Fara í efni
Mannlíf

„Gætu orðið góðir, ef þeir nenntu að æfa“

Handboltaæði rennur gjarnan á Íslendinga í janúar, þegar karlalandsliðið – Strákarnir okkar – tekur þátt í Evrópumóti eða heimsmeistaramóti. Þannig er nú ástatt og ekki minnkaði áhuginn eftir að liðið vann alla þrjá leiki í riðlakepni EM sem nú fer fram í Ungverjalandi og Slóvakíu. Fyrsti leikur í milliriðli er á dagskrá í kvöld, þegar Ísland mætir Danmörku. 

Brynjar Karl Óttarsson, kennari við Menntaskólann á Akureyri, rifjaði í gær á vef skólans upp þá tíð þegar MA-ingar tóku miklu ástfóstri við þessa skemmtilegu íþrótt um 1950, 30 árum eftir að Íslendingar kynntust íþróttinni fyrst. Hann birtir á vef skólans bráðskemmtilega frásögn í skólablaðinu Munin af handboltamóti í MA 1952.

„Óvíst er hverjar handboltafyrirmyndir nemenda í MA voru árið 1952 þegar skólamótið fór fram. Hitt er víst að áhugi þeirra á handbolta var til staðar, jafnvel mikill um 1950,“ segir Brynjar, ef marka má greinina í blaðinu. „Þá er úttekt greinarhöfundar á frammistöðu liða og einstaklinga í mótinu ekki síður skemmtileg aflestrar,“ segir hann.

Greinin í Munin hófst með þessum orðum:

„Það er oft með ýmsar íþróttagreinar, að þær ganga yfir eins og bylgjur — allir fá áhuga á sömu íþróttinni í einu — sá áhugi varir misjafnlega lengi og dvín loks svo, að örðugt er að halda uppi kappleikum. Þannig hefur verið með handknattleikinn hér í skólanum. Undanfarin ár hefur áhugi verið mjög mikill á handknattleik, svo að íþróttahús skólans hefur flest kvöld verið þéttskipað áhugasömum nemendum, sem varla hafa viljað heyra annað nefnt en að fara í handbolta.“

Latar að æfa ...

Síðan fer greinarhöfundur yfir frammistöðu hvers bekkjar

Um VI. bekk karla segir: Þeir eru yfirleitt jafnir að getu, og ágætan liðsauka fengu þeir, þegar Ingi Þorsteinsson kom, en hann breiðir úr sér yfir nærri þveran salinn. Sigurður Emils er eldsnögg skytta. Hann og Ingi markmaður gætu orðið góðir, ef þeir nenntu að æfa. Hreggviður er einnig duglegur leikmaður.

Um VI. bekk kvenna segir: Þær hafa verið latar að æfa í vetur, og er frammistaðan í fullkomnu samræmi við það. Liðið gefur lítið tilefni til umsagnar. Skárst þeirra er Hanna Gabríels.

Smellið hér til að lesa greinina.