Fara í efni
Umræðan

Græni dagurinn

„Stærsta verkefnið okkar í þessu lífi er að verða góðar og ærlegar manneskjur. Það er auðvitað nauðsynlegt að læra íslensku, stærðfræði, sögu, ensku, dönsku, smíði og hvað sem verða vill til þess að við komumst eitthvað áfram en mikilvægast er samt alltaf að við vöndum okkur í samskiptum og komum fram af umhyggju, skilningi og virðingu.“
 
Fyrir kennara sem hefur starfað í fast að 40 ár fer þessi málsgrein að verða eins og litla Biblían. Síðast í dag, á græna deginum, sat ég með ungum dreng að leysa úr samskiptavanda. Það er eins og við manninn mælt að þegar maður gefur sér tíma til að hlusta á börn og leiðbeina þeim af umhyggjusemi þá eru þau full skilnings og samkenndar. Þau þrá afskipti og leiðbeiningar.
 
Græna deginum er ætlað að vekja sérstaka athygli á einelti. Í lífi kennarans er sá dagur allt árið, eða ætti að vera það, vegna þess að börn og ungmenni verja miklum tíma í skólanum og þar sem hundruð óþroskaðra sála koma saman eru árekstrar óumflýjanlegir. Stundum freistast ég til þess að þakka sérstaklega fyrir það að hafa verið fórnarlamb eineltis og náð þeirri gæfu að vinna farsællega úr því. En ég er enn að vinna úr því að bæði börnin mín hafi þurft að feta þann veg – það er eiginlega enn sárara. Þessi reynsla setur mark sitt á allt lífið og stundum freistast ég til að hugsa hvað hefði orðið úr mér ef ég hefði ekki þurft að „taka þennan slag“.
 
En það ber að hafa í huga að einelti er alls ekki bara skólatengt. Það er samfélagsmein! Einelti á sér stað á vinnustöðum fullorðinna, í fjölskyldum, vinahópum og eiginlega hvar sem er. Einelti er skilgreint sem ofbeldi og það var ákveðinn sigur þegar það var sagt hreint út. Eins og fyrr sagði þá eru börn tilbúin að skilja þessa hluti þegar þeir eru ræddir og útskýrðir en það eru fullorðnir sem bera ábyrgðina – börn læra það sem fyrir þeim er haft. Nú er ég búin að kenna nógu lengi til að sjá breytingarnar sem hafa átt sér stað. Allt frá því að ekkert var gert í þessum málum og börn sátu uppi með skaðann – bæði þolendur og gerendur – að nútímanum þar sem virkilega er unnið með þessi samskipti. Þegar svona mál koma upp á yfirborðið í dag þá rata þau gjarnan í fjölmiðla og það er þá sem allt fer á hliðina! Kommentakerfin fyllast af hatursfullum skilaboðum fullorðinna þar sem jafnvel mælt er með því að gerendur séu látnir „finna til tevatnsins“ og beittir ofbeldi! Það heyrist ekkert skólunum sem hafa jafnvel unnið þrotlausa vinnu en hafa ber í huga að þeir eru bundir þagnarskyldu!
 
Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það foreldrar sem bera ábyrgð á uppeldi barna sinna! En við vitum það líka að það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Einmitt þess vegna þurfum við að vera samtaka. Versta uppeldið á sér stað þegar þeir sem eiga að ala upp barnið tala ekki sama málið – tungumál umhyggju, skynsemi og virðingar.
 
Það er mín reynsla af lífinu að gerendur eineltis séu fólk sem finnur til vanmáttar og þar með óhamingju. Það á bæði við um börn og fullorðna. Þess vegna þurfa gerendur ekki síður stuðning.
 
Það hafa orðið miklar samfélagsbreytingar á Íslandi síðustu áratugi. Þar sem áður dugði að gera stöðugt grín að sama fólkinu í sveitarfélögum, jafnvel heilu fjölskyldunum sem urðu skotspónn kynslóð eftir kynslóð, hefur það færst yfir á fólkið sem kýs að koma hingað erlendis frá í leit að betra lífi, oft frá stríðshrjáðum heimi. Vissulega erum við orðið fjölmenningarsamfélag og það var kominn tími til! Íslendingar eru svo fáir að þeir gætu hafa þurft að horfa fram á úrkynjun annars!
 
Ég tek það að mér tvö kvöld í viku að kenna fullorðnum nýbúum íslensku. Sú krafa er gerð og hún er eðlileg. Það hafa aldrei verið kennd jafnmörg námskeið í Reykjanesbæ en á þessu hausti þannig að við getum ekki kennt nýbúunum um áhugaleysi. En það sem ég heyri er það að, jú, fólk lærir íslensku hjá mér en síðan þegar það fer út í hið daglega líf þá eru Íslendingar ekkert tilbúnir til að hlusta og tala íslensku við nýbúa! Fólk fer í búðir eða í stofnanir og ætlar að nota þekkingu sína en það er strax talað við það á ensku og enginn tími til að hlusta og leiðrétta. Það lærir enginn tungumál nema hann fái tækifæri til að nota það! Ég skammast mín fyrir samlanda mína þegar ég heyri þetta og get ekki með nokkru móti afsakað það. Við gerum kröfu um það að fólk sem hingað kemur læri tungumálið okkar en við ætlum ekki að taka þátt í því! Hversu sjálflægt getur samfélag orðið? Og svo er bara talað um „helvítis útlendingana!“
 
Í mínum huga þarf íslenskt samfélag að hugsa sinn gang í samskiptum! Fordómar gagnvart húðlit fólks eða uppruna eru tákn heimsku og þekkingarleysis , forrréttindablindu og ógeðfelldrar sjálfhverfu! Þegar björgunarsveitafólk gengur í hús með Neyðarkall til sölu til styrktar því sem í raun skiptir okkur mestu máli í samfélagssáttmála um að gæta að náunganum og björgunarsveitafólkið fær á sig holskeflu svívirðinga um húðlit þá er í raun verið að leggja í einelti, beita ofbeldi - bæði þá sem sækja styrkinn og þau sem hafa annan húðlit!
 
Viljum við í raun vera svona sjálfhverf og ógeðfelld þjóð? Við þurfum að taka til í eigin ranni og það ekki seinna en strax því það er og verður alltaf stærsta verkefnið okkar í þessu lífi að verða góðar og ærlegar manneskjur - og fyrirmyndir næstu kynslóða.
 
Hlín Bolladóttir er grunnskólakennari til áratuga, nú í Stapaskóla í Reykjanesbæ

Afsakið – Kemst ekki á fundinn

Jón Hjaltason skrifar
03. nóvember 2025 | kl. 15:30

Varaflugvallagjaldið og flugöryggi

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
01. nóvember 2025 | kl. 15:30

Hefðum ekki fært út efnahagslögsöguna

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
31. október 2025 | kl. 09:00

Er ofbeldi gagnvart eldri borgurum vandamál á Íslandi?

Björn Snæbjörnsson og Sigurður Ágúst Sigurðsson skrifa
23. október 2025 | kl. 14:00

Sýnum samstöðu, látum rödd okkar heyrast

Heiðrún Hafdal skrifar
23. október 2025 | kl. 10:00