Fara í efni
Pistlar

Duang

Hún kynntist sænskum manni sem var ferðamaður í heimalandi hennar. Þau urðu ástfangin og hún flutti með honum til Svíþjóðar. Fljótlega eignuðust þau dóttur og ári seinna aðra til. Þau voru ung og ástfangin með tvær fallegar og hraustar dætur. Lífið var henni gott og hún var hamingjusöm.

Þegar stúlkurnar komust á legg fóru þær í dagvistun, hún þurfti að vinna úti eins og eiginmaður hennar til að endar næðu saman. Það var ekkert óvenjulegt við það. Hún fékk vinnu á veitingastað, vann mest við þrif en aðstoðaði líka við eldamennskuna. Hún kunni nokkur orð í ensku og lærði fljótt dálitla sænsku. Úr þessu varð hennar útgáfa af tungumáli sem nægði henni til að gera sig skiljanlega en ekkert meira en það.

Dæturnar lærðu sænsku en ekki hennar móðurmál, föðurnum þótti ekki ástæða til þess. Þegar þær voru komnar á skólaaldur dugði ekki tungumálakunnátta hennar til að halda uppi samræðum við dætur sínar. Þær ræddu því mest við föður sinn og henni fannst hún einangrast á eigin heimili. Þetta lagðist þungt á hana og hún varð döpur. Depurðin varð að þunglyndi, hún varð veik.

Hún tapaði ást mannsins síns, hann varð ástfanginn af annarri konu. Slíkt gerist. Það jók á veikindi hennar. Maðurinn flutti út og tók dæturnar með sér, hún var ekki fær um að sjá um þær, nú var það önnur kona sem sinnti þeim. Lítil íbúð hjá félagsyfirvöldum varð heimili hennar. Fljótlega fór óvandað fólk að setjast að hjá henni, hún hafði alltaf verið hjálpsöm við alla og nú notfærði þetta fólk sér góðmennsku hennar. Fólkið hafði af henni allt fé svo að hún komst í greiðsluerfiðleika. Dætur hennar hættu að koma í heimsókn vegna þessara aðstæðna.

Það bugaði hana endanlega.

Hún var flutt í hús þar sem fólk bjó sem komið var á endastöð í lífinu og þurfti bæði aðstoð og gæslu. Til að komast í gegnum daginn þurfti hún mikið magn lyfja. Hokin og sinnulítil gekk hún um og svaraði oft ekki þegar á hana var yrt. Húsið var læst, þar komst enginn út eða inn án samþykkis gæslumanns sem starfaði við innganginn. Ég fékk vinnu við það starf og þar kynntumst við.

Vaktirnar voru langar. Það þurfti að færa íbúum hússins lyfin sín á tilteknum tímum og aðstoða þá þegar á þurfti að halda. Þetta fólk var allt þakklátt fyrir að fá tækifæri til að lifa rólegu lífi, það hélt sig mest inni í sínum íbúðum svo vaktirnar voru rólegar. Þessi rólegheit gáfu mér tækifæri til að sitja og hugsa. Það var ekki gott, þá kom söknuðurinn. Hún kom niður eitt kvöldið því hana vantaði kaffi. Ég var feginn trufluninni og notaði tækifærið og byrjaði að spjalla við hana. Það kom henni á óvart. Fyrst hváði hún, skildi ekki vel hvað ég sagði, síðan svaraði hún og ekki skildi ég betur. Ég hló og gerði grín að sænskunni minni og þá kom örlítil brosvipra hjá henni.

Eftir þetta kom hún reglulega niður í afgreiðslu til mín og spjallaði við mig. Þær samræður voru oft kostulegar vegna hóflegrar sænskugetu okkar. Okkur þótti það báðum fyndið, það var að vísu bara ég sem hló, en ég sá að hún kættist með á sinn hátt. Þessar heimsóknir hennar styttu mér stundir, ég var líka forvitinn um líf hennar og hún sagði mér að enginn hefði áður sýnt lífi hennar áhuga. Oft þegar að ég færði henni lyfin hennar bauð hún mér inn og sýndi mér myndir af dætrum sínum. Þær voru komnar í framhaldsskóla og vegnaði vel, hún var stolt þegar hún sagði mér það. Þegar ég var ekki á vakt kom hún niður og fékk að vita hvenær ég kæmi næst. Hún talaði vel um mig við starfsfólkið og það voru meðmæli sem mér þótti vænt um.

Einn daginn þegar ég kom á vakt á laugardagsmorgni beið hún eftir mér. Hún ljómaði af spenningi, dætur hennar voru búnar að boða komu sína upp úr hádegi. Hún var búin að kaupa í matinn og ætlaði að bjóða þeim upp á þann besta málsverð sem hún gæti lagað. Hún lýsti óðamála fyrir mér matseðlinum og síðan sagðist hún verða að drífa sig í að undirbúa málsverðinn. Um hádegisbilið bað hún mig um að koma upp til sín. Í litlu íbúðinni hennar var allt hreint og fínt. Á miðju gólfi var hún búin að dúka borð. Í ofninum kraumaði steik og eldavélin var þakin pottum með girnilegum réttum. Ég sá að dætur hennar myndu fá sannkallaða veislu. Hún sem að vanalega gekk um hokin og dofin af lyfjum og veikindum var nú næstum upprétt og býsna orkumikil. Eftir hádegið kom hún niður og sagði mér að nú færu þær að koma. Hún var með mynd með sér sem hún sýndi mér. Á myndinni var hún með dætur sínar í fanginu. Myndin var tekin þegar hún var ung og dæturnar bara eins og tveggja ára. Á myndinni var hún brosandi og hamingjusöm. Veikindin og lyfin höfðu tekið mikið frá henni. Hún sagðist ætla að bíða eftir dætrunum fyrir utan húsið.

Ég horfði á hana þar sem hún stóð full eftirvæntingar. Svo hringdi síminn hennar. Hún svaraði. Símtalið var stutt. Höndin með símanum seig niður, hún leit á myndina sem að hún hélt á og síðan lagðist höfuðið fram á bringuna. Ég gekk út til hennar. „Þær koma ekki,“ sagði hún, „þær hafa ekki tíma til þess“. Ég reyndi að hugsa einhver orð, eitthvað vinalegt og huggandi. En sænskugeta mín bauð ekki upp á það. Ekki hennar heldur. Við áttum engin orð.

Ég lagði höndina utan um axlir hennar. Hún hallaði sér að mér og ég fann að hún grét hljóðlega. Síðan fór hún inn í húsið og upp í íbúðina sína. Stuttu síðar kom hún niður og staðnæmdist við útidyrnar. Hún sagði ekkert, beið bara eftir að ég kæmi og opnaði. Hún hélt á ruslapoka og gaf mér merki um að hún ætlaði með hann út í ruslagáminn.

Í ruslapokanum voru öll veisluföngin.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Ýviður á Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
17. júlí 2024 | kl. 15:00

Milliliðir maka krókinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. júlí 2024 | kl. 09:30

Dauðinn bak við stýrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. júlí 2024 | kl. 11:30

Blautir draumar

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. júlí 2024 | kl. 12:30

Ruslakallinn er með vasadiskó!

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:10

Sögur úr Kjarna

Sigurður Arnarson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 09:00