Fara í efni
Menning

Dagbækur Sveins: Sumarmánuðir 1849

Í dag birtist 23. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk sl. sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur reglulega síðan. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:
_ _ _

Í síðustu færslu var farið yfir lýsingar Sveins á veikindum sínum frá 1848 til júníbyrjunar 1849. Líkt og kom þar fram þjáðist Sveinn líklega af sullaveiki og hún hafði mikil áhrif á hann bæði líkamlega og andlega. Hér eru dagbókarfærslur frá júní, júlí og ágúst 1849 sem sýna daglegt líf og starf Sveins auk lýsinga hans á tilfinningalífi sínu. Á þessum tíma var hann 28 ára, búinn að vinna sem skrifari Havsteens sýslumanns í Norður-Múlasýslu í eitt ár og hafði nú þegar kynnst Sigríði sem bjó á Grenjaðarstað, en hann talaði um hana sem „N.N.“ í dagbók sinni.

Júníus eður Nóttleysumánuður 1849

1. júní

Norðan kuldaveður með hríð. Eg gat lítið skrifað fyrir kulda, gerði að skrá og tindaði hrífuhöfuð.

2. júní

Sama veður þó lítið mildara. Eg lauk við að skrifa það sem eg hafði til, og skipti ýmislegu fræi sem útbýtast á um sysluna. Nú er ég mikið vesæll og fara veikindi mín alla jafna vestnandi.

3. júní

Norðan kulda gola enn sólskin. Eg las og skrifaði fyrir mig og hagræddi ýmsu, skaut 1 Ønd um dagin.

4. júní

Hafgola og sólskin, hlítt veður. Eg var mestallann dag niður við Skipakíl að géra við “Pram„, skaut 3 hlávellur; gat næstum ekkert geyngið fyrir kvöl í bakinu og ableysi.

5. júní

Norðan kulda gola og sólskin. Eg hjálpaði til að spila í kríngum dálítin garð, bikaði Pram og reið svo um kvöldið að Höfða til að tala við Hjalmarsen um veikindi mín, og gat ég það í góðri ró; ég sannfærðist nú um, að í mér væru meinlæti, sem væru að grafa við þindina og lifrina aptur við hrigginn, og sem orsökuðu alla mína veiki. Hjalmarsen fann við áþreifíngu lifrina í mér að vera mikið bólgna, og búnga var komin öðrumegin hriggjarins á bakið þar sem verkurinn er, og þar æðarnar mjög uppblásnar, hélt læknirinn að meinlætin mundu þar grafa út; sagði hann að í mér væru víst 10 merkur af greftri; hann sýndi mer ýmsar mindir af ýmislegum pörtum likamans sagði enn framar að mér væri ekki til neins að brúka innvortis meðöl, enn lofaði mér plástrum til þess að flýta ígjerðinni og til að draga hana út sem fyrst.

Jeg hugsa nú mikið um að fá mig lausann héðan, og að komast til Norðurlands áður enn meinsemd þessi leggur mig algjörlega í rúmið eða verður mér að bana.

Ur bréfi frá Norðurlandi fréttist híngað, að hinn 25 næstl. m. hefðu 50 skagfyrðíngar og 20 hörgdælíngar heimsókt amtmann, og með uppfestu skjali á hús hans, ráðlagt honum að leggja niður embætti sitt þegar í sumar áður ver færi, líka að Barðarstrandar sýslu innbúar hefðu rekið frá embætti og úr sýslunni sýslumann þar, Brinjólf Svendsen, og hótað honum fjötrum ef hann tíndist innan sýslu.

6. júní

Sunnan hlíinda gola. Havstein kom heim úr ferð sinni kl 4 um morgunin og með honum Einar prestur Hjörleyfsson á Dvergasteini. Eg sat við um dagin að skrifa útskriftir af jarðamatsbókum.

7. júní

Norðan kulda ofsa stormur. Eg sat allann dag stöðugt við skriftir.

