Fara í efni
Fréttir

Horfa þarf til framtíðar frekar en til fortíðar

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri. Myndir: Hilmar Friðjónsson

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, kallaði eftir frekari umræðu um framhaldsskólastigið „og að hún snúist um eitthvað annað en lokapróf og námsmat eða afturhvarf til stúdentsprófsbrauta frá síðustu öld,“ í ræðu sinni við brautskráningu frá skólanum í gær. Sigríður Huld brautskráði þá nemendur í 19. og síðasta skipti því hún lætur af störfum í sumar.

„Umræðan einkennist um of á skóla en ekki nám og um fortíðina en ekki framtíðina,“ sagði Sigríður Huld sem vill frekari umræðu „á faglegum nótum og að það sé greint betur hvers konar nám þarf inn í framtíðina, hvernig við í framhaldsskólunum þurfum að þróast. En fyrst og fremst þarf að finna út hvernig hægt er að auka áhuga ungs fólks á námi og að ljúka námi hvort sem það er til að undirbúa nemendur fyrir háskólanám eða atvinnulíf.“

Þjálfa þarf gagnrýna hugsun, sagði skólameistari, „og þjálfa huga og hönd, efla sköpunarkraftinn og virkja nýjar hugmyndir. Þjálfa rökhugsun með því að greina og meðtaka upplýsingar, sannprófa þekkingu og miðla henni. Nú á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu er mikilvægt að þjálfa gagnrýna hugsun, miðla samkennd og efla lýðræðislega umræðu.“ 

Ekki þarf síður, sagði skólameistari, að standa vörð um lýðræðislegt skólastarf án ritskoðunar og afskipta pólitískra afla sem tali gegn gagnrýndu rannsóknarstarfi og umræðu um mannréttindi og lýðræði. Til þess þurfi þor og metnað, en það sé ekki nóg; stjórnvöld þurfi að styðja við þá stefnu sem þau sjálf hafi sett sér. Á það skorti allt of mikið að framhaldsskólum sé gert það kleift að vera það menntakerfi sem skapi nemendum þau tækifæri sem þau sjálf, skólarnir og stjórnvöld stefni að.

Sigríður Huld nefndi ýmsa athyglisverða punkta í ræðu sinni:

  • Á undanförnum árum hafa framhaldsskólar á Íslandi breyst mikið, námsframboð er fjölbreyttara og fleiri skólar bjóða upp á námstækifæri fyrir ólíka nemendahópa út frá getu og hæfni þeirra.
  • Kennsluaðferðir hafa breyst, kennaranám hefur breyst, sjálfstæði nemenda er meira í náminu og einfaldara að finna þann farveg í námi sem hentar nemendum á hverjum tíma.
  • Þessar breytingar sjást vel í VMA og kennarar og starfsfólk skólans þurft að bregðast við allskonar áskorunum.
  • Engu að síður er umgjörð náms og þess námsumhverfis sem er í íslenskum framhaldsskólum ekki alltaf að höfða til nemenda og sérstaklega ekki til ungra karlmanna.
  • Áhugaleysi á námi almennt hjá nemendum af öllum kynjum er jafnframt að aukast um allan heim.
  • Það þarf að rýna getur í gögn og finna leiðir til að auka áhuga ungs fólks á námi.
  • Skólaumhverfið og kerfið sem er utan um það er ekki undanskilið, það þarf að vera opið fyrir breytingum og ganga í takt við samfélagsbreytingar, þarfir og væntingar ungs fólks.
  • Ég kalla eftir frekari umræðu um framhaldsskólastigið og að hún snúist um eitthvað annað en lokapróf og námsmat eða afturhvarf til stúdentsprófsbrauta frá síðustu öld.

  • Umræðan einkennist um of á skóla en ekki nám og um fortíðina en ekki framtíðina.
  • Ég kalla eftir frekari umræðu á faglegum nótum og að það sé greint betur hvers konar nám þarf inn í framtíðina, hvernig við í framhaldsskólunum þurfum að þróast.
  • En fyrst og fremst þarf að finna út hvernig hægt er að auka áhuga ungs fólks á námi og að ljúka námi hvort sem það er til að undirbúa nemendur fyrir háskólanám eða atvinnulíf.
  • Það þarf að þjálfa gagnrýna hugsun og þjálfa huga og hönd, efla sköpunarkraftinn og virkja nýjar hugmyndir. Þjálfa rökhugsun með því að greina og meðtaka upplýsingar, sannprófa þekkingu og miðla henni.
  • Nú á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu er mikilvægt að þjálfa gagnrýna hugsun, miðla samkennd og efla lýðræðislega umræðu.
  • Ekki síður þurfum við að standa vörð um lýðræðislegt skólastarf án ritskoðunar og afskipta pólitískra afla sem tala gegn gagnrýndu rannsóknarstarfi og umræðu um mannréttindi og lýðræði.
  • Til þess þarf þor og metnað. En það er ekki nóg að skólar hafi þor og metnað, stjórnvöld þurfa að styðja við þá stefnu sem þau sjálf hafa sett sér.
  • Í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 segir m.a. að framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar velti á samkeppnishæfni og sjálfbærni íslenska menntakerfisins.
  • Ég tel okkur öll geta verið sammála því. Það skortir samt allt of mikið á að framhaldsskólum sé gert það kleift að vera það menntakerfi sem skapi nemendum okkar þau tækifæri sem þau sjálf, skólarnir og stjórnvöld stefna að.

Ekkert heyrst í heilt ár

Sigríður Huld vék síðan að húsnæðismálum VMA:

  • Fyrir rúmlega ári síðan var ákveðið að hefja undirbúning að hönnun viðbyggingar við skólann og var skrifað undir samkomulag þess efnis milli ríkisins, sveitarfélaganna á svæðinu og skólans.
  • Síðan hefur ekkert heyrst. Reyndar hafa þrír menntamálaráðherrar verið á þessu rúmlega ári en af því er virðist er enginn að halda þessum byggingaráformum lengur á lofti.
  • Húsnæðismál skólans eru einn af þeim þáttum sem koma í veg fyrir að hægt sé að fjölga nemendum í iðnnámi, eins og stjórnvöld stefna að og spurn er eftir.
  • Innviðaskuldin er líka í framhaldsskólunum, sérstaklega í verknámsskólum þar sem tækjakostur og aðstaða nemenda og starfsfólks er orðin gömul og úr takti við nútímann.

Nánar hér á vef VMA