nógu vel út hér uppi á sviðinu - og á ég þar bæði við nemendur og mig sjálfa sem stend, eins og þau, í fyrsta skipti í þessum sporum hér á sviðinu.“
Þannig hófst fyrsta ræða mín sem skólameistari VMA á þessu sviði í desember 2011 þegar ég var settur skólameistari í námsleyfi Hjalta Jóns Sveinssonar sem þá var skólameistari. Hjarta mitt slær enn hratt en núna minna af stressi – meira af stolti og þakklæti.
Fjölbreytileiki og sveigjanleiki
„Í undirbúningi fyrir þessa athöfn kíkti ég á nokkrar eldri ræður, en þessi er sú nítjánda. Í ræðum mínum í gegnum tíðina hefur sama stefið verið í gegnum þær allar; mikilvægi VMA í nærsamfélaginu og fyrir hvað hann stendur og svo vináttan,“ sagði Sigríður Huld.
„VMA hefur alltaf staðið fyrir fjölbreytileika og sveigjanleika í námsframboði og tækifærum til menntunar. Enginn skóli á Íslandi fyrir utan Tækniskólann í Reykjavík býður upp á jafn fjölbreytt námsframboð. Skólinn hefur boðið nemendum upp á sveigjanleika í námi sínu, þeir fá tækifæri til að taka námið á sínum hraða og bæta við sig námi, t.d. með því að taka stúdentspróf með iðn- og starfsnámi, fara í iðn- eða starfsnám að loknu stúdentsprófi, fara í iðnmeistaranám að loknu sveinsprófi eða bæta við sig annarri iðngrein. Þá hefur skólinn undanfarin ár gert eldri nemendum og fólki sem hefur farið í raunfærnimat, tækifæri til að koma í kvöld-, helgar- eða lotunám og mörg bæta við sig áföngum í fjarnámi skólans.“
Skólameistari ræddi síðan um skólastarfið í vetur og þá órjúfa vináttu sem myndist milli nemenda á mótunarárum framhaldsskólans:
„Hér á sviðinu eru einstaklingar sem hafa kynnst í VMA og hafa ný vinasambönd orðið til og önnur styrkst. Eitt af því sem okkur er öllum mikilvægt er vinátta. Hún getur breytt lífi okkar og það oftast til góðs. Að eiga góða vini sem taka vinum sínum eins og þeir eru getur verið huggun þegar eitthvað bjátar á hjá okkur. Við lærum svo margt í mannlegri hegðun í gegnum vini okkar. Samkennd, hjálpsemi og að finna að það sé einhver sem þarf á manni að halda en líka hvernig við getum tekist á við mótlæti, því það reynir alltaf á sanna vináttu einhvern tímann. Það koma upp árekstrar og mótlæti og þá þurfum við að kunna að takast á við það. Við þurfum að læra að taka öðru fólki – líka vinum okkar – eins og það er.
Samskipti við annað fólk nærir okkur en getur líka étið okkur upp ef við eigum í erfiðum samskiptum. Lífið er og verður alltaf þannig við munum eiga góða daga og erfiða daga. Það hvernig við byggjum upp samskipti og vináttu við annað fólk verður ekki kennt í skólastofu eingöngu. Við lærum mannleg samskipti með því að umgangast annað fólk og þannig verður til traust og vinátta.“
Líf og fjör
„Það hefur verið líf og fjör í VMA á þessu skólaári - og svona af því að stundum er sagt að ekkert hafi verið gert í skólastarfi og félagslífinu þá er gott að rifja það aðeins upp,“ sagði Sigríður Huld og taldi upp ýmislegt; m.a. nýnemahátíð, nýnemaball, Halloween-draugahús, fleiri böll, árshátíð, jólapeysudag, söngkeppni, dimission, þátttöku í Gettu betur og nokkra gleðidaga sem felast í því að nemendafélagið Þórduna taki á móti nemendum í upphafi skóladags og færir þeim gleði, oftast í formi einhvers matarkyns.
„Það er byggt frístundahús og smáhýsi af nemendum byggingadeildar og nemendur í stálsmíði smíðuðu kerrur. Frístundahúsið má finna á fasteignavefnum og sértu í sumarbústaðarhugleiðingum þá færðu ekki betra hús og um að gera að gera tilboð. Siðast þegar ég vissi var enn óseld ein kerra. Þetta er of gott tækifæri til að nota ekki til að auglýsa. Nú, nemendur í kjötiðn breyttu kjötskrokkum í steikur, pylsur og álegg og nemendur í matreiðslu elduðu dýrindis allt upp í sex rétta máltíðir sem einhverjir þurftu að borða, m.a. við starfsfólkið.“
„Íslandsmót iðngreina var haldið í Laugardalshöll í mars og þar eignuðumst við Íslandsmeistara í rafvirkjun og rafeindavirkjun auk þess sem einn nemandi í rafvirkjun var í 1. sæti í forritunarkeppni rafvirkja.
Nokkur lið frá VMA tóku þátt í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla sem fram fór í Smáralind nú í vor. Fimm lið nemenda á viðskipta- og hagfræðibraut VMA kepptu fyrst við 140 fyrirtæki úr flestum framhaldsskólum á Íslandi og komst eitt lið í lokakeppnina þar sem 30 lið kepptu. Liðið stóð sig frábærlega í harðri keppni. Nemendur á listnáms- og hönnunarbraut sýndu lokaverkefni sín hér í Hofi og kvöldskólanemendur í Deiglunni og flestir nemendur hér á sviðinu skila lokaverkefnum á sínum brautum.
Erlent samstarf hefur verið með miklum blóma i vetur. Nemendur og starfsfólk taka á móti gestum og taka þátt í ferðum og verkefnum erlendis sem aldrei fyrr. Nemendum og starfsfólki VMA gefast dýrmæt tækifæri í gegnum erlent samstarf, sem er reynsla sem þátttakendur búa að alla ævi. Til Akureyrar hafa komið á annað hundrað manns í gegnum hin ýmsu verkefni sem VMA tekur þátt í og rúmlega 100 nemendur og starfsfólk skólans farið erlendis til að taka þátt í samstarfsverknum sem efla víðsýni, fólk kynnist nemendum, starfsfólki og framhaldsskólastarfi í öðrum löndum. Við getum með stolti sagt að VMA sé í fararbroddi hvað varðar erlend samstarfsverkefni á Íslandi en langflest verkefnin eru unnin með styrkjum í gegnum Erasmus+ menntaáætlunina.
Það er því sannarlega af nógu af taka í VMA og þetta er alls ekki tæmandi listi yfir það fjölbreytta og frábæra starf sem starfsfólk og nemendur vinna að á hverju skólaári.“