8. júní

Hafgola og sólkin. Eg sat við skriftir allan dag; mér lætur vel að skrifa þessa daga.

9. júní

Norðaustan kulda gola. Nú er verið að enda við að hreinsa og bera af túnum hérumpláts. Eg skrifaði ýmsar útskriftir, þíngjaldslista og bréf, kom miklu af.

10. júní

Norðan kulda stormur og frosthríð um kvöldið svo jörð gránaði. Eg var við ýmsar skriftir fyrir húsbónda minn og sjálfann mig, og ýmislegt að starfa. Alþíngismenn komu hér og byrjuðu ferð sína suður. Um kvöldið kom Þorsteinn sýslumaður híngað sem einnig ætlar suður hann var hér nóttina. Hér var mikill géstagángur og ófriður. Eg fékk BF Faktor Johnsen með Norninni frá Húsavík því fylgdi Paraply, sem eptir varð á Eskifyrði. Eg skrifaði Forskriftir fyrir Mathúsalem í Möðrudal. Hjálmarsen kom og lagði dragplástur á hrigg minn.

11. júní

Norðan frostbruna veður og hríð. Eg sat við skriftir allan dag á Contoirinu og píndist af kulda, átti mjög annríkt. Þorsteinn sýslum. var hér um dagin og afhendi Havst. nokkuð af skjölum tilheyrandi Suður múla sýslu, því þessi er þar nú Constitueraður meðan hinn er fyrir sunnan.

12. júní

Norðan gola köld. Eg kepptist við að skrifa til miðdegis; þá fór Havstein á stað í þínga- og jarðamatsferð norður á Strandir og í Vopnafjörð og Gísli hér með honum; eg mátti sitja heima vegna veiki minnar. Sýslumaður gaf mér myndugleika til að uppáteikna skipsskjöl ef híngað send yrðu frá Seiðisfyrði í fjærveru hans.

13. júní

Norðan kulda steita. Eg smíðaði um daginn storan Frogbera (:“Fjossleða„:).

14. júní

Hafgola og sólkin, Eg var um dagin að saga niður spítur í Hjólbörur. Eg fékk Paraply mitt frá Eskifyrði með Guðrúnu hér. Nú er farið að stía hér og leiðist mér nú lífið, þar ekki gét geingið svomikið sem á stekkinn að gamni mínu.

15. júní

Sunnan gola og hita sólskin. Eg var um dagin að smíða hjólbörurnar.

16. júní

Sama veður. eg var við sama starf og seinn mjög, því ég þoli nú öldúngis ekkert á mig að reyna. Hér er nú þessa daga verið að taka upp svörð.

17. júní

Norðan kulda gola. Eg skrifaði fyrir mig og las árbækur mér til skemtunar. Sveinn nokkur fra Enni í Skagafyrði kom hér og sagði amtmann Grím hafa látist hinn 14da þ.m., staðfesti einnig þær áður komnu fréttir um aðför Skagfyrðínga og Hörgdælínga til hans.

18. júní - Sólmán. eða Selmán. byrjar

Sama veður. Eg var að smíða járn á Hjólbörurnar og lagfæra ímisl. búshluti, samt að speingja brotið leirtau.

19. júní

Norðan kulda stormur. Eg lauk við að smíða hjólbörurnar og lagfærði annað ímislegt. Eg fékk BF m.m dat 28 f.m. Eg lánaði Gísla Jónssyni í Hallberuhúsum 12 specíur móti handskrift. Nú leiðist mér og lángar til Norðurlands.

20. júní

Norðan kulda stormur. Eg var ýmislegt að lagfæra og samdi uppköst til: Beregninger over Laumandstold og Kongetiende af Nordermúle Syssel i Fardagsaaret 1848/49 og Anmærkninger til Listerne oved Tiendens og Laugmandstoldens Beregning.

21. júní - Sólstöðr leingstur dagur

Sunnan vindur. Eg var að géra að ímsum búshlutum og bikaði stórkérald.

