Ef við getum ekki lækkað fasteignaskatt, þá eigum við að hagræða

Bæjarráð Akureyrar samþykkti nýverið að fela sviðsstjóra fjársýslusviðs að reikna út sviðsmyndir af lækkun á fasteignaskatti. Gott og blessað, og tímabært. Það þarf raunar ekki miklar reikningskúnstir til að staðfesta það sem allir vita sem greiða þessi gjöld til sveitarfélagsins. Þau hafa hækkað allt kjörtímabilið, og einfaldlega úr hófi fram.
Það hlýtur því að vera forgangsverkefni okkar, þegar bæjarstjórn kemur saman eftir sumarfrí, að finna leiðir til að mæta íbúum og ná saman um sanngjarnar álögur. Það er vissulega þægileg staða að sjá auknar tekjur renna inn í kassann, en hvenær var sú ákvörðun tekin og kynnt fyrir íbúum og fyrirtækjum að skattbyrði þeirra ætti að vaxa ár eftir ár? Enda er það reyndar svo, að þótt álagningarhlutfallið verði lækkað, þá er engu að síður hægt að halda tekjum bæjarins óbreyttum.
Við eigum í það minnsta að lækka álagningarhlutfallið þannig að gjöld hækki ekki á næsta ári umfram verðbólgu. Raunar eigum við að gera betur og skoða það alvarlega, hvort ekki sé hægt að lækka hlutfallið enn meira og leiðrétta þannig hækkanir síðustu ára. Nú - og ef við getum ekki lækkað fasteignaskatta með góðu móti miðað við núverandi forsendur, þá eigum við að hagræða. Rýna í reksturinn og sjá hvaða aðgerðir er hægt að fara í sem kalla þó ekki á þjónustuskerðingu.
Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.


Látið hjarta Akureyrar í friði

Fiskeldi og samfélagsábyrgð

Hver borgar brúsann?

Börn eiga skilið að alast upp í friði – þrátt fyrir breyttar aðstæður
