Aðdáendaklúbbur Jesú í 603 á TikTok

Prestarnir í Glerárkirkju, Hildur Björk Hörpudóttir og Sindri Geir Óskarsson, ásamt djáknanum Eydísi Ösp Eyþórsdóttur voru byrjuð að blása auknu lífi í samfélagsmiðla Glerárkirkju áður en umræðan um fermingarfræðslu þeirra flaug eins og eldur í sinu um landið, en nýjasta myndband þeirra á miðlunum auglýsir dagskrá næsta sunnudags, með skondinni skírskotun í umræðu síðustu daga.
Fræðslukvöld gestafyrirlesarans Siggu Daggar kynfræðings í kirkjunni vakti mikla athygli, og vakti upp ólíkar skoðanir á því, hvort að kynfræðsla ætti heima í fermingarfræðslu, en hér má lesa fyrri umfjöllun um fermingarfræðsluna í Glerárkirkju:
Skjáskot af nýjasta 'reel' eða myndbandi á miðlum Glerárkirkju.
Grjónagrautur, bál og sykurpúðar
Í upphafi myndbandsins birtist hópur fullorðinna, sem liggur á dyrum kirkjunnar og vill fá að komast í fermingarfræðslu, en því næst er klippt yfir í djáknann Eydísi sem segir að nýir fylgjendur á TikTok reikningi kirkjunnar hrúgist inn. Prestarnir Hildur og Sindri kynna svo dagskrá helgarinnar, en á sunnudaginn verður boðið upp á messu með barna- og æskulýðskórnum, grjónagraut og svo kemur slökkviliðið í heimsókn - en stefnan er að kveikja bál og grilla sykurpúða.
„Guðspjallið mun fjalla um guðlast og fordæmingu,“ segir Sindri Geir, og þau líta kímin hvort á annað og Hildur segir að þau hljóti nú að geta eitthvað sagt um það. Sérarnir eru ekki bara frumleg þegar kemur að hugmyndum fyrir starfið í kirkjunni, þau eru líka á góðri leið með að verða samfélagsmiðlastjörnur!
SAMFÉLAGSMIÐLAR GLERÁRKIRKJU:
TikTok reikningur Glerárkirkju höfðar til yngri kynslóðanna, eðli málsins samkvæmt. Takið eftir eftir lýsingunni; Lifandi kirkja í þorpinu - Aðdáendaklúbbur Jesú í 603!