22. júní

Sama veður. Eg var smavegis að lagfæra og innfærði i C.B og sjúrnalíseraði allt hvað til var.

23. júní - Vorvertíðarlok

Norðan kulda og og næturfrost mikið. Her var fært frá og lömb rekinn strax frá stekk á afrétt; gjörði jeg það með 2 öðrum og vórum við að því allann daginn og nóttina skildum við þau á sokölluðum Svínadal var það laung og vond rekstrarleið og yfir mörg vötn að fara.

24. júní - Jónsm.

Sunnan vindur. Eg svaf til Kl. 11. eptir það var eg ímislegt að lagfæra. Havstein kom heim úr ferð sinni um kvöldið.

25. júní

Sama veður. Eg sat við að skrifa útskrift úr Jarðamatsbókum fyrir Vopnafjarðar hrepp.

26. júní

Austan kulda stormur Eg skrifaði útskr. úr jarðamatsb. fyrir Skeggjastaða hrepp. Her var pólitirettarhald, Friðrik Þorðarson sór fyrir barn Kristbjargar Guðlaugsdóttur. (: Arifu gei aþæ ilti jöfda„lsui, agðise Riðfu=ikra:) [Fari eg þa til djöfuls, sagði Friðrik]. Eg fékk BF Jóni á Einarsstöðum – með Sjera Joni Þorsts. á Kyrkjubæ – fylgdu 8 pör beislisstánga, – eg seldi 5 um dagin.

27. júní

Sunnan vindur. Eg sat við skriftir gérði að strokk, borði og glugga í Spískamersi, plantaði út í garðinum og kéndi stúlkum það; sett Salat í stórann moldarkassa. BT Einars Þorsteinssonar. Hér kom Hallgr. prof á Holmum á visitatiuferð.

28. júní

Alátta og molla, lítið regn um kvöldið. Eg var að skipta Krossavíkur búinu, (eptir Þorstein heitin.)

29. júní

Hlítt veður og molla. Eg var að skrifa sýslureikníng nl. Ballance Regning, Beregninger over Laugm.told og Kongetiende og ýms attesti bréf og skyrslur allt in duplo og in tríplo, frá morgni til háttatíma.

30. júní

Hlítt veður og þikt lopt. Eg skrifaði um dagin. Her kom Baldvin um dagin. Her kom Baldvin nokkur Jónss. með skips skjöl jagtinnar Neptúnus til áteiknunar, sem nú er komin með vörur frá Eskif. á Seiðisfjörð til verzlunar.

Júlíus eður miðsumarmánuður 1849

1. júlí 

 

Sama veður með smáskúrum. Eg fór að skrifa nokkur bréf fyrir mig til Norðurlands. Eg færði í tal við Havstein að, eg færi heðan alfarinn til norðurlands með jagtinni Neptúnus í sumar, vegna heilsuveiki minnar, og gafst mer heldur von um það.

2. júlí

Sólskin og hiti. Eg skrifaði af kappi allann daginn emb. bréf og skýrslur frá Suður- og Norður-múla sýslum.

3. júlí

Logn og molla Eg lauk við að skrifa embættisbréfinn, hélt áfram að skrifa prívat-bréf mín. Póstur kom um kvöldið, við Havst. vöktum frama nótt við bréfa umbúnað og að koma þeim í töskuna (:omstka ppuæ mui refbo ittmæ eðmu eittriba øndhu.:) [komst upp um bref mitt með beittri hønd].

4. júlí

Logn og hiti. Postur fór héðan. Eg sendi með honum;

  1. BT Factor Johnsen dat 1 Júlí
  2. -//- m.m. -//- 1 -//-
  3. -//- N.N. -//- 1 -//-
  4. -//- hreppst. Jóh. Pálss. -//- 3 -//-
  5. -//- assistent L. J. C. Schou -//- 3 -//-
  6. -//- hreppst. J. Kristjánss. -//- 3 -//-
  7. -//- Friðr. Olafss -//- 3 -//-

Eg var um d. að smíða hestskónagla gerað klifberum og hjálpa til að járna hesta.

