Fara í efni
Umræðan

Afsakið – Kemst ekki á fundinn

Ég biðst afsökunar á því að komast ekki á fundinn núna á fimmtudaginn. Þar hefði ég sannarlega viljað vera og heyra álit ykkar á skipulagsmálum. Ekki síst þeirri þéttingarstefnu sem bæjaryfirvöld hafa sett á oddinn nú um alllangt skeið.

Íhugið þetta fyrir mig og nú ætla ég aðeins að nefna þær framkvæmdir sem eru fyrirsjáanlegar í náinni framtíð.

  • Í Miðholti á að reisa fimm þriggja hæða fjölbýlishús með 54 íbúðum. Þá skal húsið við Hvannavelli 10 rifið og upp rísa í staðinn fjórar hæðir og 20 íbúðir.
  • Ef allt rætist sem bollalagt er um Glerártorg og næsta nágrenni þess gætu sprottið þar upp 250 íbúðir, þar af 150 í brekkunni sunnan torgsins þar sem byggja á fimm háhýsi, ýmist sex, sjö eða níu hæðir.
  • Þá er það BSO-reiturinn, eða Hofsbót 1 og 3. Þar verða miklar byggingar, fjórar og fimm hæðir. Verslun og þjónusta á þeirri neðstu en íbúðir þegar ofar dregur. Sem er þó ekki alveg víst, ef til vill verða þar fleiri eða færri hótelherbergi.
  • Stökkvum þá upp á Brekku þar sem á að rífa búgarðinn Lund. Í staðinn koma háreist íbúðarhús, fimm og sex hæða. Íbúðir 51.
  • Síðast en ekki síst er að nefna tjaldsvæðisreitinn. Þar er gert ráð fyrir 13 blokkum á milli Byggðavegar í vestri og Þórunnarstrætis í austri og Þingvallastrætis í norðri og Hrafnagilsstrætis í suðri. Allar, utan ein, mælast þessar blokkir um 15 metrar á hæð. Sem viðmið má hafa að hótel Berjaya við Þingvallastræti er 16,1 metri. Erfitt hefur reynst að negla niður væntanlegan fjölda íbúða á svæðinu en svo gæti farið að þær yrðu allt að 250 talsins.

Nú er það ykkar Akureyringar góðir að hugleiða hvort hér sé of geyst farið í þéttingu byggðar. Og ef til vill um leið farið á snið við það sem segir í Aðalskipulagi Akureyrar um að „nýbyggingar falli vel inn í þá götumynd/bæjarmynd sem fyrir er.“

Um leið og ég ítreka afsökunarbeiðni mína vil ég óska ykkur góðrar umræðu og nokkurrar skemmtunar á fimmtudaginn.

Jón Hjaltason er óháður bæjarfulltrúi

Varaflugvallagjaldið og flugöryggi

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
01. nóvember 2025 | kl. 15:30

Hefðum ekki fært út efnahagslögsöguna

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
31. október 2025 | kl. 09:00

Er ofbeldi gagnvart eldri borgurum vandamál á Íslandi?

Björn Snæbjörnsson og Sigurður Ágúst Sigurðsson skrifa
23. október 2025 | kl. 14:00

Sýnum samstöðu, látum rödd okkar heyrast

Heiðrún Hafdal skrifar
23. október 2025 | kl. 10:00

„Í augsýn er nú frelsi …

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
23. október 2025 | kl. 10:00