Brautin rudd fyrir nýtingu glatvarma

Í sumarbyrjun, skrifuðu Akureyrarbær og gagnaverið atNorth undir tímamótasamning um þróun á atvinnusvæði fyrirtækisins að Hlíðarvöllum ofan bæjarins en drjúg stækkun á gagnaverinu er fyrirhuguð. Í samningnum er ákvæði um að gagnaverið greiði aðgang að þeim glatvarma sem fellur til í starfsemi þess og sé tilbúið að afhenda hann til þriðja aðila á lóðamörkum endurgjaldslaust.
Alltof víða um land fer varmi til spillis, bæði í veitukerfum og frá orkukræfri iðnaðarstarfsemi. Mikil tækifæri eru til bættrar nýtingar á varma sem dregur þar með úr þörf fyrir ágang á jarðhitaauðlindir landsins. Sem dæmi um slíkt hefur Norðurorka, fyrst fyrirtækja á Íslandi, virkjað glatvarma frá iðnaðarstarfsemi til frekari nýtingar, en sá varmi kemur að góðum notum í hitaveitukerfi bæjarins. Með samningum við atNorth stígur Akureyrarbær annað brautryðjendaskref í glatvarmamálum á landinu með því að greiða fyrirfram leiðina að hliðarstraumum frá orkukræfi starfsemi.
Eimur, sem er samstarfsverkefni orkufyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga um bætta nýtingu auðlinda, leiddi samningaviðræðurnar fyrir hönd Akureyrarbæjar. Eimur hefur t.a.m. sinnt þróun grænna iðngarða á Bakka við Húsavík og fylgst náið með framvindu þessara mála á landsvísu undanfarin ár.
Í þeirri vinnu hefur komið á daginn hversu erfitt er að nýta hliðarstrauma frá iðnaðarstarfsemi ef ekki hefur verið gert ráð fyrir því frá upphafi. Hér spilar stærstan þátt hversu dýrt er að breyta iðnaðarferlum til að fanga hliðarstrauma og gildir þá einu hvort þeir eru í formi orku (t.d. varma) eða efnis (t.d. súrefnis eða koltvísýrings). Oft hefur það talsverðan fjárfestingarkostnað í för með sér og mögulega tímabundna rekstarstöðvun á starfseminni sem einnig er dýr. Bestur árangur næst ef ákveðið er fyrirfram hvernig nýta megi hliðarstrauma frá fyrirhugaðri starfsemi og aðgangur að þeim er tryggður frá upphafi.
Þess vegna er afar mikilvægt að sveitarfélög í samstarfi við þróunaraðila grænna atvinnu- og iðnaðarsvæða leggi strax í upphafi línur með það hvernig haga eigi frekari nýtingu hliðarstauma innan svæðanna.
Akureyrarbær hefur lagt á það áherslu hversu mikla þýðingu atNorth hafi fyrir samfélagið á Akureyri. Gagnaverið nýtir til starfsemi sinnar endurnýjanlega orku og skapar ennfremur umtalsverða möguleika til frekari verðmætasköpunar með glatvarma. Fyrrnefndur samningur tryggir fyrirsjáanleika í afhendingu varmans og býður upp á ýmis spennandi tækifæri. Þannig er hvatt til bættrar nýtingar orkuauðlinda sem þegar hefur verið ráðstafað.
Ottó Elíasson er framkvæmdastjóri Eims. Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri á Akureyri


Kveikjum á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu

Væri ekki hlaupið út aftur

Aðflugsljós við Leiruveg

Mikilvægara en veiðigjöldin