5. júlí

Norðan gola og hlíviðri. Havstein reið ofana Eskifjörð og Gísli með honum; Jón Guðms fór með lestina á eptir. Eg var eptir burtferð þeirra að innfæra í embættisbækur Suður- og Norður-múla-syslna.

6. júlí

Logn og rigning um kvöldið. Eg sat við að innskrifa í sýslubækur.

7. júlí

Norðan gola og regn um morgunin. Eg var við skriftir, og að saga niður plánka í orf. Jón Guðms. kom með áburðarhesta syslum. heim um daginn. Havstein kom um kvöldið. Sumstaðar er byrj. að slá.

8. júlí

Norðan gola og þurt veður enn svalt. Eg skrifaði forskriftir fyrir Þorkél í Stórasandfelli og fl.

9. júlí

Hafgola og sólskin. Eg sat við að snúa aungultauma á silúngalínu sem eg á að búa til. Híngað vóru send skipsskjöl frá Seiðisfyrði til áteiknunar (:Sluppen Rebecha fra Mandal í Norge med Tömmer for Kbm. Thomsens Regning:)

10. júlí

Sunnan hita vindur, Eg lauk við að tilbúa línuna (: 160 aungla) hjálpaði til að undirbúa kaupstaðarferð, pakkaði flöskur etc. Oddur póstur Sverrisson kom að sunnan og var afgreiddur um kvoldið.

11. júlí

Sunnan vindur og hiti. Eg sat við skriftir (: Skiptabréf í krossav. búinu).

12. júlí

Sama veður. Eg sat við sama starf og vatnaði garðin og hagræddi plöntum. BT Factor J. Arnesen á Eskifyrði um norðurferð mína með Neptúnus.

Skólapiltar nokkrir komu að sunnan; frettist að mikill fjöldi íslendínga hefði komið saman á Þíngvelli fyrir alþíng heldst af suður og vesturlandi, bæði höfðíngjar, alþíngismenn og bændur, – að Assessor Jonassen væri constit. amtmaður í N. og A. - amtinu og Jústitsraad Melsted const. Stiftamtmaður.

13. júlí

Sunnan vindur og sterkur hiti. Eg vantaði og plantaði út í garðinum og áteiknaði Skipsskjöl frá Romer sem híngað vóru send frá Seiðisfyrði. Eg sendi ekki bréf mitt til Arnesens hugsaði að fá mér far norður með Römer. Striðið í Danmörk viðheldst enn og verða nú Danir mjög undir. I Berl. tíðindum las eg í dag um Spádom og vitrun stúlkunnar Fany, um stríð þetta og sigur dana að lyktum, og treysta nú Danskir því.

14. júlí

Sunnan vindur. Eg smíðaði 1 orf og gerði við önnur sem til vóru. Skrifaði í bækur Norður og Suðurmulasyslu Sra Guttormur á Hofi sem hér kom í gjær var um kjurt i dag. Eg fékk hjá honum roshu ikidme yrirfæ kriftsa ai rafga kriftsi Athume-alemssæ [Eg fékk hjá honum hros mikid fyrir skrif a graf skrift Mathusalems]. Eg hreinsaði Bríngubrunnin og setti fínt fræ í garðin þar sem ekki hafði komið upp.

15. júlí

Sunnan hlívindi. Eg las dagblöð og skrifaði ýmisl. fékk BF Sveini Þorsteinssyni í Reikjavík og framhald Þjóðólfs. Havstein var á Eyólfsstöðum í dag í skýrnarveitslu og Sra Guttormur.

