Fara í efni
Fréttir

Erum í raun ekki aðilar að refsimálinu

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir félagið í raun ekki aðila að refsimáli sem rekið er í Namibíu gegn heimamönnum.

„Eins og alþjóð veit er starfsemi tengd dótturfélögum í Namibíu til rannsóknar. Mikilvægt er að halda því vandlega til haga að engir starfmenn á okkar vegum hafa verið ákærðir, ekki hefur verið óskað framsals á neinum okkar starfsmanna og í raun erum við ekki aðilar að refsimálinu sem rekið er gegn aðilum í Namibíu. Þeir hafa hins vegar setið í fangelsi í tvö og hálft ár án dóms,“ sagði Þorsteinn á aðalfundi Samherja sem haldinn var á Dalvík 19. þessa mánaðar.

„Rannsókn hér á landi hefur einnig staðið yfir í tvö og hálft ár án þess að nokkuð hafi komið fram sem gefur tilefni til að stimpla einstaka starfsmenn Samherja hf. sakborninga. Félagið hefur brugðist við þessum málum með ýmsum hætti og mun halda áfram að verja sakleysi sinna starfsmanna“ sagði Þorsteinn og bætti við að hann væri sannfærður um starfsmenn Samherja yrðu hreinsaðir af öllum ásökunum þegar upp væri staðið.

„Í þessu sambandi er ánægjulegt að geta undirstrikað að samstarfsaðilar okkar um allan heim hafa haldið tryggð við okkur,“ sagði Þorsteinn Már.