Göngustígur lagður gegnum kirkjugarðinn

Syðst í kirkjugarðinum á Naustahöfða á Akureyri hafa stórvirkar vinnuvélar verið í talsverðum jarðvegsframkvæmdum upp á síðkastið. Að sögn Smára Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Kirkjugarða Akureyrar, er þarna verið að slá nokkrar flugur í einu höggi. „Í samvinnu við Akureyrarbæ er verið að leggja göngustíg frá hringtorginu við Skautasvellsbrekkuna upp að Þórunnarstræti,“ útskýrir Smári. Verið sé að bæta stígatengingar því enginn stígur hefur verið á þessum kafla við Miðhúsabrautina að norðanverðu.
Fleiri lifandi en látnir koma í kirkjugarða
Mynd: Þorgeir Baldursson
Smári er ánægður með að stígurinn skuli liggja um kirkjugarðinn enda bendir hann á að fleiri lifandi en látnir komi í kirkjugarða. Samhliða stígagerðinni er verið að leggja drenlagnir á fjögurra metra dýpi á þessu svæði og því fylgi mikið rask. Þessar aðgerðir séu þó nauðsynlegar til að koma vætu úr jarðveginum t.d. eftir vorleysingar. Síðasti liðurinn í þessum framkvæmdum er einmitt að brjóta nýtt land undir svæði fyrir kistugrafir og það þurfi að gera með góðum fyrirvara svo að jarðvegurinn jafni sig.
Nú hillir undir að kirkjugarðurinn við Naustahöfða verði fullnýttur og Smári áætlar að svæði fyrir kistugrafir þar dugi í 10-12 ár í viðbót. Hann bendir hins vegar á að vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar megi búast við mikilli fjölgun andláta og greftrana á næstu árum. „Það eru að koma inn mjög stórir árgangar á næstunni og fólki 80 ára og eldra mun fjölga mikið, “ segir Smári. Hlutfall bálfara fer þó vaxandi á kostnað kistugreftrana, enda segir Smári að það sé auðvitað þjóðhagslega hagkvæmt.
Framkvæmdir við kirkjugarð í Naustaborgum hefjast fljótlega
Samkvæmt aðalskipulagi Akureyrarbæjar verður næsti kirkjugarður í Naustaborgum, þegar plássið á Naustahöfða þrýtur. Fjallað var ítarlega um þær hugmyndir í frétt á akureyri.net fyrir fjórum árum, þar sem meðal annars kemur fram að svæðið verði grænt útivistarsvæði. Smári segir að hönnunarvinna sé langt komin og það styttist í að jarðvegsframkvæmdir hefjist þar. Enda þurfi að undirbúa jarðveginn með nokkurra ára fyrirvara áður en hann verður tilbúinn fyrir greftranir, rétt eins og nú er verið að gera í kirkjugarðinum á Naustahöfða.