16. júlí

Sunnan gola og hiti. Hér var réttarhald um dagin útaf kröfu prófastanna á Valþjófsstað og Vallanesi um 2/8 hvalkálfs þess er sumarið 1842 rak undir fjallið Grenmó. Um kvöldið reið Havstein og Páll í Vallan. með ofan á Seiðisfjörð; enn eg varð Jóni Guðmundss: samferða á eptir með lest, því eg þoldi ekki að ríða hart. Við feingum á Fjarðarheiði feikna rigníng um nóttina komum á Seiðisfjörð um fotaferðartíma.

17. júlí

Norðan gola og skúrir Eg var í kaupstaðnum um dagin og svaf í krambúð Steinbacks um nóttina. A höfninni lágu 5 hafskip og fann eg Römmer og Capt. Koldbye og var allstaðar mjög vel tekið.

18. júlí - Aukanætur byrja

Sunnan gola og sólskin. Eg bjó um varnað sýslumanns og afhendti Jóni Guðms. sem heimleiðis helt með lestina, reið síðan að Vestdal, þar var fyrirtekið jarðamat og gékk það af með jagi miklu eg var frama nótt að innfæra í jarðamatsbækur.

19. júlí

Sama veður. Við fórum frá Vestdal töfðum til nóns í kaupstaðnum; urðum við Havstein þá samferða yfir Fjarðaheiði og náðum háttum heim til okkar.

20. júlí

Logn og sterkur hiti. Eg byrjaði að smíða færikvíar og lagði fyrst með Havstein silungalínu.

21. júlí

Sunnan gola og mikill hiti. Eg lauk við að smíða færikvíarnar og vitjaði um línu með Havst. við feingum 6 silúnga. Nú er farið að verða hljóðbært að eg ætli að fara norður með Römer.

22. júlí - Heyannir byrja, miðsumar

Sama veður. Havst. reið að Áskyrkju um dagin. Eg pakkaði niður vel og vandlega í koffort mín skrifaði BT H. Römers bón um að hann flytti mig norður (:á dönsku:). Nú er allstaðar byrjaður sláttur. Eg seldi B. Skúlasyni á Eyolfsstöðum vasaúhr mitt fyrir 1rbd.

23. júlí - Hundadagar byrja

Norðan gola og þoka í lopti. Eg skrifaði útskrift af jarðamatsbókum fyrir Seiðisfjarðar hrepp og ýmislegt annað, gerði að orfum og beitti silúngalínu. Frettist að Petræus & Thomsen hefðu í dag komið á Seiðisfjörð og Freya a Eskifjörð með timburfarm frá Norveg. Piltar hér vóru að slá á túni. Eg talaði við Havstein um norðurferð og gafst mér lítil von um að komast það.

24. júlí

Hafgola og þoka í lopti. Eg var að byrða um silúnganet og línu og ímislegt að skrifa; byrjaði að hefla borð sem eiga að fara í “Bíslag„ og nýar dyr sem eg a að gér hér út úr kokhúsinu.

25. júlí

Sama veður. Eg var að smíða fordyrnar. Um kvöldið vóru híngað sendir skipspappírar frá Seiðisfyrir frá “Skonnerten Port Reval„ og sýslumaður beðin hið bráðasta að koma ofanyfir til þess að setja sjórétt vegna skémda á farmi skipsins (:Havari particulair:) Eg bjó mig til að fara með honum í nótt.

26. júlí

Sama veður. Havstein reið að heiman Kl. 4 með sendimanninum frá Seiðisfyrði, og eg laust á eptir með 1 reiðíngshest; eg kom á Seiðisfjörð fyrir hádegi. Um dagin var sjóréttur settur og speculant Römer og stýrimaður hans nefndir til að rannsaka og skoða skaða þann og skémdir sem á leiðinni híngað frá Danmörk orðið hofðu á farmi skipsins Port Reval og álitu þeir farminn að því leiti séð varð töluvert skémdann af sjó sem runnið hafði ofanum lúkurnar og meðfram möstrunum í stórsjó á leiðinni; þvínæst vóru menn nefndir til að meta skaðann eptir vörurnar væri landsettar, og var ekki meira aðgjört að sinni. Við vorum nóttina á Seiðisfyrði í miklu yfirlæti við veislur stórar.

