Fara í efni
Mannlíf

Alvöru sýning og áhorfendur trylltust!

Akureyringurinn Bjarki Sigurðsson, þekktur fyrir afrek á vélsleðum, hélt í mikla ævintýraferð til Bandaríkjanna nýverið þar sem draumur hans um að keppa í snjókrossi varð að veruleika. Ferðina fór Bjarki í kjölfar þess að vinir hans söfnuðu einni milljón króna og færðu honum í afmælisgjöf þegar hann varð þrítugur – með því skilyrði að peningunum yrði varið í slíka ferð vestur um haf.

Fyrsti hluti viðtals við Bjarka birtist á Akureyri.net í gær og hér er haldið áfram þar sem frá var horfið; eftir að hann varð í sjötti sæti á föstudegi í keppni við „tryllta unglinga,“ í Sport Light flokki í bænum Sioux Falls í Suður-Dakóta.
     _ _ _

Einhver „gömlu-karla-flokkur“

Bjarka var svo ráðlagt og bent á flokk fyrir 30 ára og eldri. „Ég var ekki alveg nógu sáttur með það, hljómaði eins og einhver gömlu-karla-flokkur, en þeir sannfærðu mig um að þetta væri samkeppnishæfur flokkur og ég myndi hafa miklu meira gaman af þeim flokki af því, eins og þeir sögðu, að þar væru menn sem þyrftu að mæta í vinnu á mánudeginum. Það væri aðeins meira öryggi að keyra í honum. Þannig að ég stekk til og skrái mig í þann flokk á laugardeginum.“

Gull-karlinn! Bjarki á efsta verðlaunapalli eftir sigurinn í flokki 30 ára og eldri í Sioux Falls.

Bjarki fer svo beint í æfingar og nær þar öðrum besta tímanum. Hann vann síðan fyrri umferðina og varð annar í seinni og komst beint inn í úrslitin þar eins og daginn áður. „Þá var einn karl sem var búinn að vera aðeins hraðari en ég allan daginn. Ég fór að spyrja þá að því hver þetta væri og þá hafði hann verið atvinnumaður fyrir nokkrum árum og í stærsta flokknum. Hann er einhverjum fjórum árum eldri en ég, rosalega harður og sterkur karl, farinn að minnka við sig og keppa í 30+ í staðinn fyrir að vera í atvinnumennskunni.“

Alvöru sýning og áhorfendur tryllast!

Sjálf úrslitin voru svo alvöru amerísk sýning. Þá er ljósasýning, bein útsending, bandaríski þjóðsöngurinn og flugeldar. „Alveg eins amerískt og þú getur mögulega ímyndað þér úr einhverri bíómynd,“ segir Bjarki um upplifunina á laugardagskvöldinu.

„Við ræsum í þessum úrslitum, ég er fyrstur í fyrstu beygju. Hann nær mér svo strax aftur á fyrsta hring og ég tek hann strax aftur á sama hring. Við erum að berjast fyrstu tvo hringina og svo er ég á undan honum í tvo eða þrjá hringi og þá nær hann mér. Hann tekur fram úr mér með smá stælum og þá sést hvað hann er virkilega flottur ökumaður. Ég ákveð að reyna að hanga í honum og sé bara að ég get gert töluvert betur en það og tek fram úr honum þegar það eru tveir hringir eftir, næ að halda honum alveg til enda og vinn hann. Þá er ég fyrsti maður til að vinna þennan flokk fyrir utan hann í held ég fjögur eða fimm ár. Ég algjörlega geðbilast af hamingju og allt liðið, strákarnir sem voru að keppa þarna með mér og meira að segja það sem vakti mesta athygli, í þessu liði sem ég er í er fimmfaldur ríkjandi meistari í atvinnumannaflokknum. Hann er fremstur á hliðarlínunni að rífa mig áfram og hvetja mig.“

Þegar keppnin klárast og Bjarki ekur að verðlaunapallinum ætlaði allt að tryllast. „Fyrir það fyrsta vissi enginn hver ég var. Og svo kemur þarna alls kyns lið og fagnar með mér. Það kemur til mín kona sem var að lýsa allri keppninni og spyr: Hvað heitirðu, hvernig segirðu nafnið þitt? Það var ekki fyrr en um kvöldið þegar ég fer að horfa á útsendinguna að ég heyri að ég hét Becky í gegnum alla keppnina. Það vissi enginn hvernig átti að segja þetta nafn.“

Algjörlega galin lífsreynsla

Bjarki segir þessa lífreynslu, að lenda í þessu og standa á toppnum þarna úti vera algjörlega galna. Hann og fleiri brutu líka blað í snjókrossinu því þetta var í fyrsta skipti sem það voru Íslendingur, Svíi, Norðmaður, Finni, Kanadamaður og Bandaríkjamaður á palli í sömu keppninni.

Bjarki Sigurðsson: „Hvað heitirðu, hvernig segirðu nafnið þitt? Það var ekki fyrr en um kvöldið þegar ég fer að horfa á útsendinguna að ég heyri að ég hét Becky í gegnum alla keppnina.“ Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

En eru menn ekkert með einhver óþverrabrögð í þessum keppnum, eins og hjá þeim yngri og villtari?

