Fara í efni
Fréttir

Fermingarfræðsla veldur fjaðrafoki

Glerárkirkja. Mynd: Facebook síða Glerárkirkju

Mjög skiptar skoðanir hafa komið upp í færslum og athugasemdum á Facebook eftir fræðslukvöld fermingarbarna í Glerárkirkju, þar sem Sigga Dögg kynfræðingur var með fræðslu. Einn faðir, Ingþór Örn Valdimarsson á Akureyri, hefur skráð dóttur sína úr fræðslunni og mikil umræða hefur skapast við færslu hans á miðlinum.

Færsla Ingþórs Arnar á Facebook. Við hana eru komin 40 ummæli. Mynd: skjáskot

Kannast ekki við óánægju á fræðslunni

Ónefnd móðir sem tók þátt í fræðslunni kannast ekki við að óánægju hefði gætt á þessu fræðslukvöldi. „Þessi fræðsla opnaði á að það væri hægt að tala um þessi mál heima við. Það var komið inn á margt sem er gott að geta rætt við börnin sín á þessum aldri, en oft erfitt að hefja umræður,“ segir hún við blaðamann Akureyri.net. „Það gæti verið að fólk sem er fullkomlega ánægt með þessa stund nenni bara ekki að kommenta á þessa gagnrýni á Facebook,“ bætir hún við.

Breytingar á fermingarfræðslunni

Breytt fyrirkomulag fermingarfræðslu í Glerárkirkju á Akureyri felur meðal annars í sér að fermingarbörnin mæta til fræðslukvölda í kirkjunni ásamt foreldrum sínum. Prestarnir Sindri Geir Óskarsson og Hildur Björk Hörpudóttir og djákninn Eydís Ösp Eyþórsdóttir bera ábyrgð á fræðslu og breyttu fyrirkomulagi, en viðtal við þau um fermingarfræðslu ársins er væntanlegt á Akureyri.net.

Á heimasíðu Glerárkirkju kemur þetta fram:

Komandi vetur verður öll fermingarfræðslan byggð upp á samveru, tengslum og nánd foreldra og ungmenna, þ.e.a.s. að börnin koma aldrei ein í fræðsluna, það er alltaf einhver fullorðinn með þeim, hvort sem það eru amma/afi eða foreldri. Þetta verða fjórar svona fræðslustundir yfir veturinn og þær byggjast upp á því að við borðum saman og svo vinna foreldrar og börn saman að verkefnum sem snúa að lífsviðhorfum, gildum, spurningum um tilgang, glímurnar í lífinu og samskipti.

Kynfræðingurinn eyðir færslu

Sigga Dögg hefur eytt færslu sinni á Facebook um að hún hafi mætt í kirkjuna og verið með fræðslu. „Ég nenni ekki svona heift og reiði og rifrildi og misskilningi og að vera úthrópuð hitt og þetta,“ segir meðal annars í póstinum.

Upphaflega færslan:

Mynd: skjáskot af Facebook