27. júlí

Hafgola og sólskyn. Við Havstein vórum á skipi hjá Römer lengst af um dagin og keyptum ímislegt. Eg hafði brefið til Römers með mér og afhenti það ekki, því eg var tvílráður um að fara norður. Við riðum heim um nóttina, eg á eptir með koffortahest. Híngað komu skólapiltar 2 nl. Sveinn Skúlason og Magnús bróður húsmóður minnar.

28. júlí

Suðaustan vindur eg tindaði hrífur lagði net og línu og svaf framyfir miðjann dag.

29. júlí

Norðan gola og þokufult lopt. Við riðum öll héðan úr húsi til kyrkju. Eg var að lesa Skýrni. Eg er nú með besta móti að heilsu og þoli nokkuð að ríða enn ekkert að gánga þó finnast mér meinlætin vera að vaxa, og gúll er nýlega komin út á hægri síðu minni. Snorri á Höfða meðalasveinn Hjálmarsens varð bráðkvaddur í morgun. BT Römers á dönsku.

30. júlí

Norðan köld gola. Eg reif dyr út úr “Kokhusinu„ og kom fyrir undirlögum, gólfi, og hliðum á skúrnum um daginn. Factor Weywadt var hér.

31. júlí

Sama veður. Eg var að smíða “skúrinn„ og hyrða net og línu; varð því afhuga að færa norður að sinni.

Augústus eður heyannamánuður

1. ágúst

Norðan andvari. Eg sat við skriftir; póstur kom að norðan. Eg fékk BF m.m. dat 16 Juli og annað frá Jóhannesi á Laxam. því fylgdi 34ʉ af reiktum lax sem eg hafði útvegað Havstein. Mér þóktu nú bréf mín fá, og var áform mitt að fara norður orsök til þess.

2. ágúst

Hafgola og sólskin. Eg sat við skriftir og hlóð töðuheyi.

3. ágúst

Logn og sólskins hiti. Eg var í smiðju mest allann dag að smíða hurðajárn og fl. Römer sendi híngað tollseðla sína til áteiknunar. Eg skrifaði og sendi með honum BT Factors J Johnsens og skuld mína við hann 6rbd 16s.

4. ágúst

Sama veður. Eg smíðaði ytri hurðina fyrir skúrin og kom henni fyrir lagði net og línu lángt útí fljóti.

5. ágúst

Hafgola og solskin. Eg var leingst af um d. að skrifa BT mm sem ég áformaði að senda með Hólmkeli á Hóli sem kom með pósti og er á Eyðum.

6. ágúst

Sama veður. Eg var um daginn að hlaða kúaheyi sýslum, í dag vóru þarí bundnir 53 hestar enn áður komnir 47. Avhi=teinsæ arðibe goi iskaðipa Elgahu érhi, yfirfe itlarla akirso, vosi annhu ljophi ie urtba rúi istve„niie [Havstein barði og piskaði Helga hér, fyrir litlar sakir, svo hann hljop i burt úr vistini].

7. ágúst

Norðan gola og þokufar. Eg skrifaði fjölda bréfa, smíðaði klínkujárn lagði net og línu. Havstein og Magnús Hannesarson riðu að heiman norður í Vopnafjörð. Eg er nú í frítímum mínum að lesa Ný Félagsrit og nýann skýrnir.

8. ágúst

Norðan gola og þokufult lopt. Eg vitjaði um og lagði aptur línu og net, og var ímislegt að smíða.

9. ágúst

Hafgola og sólskin. Eg fékk 10 væna silúnga á línuna, sagaði niður borð í rámur á skúrinn.

10. ágúst

Sama veður. Eg reið útað Eyvindará ætlaði að ná í Holmkél með bréf, var hann þá farin norður. Eg reif gröf í töðuhey syslumanns vegna hita í því.

