Fara í efni
Fréttir

Heilsuvernd hyggst opna heilsugæslustöð

Heilsuvernd, sem rekur hjúkrunarheimilin tvö á Akureyri, Hlíð og Lögmannshlíð, fyrir ríkið, vinnur markvisst að því að færa út kvíarnar í höfuðstað Norðurlands með því að opna einkarekna heilsugæslustöð í bænum. 

Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar, segir fyrirtækið þegar hafa tryggt sér reynslumikið fagfólk til að taka þátt í verkefninu.

„Heilsuvernd hefur áralanga reynslu af rekstri heilsugæslu í Urðarhvarfi í Kópavogi. Þjónustukannanir sýna mikla ánægju skjólstæðinga þeirrar stöðvar og félagið hyggst veita sömu framúrskarandi þjónustu á hinni nýju stöð á Akureyri,“ segir Teitur.

Getum lagt mikið af mörkum

„Árið 2021 tók félagið við rekstri hjúkrunarheimila á Akureyri. Þar höfum við sýnt fram á mjög góðan árangur, bæði hvað varðar gæði og rekstur heimilisins. Íbúar og aðstandendur hafa verið ánægðir þrátt fyrir ýmsa vankanta á húsnæði sem nú horfir til betri vegar. Starfsfólk er ánægt, drífandi og metnaðarfullt. Þá er leitast eftir því að starfa hjá félaginu. Við erum fullviss um að við getum lagt mikið af mörkum í þjónustu við íbúa Akureyrar á sviði heilsugæslu og hlökkum til að sýna viljann í verki,“ segir forstjórinn við Akureyri.net.

Teitur segir of snemmt að tjá sig um það hvar heilsugæslustöð fyrirtækisins verður til húsa.

Heilsugæslustöðin á Akureyri – Heilbrigðisstofnun Norðurlands – hefur lengi verið í óhentugu húsnæði í miðbænum. Fyrir nokkrum misserum var ákveðið að flytja starfsemina þaðan og setja upp tvær stöðvar; önnur verður í verlunarmiðstöðinni Sunnuhlíð í Glerárhverfi, hin í nýbyggingu við Þingvallastræti. Eftir að mygla fannst í húsnæði HSN í miðbænun var hluti starfseminnar fluttur annað. Ráðgert er að heilsugæslustöðin í Sunnuhlíð verði opnuð í lok þessa árs en hin árið 2025.

Will­um Þór Þórs­son heil­brigðisráðherra sagði aðspurður á síðasta ári að vel kæmi til greina að önn­ur heilsu­gæslu­stöðin á Ak­ur­eyri yrði einkarekin en ekki hefur heyrst meira rætt um það.