Fara í efni
Fréttir

Hefjast handa við að rífa Lundargötu 13

Niðurrif er hafið á Lundargötu 13. Hér er Daði Jónsson á verkstað en heilmikið verk er framundan í tengslum við förgun. Byggingarframkvæmdir í tengslum við nýtt hús á lóðinni hefjast í vor. Mynd: SNÆ

„Við keyptum húsið fyrr í sumar og ákváðum að hefjast strax handa við að rífa það til að koma í veg fyrir slysahættu í vetur,“ segir Daði Jónsson, einn af  eigendunum Lundargötu 13, í samtali við Akureyri.net.

Húsið sem verið er að rífa var dæmt ónýtt og stendur til að reisa nýtt hús á lóðinni. Að verkefninu standa fjórir ungir menn sem hafa stofnað félagið Form fasteignaþróun: Daði Jónsson, byggingarfræðingur og húsasmiður; Bergur Sverrisson, flugvirki og viðskiptafræðingur, og húsasmiðirnir Viktor Þór Jörgenson og Sigþór Árni Heimisson. Þeir hafa allir á síðustu árum unnið við byggingarframkvæmdir á Akureyri og segja verkefnið spennandi upphaf fyrir nýtt samstarf. „Við sáum tækifæri í þessu húsi og líka möguleika á að gera eitthvað jákvætt fyrir bæinn. Þetta er ekki stórt hús en staðsetningin og sagan á svæðinu skipta miklu máli,“ segir Daði.

Minjastofnun með í ráðum

Lundargata 13 er yfir 100 ára gamalt hús sem er friðað af Minjastofnun. Húsið hefur staðið autt og opið í mörg ár, en að sögn Daða ætlaði fyrrum eigandi hússins að gera það upp en þegar hafist var handa við verkið kom í ljós að það var verr farið en upphaflega var áætlað. Húsið var síðan dæmt ónýtt í heild sinni. Nýir eigendur hyggjast byggja nýtt hús á lóðinni í sama stíl og það sem verið er að rífa en samkvæmt Minjastofnun þarf að halda götumyndinni. „Nýja húsið verður timburhús á tveimur hæðum, með steyptum kjallara, en að innan stefnum við að nútíma þægindum,“ útskýrir Daði.

Þegar lóðin var girt af í sumar segir Daði að hann hafi strax fengið jákvæð viðbrögð frá nágrönnum. Segir hann að íbúar á Eyrinni séu  almennt ánægðir með að eitthvað sé loksins að gerast á lóðinni, þar sem húsið hafi verið orðin hálfgerð slysagildra eftir að rúður voru brotnar í því og það stóð opið fyrir veðri og vindum.

Búið er að girða Lundargötu 13 af en niðurrif á húsinu stendur yfir næstu daga. 

Framkvæmdir hefjast næsta vor

Framkvæmdir við byggingu nýs húss við Lundargötu 13 munu ekki hefjast fyrr en næsta vor, en eigendurnir stefna  að því húsið verði komið í fokhelt ástand fyrir næsta haust. Aðspurður hvað þeir hyggist síðan nýta nýja húsið í, þegar það verður tilbúið segir Daði það enn ekki ákveðið en líklega selji þeir það eða nýti í ferðaþjónustu.

„Við verðum ekkert milljónamæringar á þessu,“ segir Daði með bros á vör. „Það er dýrt að kaupa ónýtt hús og byggja nýtt, en við teljum að staðsetning og sagan á svæðinu eigi eftir að vinna með okkur. Þetta er verkefni sem gefur okkur dýrmæta reynslu og vonandi eitthvað sem bæði við og bæjarbúar getum verið stoltir af.“