11. ágúst

Sólskin og sunnan gola. Eg lagði net og línu, og negldi rámurnar utaná skúrin. Havst. og Magnús komu heim. Elgiha omku eimhæ pturai ie istinavo [Helgi kom heim aptur i vistina].

12. ágúst

Austan gola hvöss um kvöldið. Eg lagfærði kúaheyið og hlóð upp því sem niður var rifið, setti júffertu í holuna og dró hana seinast upp til þess að mynda gufunni farveg.

13. ágúst

Norðan kulda stormur. Eg lagði torf yfir heyið réri á línu með Havst. feingum hvast og barníng, síðan tók eg móti heyi sem bundið var í hlöðu og var mér það um megn að taka baggana ofan vegna sárinda fyrir lífinu og bríngsbölunum.

Seint um kvöldið fór ég að leggja net niður við fljót, sprúngu þá saman í mér meinlætin og fékk ég við það allt í einu mikla hita tilfinníngu yfrum mig, og jafn skjótt þaut út um mig allann ofsakláði og varð eg alveikur, gat þó dreigið mig heim og lagðist í rúmið.

14. ágúst

Norðan stormur og nokkur rigníng, Eg lá öldúngis rúmfastur með kvöl í öllum kroppnum, og einkum innanum mig í meinlætunum. Eg þykist nú sjá fyrir, að ef ég leggist til leingdar, muni eg ekki eiga notalega eða meðaumkunarsama húsmóðir og muni það með öðru géta flýtt dauða mínum. líka er hér matarverkun og meðferð öll svo miklu verri, ónotalegri og óþokkalegri enn eg hef vanist fyrir norðan, og mun það gjöra sitt til að spilla heilbrigði þeirra sem því eru óvanir.

Einnig er mér alla jafna að verða það óþolanlegra að verða að vera undir valdi vandalauss húsbónda því mér finnst, hvörsu góður sem húsbóndinn er, að eg vera sviptur öllu persónulegu frjálsræði, og að eg sé einsog viljalaust verkfæri í hendi hans, og að eg því ekki géti sýnt neina viðleitni til dugnaðar eða atorku við neitt af eigin ramleik.

15. ágúst

Norðan kulda gola. Eg rólaði a fætur skrifaði ýmislegt og tindaði hrífur, var mjög vesæll.

16. ágúst

Hiti og þurkur. Eg var að skrifa í sportelsjurnalinn og fl. Hjálmarsen kom hér, ég og syslumaður ræddum við hann um veiki mína. Spælling sendi híngað skipsskjöl sín.

17. ágúst

Logn og hiti. Eg var að innfæra í afsalsbréfa og veðmálabókina og tinda hrífur mjög vesæll.

18. ágúst

Sunnan gola og loða veður. Eg var að skrifa útskrift af þíngbókinni og fl. smíðaði 1 hrífuskapt. Alla þessa viku hef eg gyldnað um lífið með degi hverjum svo nú get eg hvörki hneppt að mér nokkrar buxur né vesti sem ég á. Eg fékk 2 meðalaglös frá Hjálmarsen, (:sjá reikníngsbók:).

19. ágúst

Sunnan hita vindur og sólskin. Sýslum. og kona hans og flest fólk annað heðan reið utað Eyða kyrkju. Eg gat ekki komist vegna veikleika míns sem nú er með versta moti. Um kvöldið kom Svendsen með konu sinni híngað og var nóttina. Eg var óánægður með allt ástand mitt og í þúngu skapi.

20. ágúst

Sama veður. Nú er þurkað og heimbundið hey það sem fæst jafnóðt slegið er; tíðin er æskilega góð og sífeldir þurkar og heynýtíng því hin besta. Eg var ímislegt að skrifa, smíðaði 1 hrífu leiddist akaflega - bað Hjálmarsen að stínga á meinlætum mínum, og kvaðst hann ekki géta það enn.

