Fara í efni
Fréttir

Ánægja með styrki og reiðhjólageymslur

Eiríkur Kristján Aðalsteinsson við nýju reiðhjólageymsluna við ÚA. Ljósmynd: samherji.is

Vel búin reiðhjólageymsla hefur verið tekin í notkun við fiskvinnsluhús Útgerðarfélags Akureyringa á Akureyri. Sambærileg reiðhjólageymsla er við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík, sem notið hefur vinsælda meðal starfsfólks. „Með slíkum geymslum vilja félögin auðvelda starfsfólki að hjóla í vinnuna og stuðla um leið að umhverfisvænni samgöngum,“ segir á vef Samherja.

Hjólið ekki lengur blautt og ískalt

„Þetta er gott framtak og geymslan er vel búin á allan hátt, maður kemur ekki að hjólinu sínu blautu eða ísköldu eftir daginn sem er auðvitað mikill munur. Yfir sumarmánuðina eru mjög margir sem hjóla í vinnuna og ég er ekki frá því að sá hópur hafi stækkað umtalsvert á undanförnum árum. Þetta jákvæða framtak verður sjálfsagt til þess að enn fleiri mæta á hjólum í framtíðinni,“ segir Eiríkur Kristján Aðalsteinsson iðnrekstrarfræðingur hjá Samherja á vef fyrirtækisins, en starfsstöð hans er í húsnæði Útgerðarfélags Akureyringa við Fiskitanga.

Starfsfólk fær greitt fyrir vist- og heilsuvæna ferðamáta

Undanfarin tvö ár hefur starfsfólki Samherja og tengdra félaga staðið til boða að gera sérstakan samgöngusamning, sem kveður á um mánaðarlegan styrk til þeirra sem vilja nota vist- og heilsuvæna ferðamáta til og frá vinnu að jafnaði þrjá daga í viku. Miðað er við að sá sem gerir slíkan samning mæti til vinnu með öðrum hætti en á einkabíl. Í ár var styrkurinn 9.000 krónur á mánuði miðað við fullt starf og er skattfrjáls. Samningstímabilið var 1. maí til 31. október.

Anna María Kristinsdóttir mannauðsstjóri Samherja segir að samgöngustyrkirnir hafi fallið í góðan jarðveg.

„Hvatarnir í þessu verkefni eru margir. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu eða hjólreiðar. Ávinningurinn er betri líkamleg líðan auk þess sem minni umferð bíla dregur úr svifryksmengun. Það er til mikils að vinna að draga úr umferð bíla, enda sýna viðurkenndar rannsóknir að ýmsir öndunarfærasjúkdómar eru raktir beint til mengunar í andrúmsloftinu. Hjólageymslan á Dalvík hefur verið vel nýtt, hún auðveldar fólki að hjóla og ég býst fastlega við hinu sama á Akureyri. Þessir jákvæðu hvatar falla líka vel að starfsmannastefnu Samherja, þar sem lögð er áhersla á öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks,“ segir Anna María.

Hressandi að hjóla

„Aðstaðan er til fyrirmyndar og hjólageymslan er græn og vistvæn innan sem utan. Hitinn í hjólageymslunni kemur frá vinnsluhúsinu, afgangsorka er þannig nýtt til góðs. Hægt er að hlaða rafmagnshjól þar inni og síðan eru hleðslustöðvar fyrir bíla utan á geymslunni. Það hafa nokkuð margir komið hjólandi í vinnuna í vetur, enda tíðin afskaplega hagstæð fyrir okkur hjólafólk. Ég mæli eindregið með því að fólk hjóli til og frá vinnu, enda er þetta svo hressandi,“ segir Eiríkur Kristján Aðalsteinsson.