Fara í efni
Umræðan

Fimm ástæður til að fagna

Í fyrsta lagi ber að fagna því að nokkuð er síðan loftslagsmálin voru til lykta leidd – kerfislega. Eftir fjölmarga fundi og ráðstefnur hafa nú nánast öll lönd í heiminum samþykkt að fara úr gölluðum jarðefnaeldsneytisorkukerfum yfir í endurnýjanlega hreina orkugjafa, þ.e.a.s. fasa alveg út kol, olíu og gas. Verkefni okkar er heldur einfaldara þar sem olía er eina jarðefnaeldsneytið sem notað er á Íslandi.

Við Íslendingar höfum á undanförnum árum unnið á fullu í kerfislegum úrlausnum á málinu; eflt Orkusjóð, innleitt ívilnanir, breytt lögum og reglum, styrkt umhverfisáherslur landshlutasamtaka, staðfest umhverfis- og loftslagsstefnur og aðgerðaáætlanir í sveitarfélögum o.s.frv. Kerfislagfæringin er komin vel af stað.

Margt hefur gerst, breyst og verið framkvæmt síðan það lá skýrt fyrir hvert verkefnið og markmiðin væru. Íslandi gengur ágætlega í þessum umbreytingum. Þær mættu vissulega ganga mun hraðar en vegferðin er orðin nokkuð skýr og segja mætti að hún hafi verið kjörnuð vel árið 2021 þegar Alþingi festi í lög markmið um að Ísland nái kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040.

Þetta var ekki auðvelt allt saman en þetta hafðist og því ber að fagna.

Í öðru lagi hefur nýja tæknin reynst vera betri en sú gamla og oft jafnvel mun betri, ekki aðeins hvað varðar loftslagsmálin, heldur er hreinlega almennt um betri tækni að ræða. Rafbíllinn er einfaldlega betri bíll en jarðefnaeldsneytisbíll. Það getur meirihluti 30 þúsund rafbílaeigenda á Íslandi staðfest. Þetta sá enginn fyrir þegar fyrstu fjöldaframleiddu rafbílarnir komu fram, en réttu hvatakerfin skiluðu þessari óvæntu niðurstöðu og því ber að fagna.

Í þriðja lagi voru efasemdir framan af varðandi rafhlöðurnar í rafbílunum. Eins og með annað sem er framleitt eru rafhlöður í grunninn óumhverfisvænar. En þegar rafhlöður hafa einu sinni verið framleiddar eru þær með um og yfir 10 ára líftíma og hægt er að endurvinna um 95% af efnunum. Áætlað er að yfir 50% af efnum í rafhlöðu sem er framleidd í dag verði ennþá í notkun eftir meira en 100 ár. Við höfum séð skýrt á síðustu árum hversu hratt tæknin getur þróast og eðlilegt er að gera ráð fyrir að svo verði áfram. Rafhlöðurnar verða því að miklu leyti í hringrásarferli næstu áratugina, jafnvel í hundruð ára eða þar til ný tækni tekur við. Olían verður nefnilega bara brennd einu sinni, það er enginn með endurunna olíu á tanknum. Eins og hefur verið bent á endaði steinöldin ekki vegna skorts á steinum, heldur vegna tækniþróunar. Olíuöldin er sem betur fer við það að hljóta sömu örlög. Það sáu fáir fyrir að rafhlöðutæknin myndi þróast svona hratt bæði hvað varðar gæði endurvinnslu og að verðið myndi lækka svona hratt. Því ber að fagna.

Í fjórða lagi voru margir áhyggjufullir þegar byrjað var að reisa fyrstu stórskala vindmyllurnar og sólarsellurnar. Helstu áhyggjur snéru að áhrifum á fólk og dýralíf en einnig að endingu, endurvinnslu, kostnaði og orkunýtni. Allar þessar áhyggjur reyndust að mestu óþarfar enda framleiða vindmyllur og sólarsellur í dag hvað hagkvæmustu kílóvattstundirnar í mörgum raforkukerfum heims. Við þetta bætist síðan þróunin í rafhlöðum sem virka eins og uppistöðulón vatnsaflsstíflu en þannig getur öll orkan sem framleidd er með vindi og sól nýst þar sem hægt er að geyma hana þar til þörf er á henni. Meiri ending og nýtni, lægri kostnaður og miklir möguleikar á að geyma orkuna. Því ber að fagna.

Í fimmta og síðasta lagi höfum við ekki bara tekið verulega til í orkukerfum heimsins heldur einnig í efnisferlunum. Búið er að stórbæta alla endurvinnslu og endurnýtingu og verið er að byggja ferla og verksmiðjur sem nýta úrganginn og koma honum aftur til baka inn í hringrásina. Við höfum líka sett í stefnur og markmið að draga verulega úr úrgangsmyndun. Minni urðun, betri ferlar og meiri hringrás efna. Því ber að fagna.

Stefnan og markmiðin eru sett, verkefnið er skýrt, lausnirnar eru til staðar og nú snýst þetta bara allt um innleiðingahraðann sem er algjörlega í okkar höndum. Við erum ekki komin í mark, erum reyndar tölfræðilega á byrjunarreit. Hins vegar er búið að leggja hlaupabrautina og reima skóna þannig að ekkert er því til fyrirstöðu að snarauka innleiðingarhraðann en það má alveg fagna alvöru áföngum.

Guðmundur Haukur Sigurðarson er framkvæmdastjóri Vistorku

Almenningssamgöngur við flugvelli

Þóroddur Bjarnason skrifar
20. júní 2024 | kl. 20:00

Hjúkrunarheimili á Akureyri: Óþolandi staða

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
20. júní 2024 | kl. 13:50

Ert þú í tengslum?

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 08:58

Lærðu að nota nalaxone nefúða, það getur bjargað lífi

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
07. júní 2024 | kl. 11:15

Þingmenn opnið augun ­og finnið kjarkinn

Jón Hjaltason skrifar
05. júní 2024 | kl. 15:10

Hvað er að frétta í lífi án frétta?

Skúli Bragi Geirdal skrifar
05. júní 2024 | kl. 12:00