21. ágúst - Tvímán. eða kornskurðarm. byrjar

Sunnan vindur. Eg gat ekki annað aðhafst enn skrifað; leiðist nú lífið, er hér utanveltu og lítið um mig hyrðt, nýt eingrar hjúkrunar eða notalegheita framar enn eg væri heilbrygður ónytjúngur.

22. ágúst

Sunnan hita vindur. Eg var að skrifa registur yfir C.B. og fleyra.

23. ágúst - Hundadagar enda

Norðvestann ofsa veður svo allt reyf og sleit. Eg var að hjálpa til að bruda niður hey og skrifaði þessámilli. Um kvöldið lygndi og var þá þakið kúa hey sýslumanns.

24. ágúst

Sunnan vindur og sólskin. Eg var að skrifa og lagði línu.

25. ágúst

Alátta og rigndi um kvöldið. Eg skrifaði ímislegt og vitjaði um línu. Havstein og kona hans riðu með Svendsen og konu hans og fleyra fólki frá Seiðisfyrði sem her var allt í nótt sem leið uppí Skriðdal. Alþingismenn komu að sunnan. Eg fékk N° 17 og 18 af Þjóðolfi frá Eigli Jonsyni bókbindara.

Frettist að syslum. í Sms. Þ. Jonsson væri settur stiptamtmaður og mundi því Havstein líklega einnig hafa Suðurmúla sýslu í vetur og þókti mér vænt um það því eg mun þá fá nóg að skrifa það eina sem ég gét unnið.

26. ágúst

Norðann kulda stormur og ringíng framanaf. Eg skrifaði BT Th. Johnsens snikkara á Eskifyrði bað um smíðatól og glugga, og hyrðti net og línu. Meðöl þau sem eg þann 18da þm fékk frá Hjálmarsen áttu að eyða vatni úr líkamanum með því að auka þvagið, og hafa þau nú gjört að því leiti nokkra verkan og er mér nú mikið að batna.

27. ágúst

Sunnan vindur. Eg hyrðti net og línu, hlóð og þakti dalítið hey handa reiðhestum. Sigbjorn á Hvanná gisti hér. Havstein tók kaupamann þessa viku.

28. ágúst

Alátta. Eg hlóð utanað hestaheyinu og kúaheyi, hyrðti net og línu góður silungsabli er nú. Eg fékk frá Hjalmarsen 6 lóða glas með vatnssýkisdropa að taka inn 1 Theskeið 3var á dag.

29. ágúst - Höfuðdagur

Norðann gola þokufullt lopt gékk í stórrigning þá aleið. Eg hyrðti línu og net og bætti net. Hingað komu margir hofðíngjar þarameðal Guttormur alþíngismaður nýkomin af þíngi. Eg keipti Gest vestfyrðing 3 ár og fór að lesa.

30. ágúst

Norðann regnkuldastormur, stytti upp þá áleið. Eg var við skriftir, og að hyrða silúnganet.

31. ágúst

Norðan kulda stormur með þoku og regni að öðruhverju. Eg vitjaði um net gerði að hrífum, bætti net, rakaði selskinn og skrifaði á millum. Hjalmarsen færði mér dupt til að taka inn 1 theskeið þrisvar á dag í graut; það á að lækna vatnssýki og fleira.

Orðskýringar:

Rd: ríkisdalur

Rbd: ríkisbankadalur

M: mark

S: skildingur

1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar

spec.: spesía, dönsk mynt sem var í notkun á 17.–19. öld

BF: bréf frá

BT: bréf til

m.m.: mamma mín

N.N.: Sigríður Jónsdóttir

þ.m.: þessa mánaðar

Paraply: regnhlíf

Syssel: sýsla

Anmærkning: athugasemd, aðfinnsla

Beregninger: útreikningur, áætlun

Told: tollur; tollafgreiðsla

Tiende: tíund

Attest: vottorð

Slup: kútter, fiskiskúta

Tömmer (tømmer): timbur

Constit. (Konstituere): setja í stöðu, útnefna

Sportel: gjald til hins opinbera fyrir ákveðna þjónustu