Fara í efni
Umræðan

Græn skref SSNE

Hvað er eiginlega SSNE?

Síðan ég hóf störf sem verkefnastjóri við umhverfis- og loftslagsmál SSNE í nóvember sl. hef ég þurft að svara vinum og ættingjum ansi oft hvað SSNE eiginlega sé. Það er kannski ekki skrýtið, enda er skammstöfunin nokkuð óræð og samtökin einungis á þriðja aldursári sínu. Samtökin byggja þó á eldri grunni þar sem þau urðu til við sameiningu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Eyþings. Skammstöfun SSNE stendur fyrir Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og starfa eftir Sóknaráætlun svæðisins sem unnin er á breiðum vettvangi. Þrír málaflokkar eru í öndvegi í Sóknaráætlun Norðurlands eystra; atvinnuþróun og nýsköpun, menning og síðast en ekki síst; umhverfismál.

Æ meiri áhersla er lögð á umhverfis- og loftslagsmál innan SSNE, en meðal markmiða Sóknaráætlunar er að efla staðbundna þekkingu á umhverfis- og loftslagsmálum og að landshlutinn leggi sitt af mörkum til að ná markmiðum stjórnvalda um samdrátt í losun. Umhverfis- og loftslagsmál eru risastór og flókinn málaflokkur og kröfurnar aukast sífellt. Þegar verkefnin eru stór vill það gerast að fólki fallist hendur frammi fyrir þeim; Hvar á að byrja? Hefur það sem við gerum eitthvað að segja? Til hvers er ætlast af okkur?

Hvaða skyldur bera sveitarfélög í loftslagsmálum?

Loftslagsmálin eru verkefni samfélagsins alls og mikilvægt að stjórnvöld fari fram með góðu fordæmi. Sveitarfélögin hafa auk þess lögbundnar skyldur í loftslagsmálum, en í lögum um loftslagsmál frá 2019 er kveðið á um að:

Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins, fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins og sveitarfélög skulu setja sér loftslagsstefnu. Stefnan skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð.

Semsagt; sveitarfélög skulu setja sér loftslagsstefnu með skilgreindum markmiðum um samdrátt í losun, og til þess að geta sett sér slík markmið sem mark er takandi á þarf sveitarfélagið að halda utan um losun sína með grænu bókhaldi. Að sjálfsögðu þarf svo að innleiða aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem sett eru, annars er lítill tilgangur með útreikningum og markmiðasetningunni.

Það er mjög misjafnt hversu vel á veg sveitarfélög landsins eru komin í þessari vinnu, og það sama gildir um sveitarfélögin á Norðurlandi eystra. Til að styðja við sveitarfélögin á svæðinu í umhverfis- og loftslagsvinnu sinni hefur þeim verið boðið að taka þátt í verkefninu Græn skref SSNE.

Er eitthvað vit í þessum Grænu skrefum?

Ekkert eitt umhverfis- og loftslagsverkefni getur leyst allan þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Einhversstaðar þarf þó að byrja og Græn skref eru kjörið verkfæri til þess. Með því að taka þátt í Grænum skrefum SSNE fá sveitarfélögin stuðning við að uppfylla lagalegar skyldur samhliða því að innleiða beinar aðgerðir í starfsemi sína. Aðgerðir Grænna skrefa ná yfir flest svið almenns reksturs; dregið er úr kolefnisspori vegna samgangna og stutt við virka ferðamáta starfsfólks í og úr vinnu, aukin áhersla er lögð á fjarfundamenningu sem kemur sér ekki síst vel á landsbyggðinni, áhersla er lögð á úrgangsforvarnir og flokkun úrgangs, orkusparnað, umhverfisvænni innkaupastefnu og minni matarsóun, svo eitthvað sé nefnt.

Græn skref SSNE byggjast að mestu leyti á Grænum skrefum í ríkisrekstri, en ríkisaðilum hefur staðið til boða að innleiða þau með aðstoð Umhverfisstofnunar frá árinu 2014 og nú eru allir ríkisaðilar þátttakendur í verkefninu. Góð reynsla er því komin á verkefnið, ljóst er að það skilar árangri og mikil ánægja mældist meðal þátttakenda Grænna skrefa í ríkisrekstri í könnun sem lögð var fyrir þá í lok síðasta árs. Meðal þeirra ávinninga sem þátttakendur nefndu var aukin umhverfisvitund starfsfólks og þjónustuaðila ríkisstofnana, samdráttur í losun og minni kostnaður við rekstur til lengri tíma litið.

Þú borðar ekki fíl í einum bita

Með Grænum skrefum eru verkefni sem geta virst óyfirstíganleg í fyrstu bútuð niður í viðráðanlegar aðgerðir og smám saman byggist upp sterkt umhverfisstarf og umhverfisstjórnunarkerfi innan vinnustaðanna. Græn skref SSNE eru aðlöguð að starfsemi sveitarfélaga á minni stöðum og í dreifðari byggðum, auk þess sem þau taka mið af staðbundnum áherslum í Sóknaráætlun Norðurlands eystra.

Okkur sem störfum hjá SSNE þykir óþarfi að hvert sveitarfélag þurfi að finna upp hjólið þegar kemur að því að innleiða umhverfis- og loftslagsstarf í starfsemi sína. Þess má til gamans geta að SSNE hyggst innleiða Græn skref á öllum sínum starfsstöðvum og eru jafnframt fyrstu landshlutasamtökin sem bjóða sveitarfélögum sínum upp á stuðning við innleiðingu Grænna skrefa. Verkefnið hefur þegar vakið áhuga út á við og aldrei að vita nema fleiri fylgi í kjölfarið.

Með því að stíga skrefin saman deilum við kröftum okkar, aukum hagkvæmni og byggjum um leið upp þekkingu innan hvers sveitarfélags. Hverju sveitarfélagi verður mætt þar sem það er; sé sveitarfélagið nú þegar búið að vinna mikið innra umhverfisstarf á það einfaldlega minni vinnu eftir, og þau sem eru á byrjunarreit fá stuðning til að hefjast handa.

Ég hlakka til samstarfsins með sveitarfélögum SSNE og þess að stíga Græn skref í takt með þeim.

Kristín Helga Schiöth er verkefnastjóri Grænna skrefa SSNE

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00

Grunnskólarnir okkar allra

Sindri Kristjánsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 06:00