Fara í efni
Fréttir

„Frábærar fréttir fyrir okkur og landið“

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Það eru frábærar fréttir fyrir okkur og landið allt að Condor hafi í hyggju að hefja áætlunarflug milli Frankfurt og Akureyrar/Egilsstaða á næsta ári,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, í færslu á Facebook í kvöld.

Eins og Akureyri.net greindi frá í gær hefur þýska flugfélagið Condor ákveðið að hefja áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða sumarið 2023. Flogið verður vikulega á báða staði frá maí og til loka október, á laugardögum milli Frankfurt og Akureyrar en á þriðjudögum á milli þýsku borgarinnar og Egilsstaða.

Þorvaldur Lúðvík skrifar að með ákvörðun Condor stækki áfangastaðurinn Ísland, og Norður- og Austurland „fær frekari kynningu í erlendum fjölmiðlum. Þessu ber að fagna og verður ugglaust frábær viðbót við sumaráætlun okkar á næsta ári,“ segir hann.

„Þessi áform kristalla að við erum þrátt fyrir allt ekki alveg úti á túni með okkar hugmyndir og langvarandi væll um uppbyggingu á Akureyri og Egilsstöðum á heldur betur rétt á sér,“ skrifar Þorvaldur Lúðvík og bætir við: „Það getur verið erfitt að vera einn, en fleiri en einn og þá er partí. Maður er manns gaman“

Fljúga milli Akureyrar og Frankfurt næsta sumar