Fara í efni
Umræðan

Án öflugs atvinnulífs megum við okkur lítils

Akureyri er blómlegur bær með fjölbreytt atvinnulíf. Til að tryggja áframhaldandi vöxt og framfarir er nauðsynlegt að sveitarfélagið og atvinnulífið eigi virkt samtal. Það hefur verið okkur bæjarfulltrúum Framsóknar á Akureyri keppikefli að finna þessu samtali fastmótaðan farveg. Nýboðað fyrirtækjaþing, sem verður haldið í Hofi 13. febrúar næstkomandi, er góð byrjun á þeirri vegferð. Skráningu lýkur núna 6. febrúar og ég vil hvetja alla stjórnendur fyrirtækja, af öllum stærðargráðum, til að taka þátt og skrá sig.

Mætum öflug til leiks

Fyrirtækjaþing veitir atvinnurekendum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og móta stefnu með sveitarfélaginu. Auk þess er þetta kjörinn vettvangur til að efla tengslanet, deila reynslu og þróa nýjar samstarfsleiðir sem geta skilað jákvæðum áhrifum fyrir samfélagið í heild. Það er ekki síst mikilvægt að við mætum til leiks með því hugarfari að samtal sem þetta sé upphafið að einhverju meira. Að við séum ekki eingöngu að framkvæma stöðutékk á nokkurra ára fresti, heldur séum samhent að vinna að aukinni markaðssókn svæðisins.

Sveitarfélagið sem brúarsmiður

Hlutverk sveitarfélaga er að skapa hagstæð skilyrði fyrir atvinnulífið og sveitarfélög geta gert það með öflugum innviðum, en líka með stuðningi t.a.m. við menntun og nýsköpun. Þetta er hlutverk einstakra sveitarfélaga en ætti líka að vera sameiginlegt verkefni sveitarfélaganna allra á svæðinu. Það er því gleðilegt að atvinnumál skuli nú fá enn stærra hlutverk í nýsamþykktri Sóknaráætlun SSNE. Sú staða að heil 82% þjóðarinnar býr á svæðinu sem nær frá Hvítá til Hvítár, á að ýta við okkur öllum og vera öllum hrepparíg yfirsterkari. Hvort sem við erum kjörnir fulltrúar eða atvinnurekendur, þá eigum við að snúa bökum saman og styrkja þetta svæði í heild sinni. Sameiginlegt þing sveitarfélagana um atvinnumál gæti því verið rökrétt framhald af fyrirtækjaþinginu hér á Akureyri

Sunna Hlín Jóhannesdótti er oddviti Framsóknar á Akureyri

Skráning á fyrirtækjaþing:

https://www.akureyri.is/is/frettir/oskad-eftir-thatttakendum-ur-atvinnulifi-a-fyrirtaekjathing-akureyrar

Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2024-2029:

https://www.ssne.is/is/malaflokkar/soknaraaetlun

„Akureyrar ákvæðið“ um lagningu raflína í þéttbýli

Karl Ingólfsson skrifar
26. janúar 2026 | kl. 16:30

Hreint ekki eins og atvinnuviðtal

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
26. janúar 2026 | kl. 13:00

Tjaldsvæðisreiturinn auglýstur „til sölu“

Benedikt Sigurðarson skrifar
25. janúar 2026 | kl. 10:00

Gott að eldast

Kristín Áslaug Guðmundsdóttir skrifar
19. janúar 2026 | kl. 08:00

Hafirðu ekkert gott að segja er betra að þegja!

Hlín Bolladóttir skrifar
16. janúar 2026 | kl. 11:25

Samstaða í ferðaþjónustu aldrei mikilvægari

Halldór Óli Kjartansson skrifar
13. janúar 2026 | kl. 06:00