„Jú, það er mikið um það í þessum flokki og sleðinn minn ber þess alveg merki eftir þessar helgar. Hann er krambúleraður og beyglaður.“ Bjarki segir keppnina í sportflokknum mjög harða því sá flokkur sé mjög dýrmætur fyrir þá sem þar keppa. Sigurvegarinn þar er sá sem liðin horfa til þegar leitað er að nýjum mönnum til að fá á samning. „Þarna eru ökumenn sem ekki eru komnir á samning og eru að borga þetta úr eigin vasa. Þarna þarft þú að láta taka eftir þér og sýna hvað þú getur. Það er ekkert slegið af og ekkert gefið eftir.“

Engin „hvað ef“ pæling í sportflokknum

Að fenginni reynslu og eftir á að hyggja kveðst Bjarki klárlega skrá sig í flokkinn fyrir ofan vegna þess að þar séu ökumenn sem eru komnir á samninga. Þar sé vissulega harkalegur akstur og mikil keppni líka, en þar sé meira verið að hugsa um „hvað ef“. Hvað gerist ef ég keyri á þennan? Mun ég þá tapa? „Þessi „hvað ef“ pæling er ekki í sportflokknum. Þar sjá menn bara rautt og það er haldið í botni.“

Helsti keppinauturinn varð síðan meistari og var nokkuð ósigrandi yfir allt tímabilið, bara ein og ein keppni sem hann vann ekki. „Ég spurði bara: Er ekkert svona „hvað ef“ í hausnum á honum? Nei, það er ekki neitt, það er bara látið vaða í allt – eins og maður var sjálfur þegar maður var 16 ára. Þannig að þetta er aðeins öðruvísi.“

Bjarki á sleðanum og faðir hans, Sigurður Sigurþórsson til vinstri.

Dýrkeypt helgi í Suður-Dakóta

Seinni helgina sem Bjarki var úti tók hann þátt í keppni í Minnesota, á staðnum þar sem liðið hans var með æfingaaðstöðu. En helgin í Suður-Dakóta varð honum dálítið dýrkeypt. „Ég meiðist á báðum hælum í þeirri keppni, sprengi eitthvað sem kallast hælpúði, sem er mjúkvefur undir hælnum á manni. Þegar hann springur fer öll vörn úr hælnum og öll högg koma beint upp í hælbeinið. Ég fæ svona hrikalegt beinmar,“ segir Bjarki, en á milli keppnanna var hann allt að því rúmliggjandi, étandi verkjatöflur og kældi sig og hitaði á víxl til að ná þessu niður. „Ég skrái mig samt í keppnina helgina á eftir, en finn um leið og ég fer af stað að ég er bara hálfur maður á við hvað ég á að vera.“

Bjarki reynir aftur sama fyrirkomulag og fyrri helgina, fer í sportflokkinn á föstudeginum og 30+ á laugardeginum. Hann dettur í fyrri umferðinni í sportflokknum og er síðan keyrður út af „af einhverjum klikkuðum krakka þarna“ í seinni umferðinni. Hann kemst þó í úrslitin og lendir þar í því að sleðinn bilar. Föstudagurinn í Minnesota því mikil vonbrigði miðað við föstudaginn þar á undan.

Hætti keppni í fyrsta skipti á ferlinum

Á laugardeginum er hann svo í góðum gír í 30+ flokknum og er að skiptast á fyrsta og öðru sæti við einn keppinautinn og fer inn í úrslitin í öðru sæti. „Strax á öðrum stökkpalli stekk ég aðeins of langt, sem er nóg til þess að ég fæ högg undir báða hælana aftur og sársaukinn var bara svo rosalega mikill að ég varð að draga mig til hlés og gat því miður ekki klárað daginn. Ég þurfti að hætta keppni, sem ég hef aldrei þurft að gera síðan ég byrjaði að keppa árið 2007.“

Bjarki segir þetta sýna vel hve öfgakenndar aðstæðurnar þarna úti séu og öðruvísi en hér heima. Talað er um þessi hælameiðsli sem „Skandinavíuveikina“ því í Skandinavíu eru brautirnar mjög svipaðar og er verið að keyra hér á landi og líkamsstaða ökumanna öðruvísi. „Stökkin eru aðeins minni og showið er aðeins minna, úti er þetta mikið show, mikið í beinni útsendingu í sjónvarpinu og þessi keppni er fyrir áhorfendurna.“

Brautirnar sem Bjarki á að venjast hér heima eru styttri og skynsemin klárlega mikið meiri að hans sögn. Vegna þess meðal annars að með það fámenni sem hér er mega menn ekki við miklum afföllum vegna meiðsla eða sleðabilana. Til samanburðar nefnir Bjarki að í keppninni í sportflokknum hafi verið 17 keppendur, en í fyrstu keppninni í desember hafi verið 32 í sama flokki.

„Brautirnar hjá okkur eru mjög skemmtilegar og mjög teknískar, og þegar maður dettur – það er ekkert ef – þegar maður dettur reynum við að hafa það þannig að þær dettur séu á skynsamlegum hraða og þannig að þær valdi sem minnstu líkamlegu tjóni og minnstu tjóni á sleðunum. En ef þú dettur á svona 30 metra pöllum er nánast öruggt að eitthvað skeður, hvort sem það er sleðinn sem brotnar eða bilar eða þú slasast eitthvað.“