Bjóða út byggingarrétt á Tjaldsvæðisreit
Akureyrarbær hefur nú auglýst til sölu byggingarrétt þriggja lóða fyrir íbúðarhús á svokölluðum Tjaldsvæðisreit. Samkvæmt drögum að deiliskipulagi er gert ráð fyrir 156-176 íbúðum í samtals ellefu fjölbýlishúsum á lóðunum þremur, auk bílakjallara. Áhugasamir aðilar geta eingöngu boðið í allan pakkann, ekki er hægt að bjóða í stakar lóðir.
Deiliskipulagsvinnu fyrir Tjaldsvæðisreitinn er ekki að fullu lokið og samkvæmt úthlutunar- og útboðsskilmálum fyrir reitinn er gert ráð fyrir að lokaferli deiliskipulagsins verði unnið í samvinnu við þann aðila sem fær lóðina. Með því að leyfa lóðarhafanum að fá tækifæri til að hafa áhrif á útfærslu skipulagsins er verið að reyna að koma í veg fyrir að gera þurfi breytingar á skipulaginu eftir að það hefur tekið gildi.
Samkvæmt frétt á vefsíðu Akureyrarbæjar er lágmarksverð fyrir byggingarrétt lóðanna liðlega 295 milljónir króna og að auki mun lóðarhafi þurfa að greiða gatnagerðargjöld og önnur lögbundin gjöld. Frestur til að skila inn tilboði er til 12. febrúar nk.
Þetta eru lóðirnar þrjár sem nú eru boðnar út:
- Svæði 2 - Byggðavegur 102-110
- Lóðin er 6.285 fermetrar að stærð
- Gert er ráð fyrir fimm stakstæðum íbúðarhúsum á fjórum hæðum með sameiginlegum bílakjallara á lóðinni
- Samtals verða 70-75 íbúðir í húsunum og 110-125 bílastæði í kjallara
- Svæði 4 - Hrafnagilsstræti 20/Þórunnarstræti 95-101
- Lóðin er 4.747 fermetrar að stærð
- Gert er ráð fyrir fimm stakstæðum íbúðarhúsum á fjórum hæðum með sameiginlegum bílakjallara á lóðinni
- Samtals verða 67-77 íbúðir í húsunum og 90-110 bílastæði í kjallara
- 38-45 íbúðir verða skilgreindar fyrir 60 ára og eldri
- Að minnsta kosti 250 fermetrar á fyrstu hæð Þórunnarstræti 95 verði skilgreindir sem þjónusturými/sameiginlegt rými
- Svæði 5 - Þórunnarstræti 105
- Lóðin er 1.570 fermetrar að stærð
- Gert er ráð fyrir einu stakstæðu íbúðarhúsi á þremur hæðum á lóðinni
- Samtals verða 15-17 íbúðir í húsinu og 16 bílastæði
- Í húsinu verði almennar íbúðir sem falla undir ákvæði um hlutdeildarlán eða að íbúðirnar verði seldar sem heild til óhagnaðardrifins félags
Auk þessara lóða sem nú eru boðnar til sölu er gert ráð fyrir um 2.600 fermetrum af nýbyggingu fyrir verslun og þjónustu á svæðinu, auk viðbyggingar við Berjaya hótelið. Húsið sem nú stendur við Þórunnarstræti 97 verður fjarlægt.