Lifum meðvituð um dýrmæti augnabliksins
Um hátíðarnar birtir Akureyri.net predikanir prestanna við Akureyrarkirkju og Glerárkirkju.
Séra Sindri Geir Óskarsson prestur predikaði við aftansöng í Glerárkirkju í dag.

Guðspjall: Lúk 12.35-40
Verið vel tygjaðir og látið ljós yðar loga og verið líkir þjónum er bíða þess að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra. Sælir eru þeir þjónar sem húsbóndinn finnur vakandi er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun búa sig, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim. Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá. Það skiljið þér að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt ef hann vissi á hvaða stundu þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúnir því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“
Þannig hljóðar heilagt guðspjall og sæl erum við þegar við heyrum, meðtökum og varðveitum í hjartanu. Amen.
Náð, friður og kærleiki Guðs sé með okkur – Amen
Svo hljótt þaut mín jörð yfir himinsins nafnlausu vegi
að hjarta mitt fann ekki mismun á nóttu og degi,
í feiminni þrá, sem endalaust bíður og bíður.
Hann blekkti mig, tíminn, ég vissi ekki, hvernig hann líður.
Og svo flaug hann á burt með mitt vor yfir heiðar og hlíðar,
með höll mína, tign mína og ríki, ég vissi það síðar,
með hið fegursta og besta, sem aðeins af afspurn ég þekki
-og ég átti það, átti það allt, en ég vissi það ekki.
Nú undrast ég það, þar sem einn ég í skugganum vaki
að mín æska er liðin, er horfin, og langt mér að baki,
á einfaldan hátt, eins og auðfarinn spölur á vegi,
og þó undrast ég mest, að ég gekk þar, og vissi það eigi.
(Guðmundur Böðvarsson)
Raddir sem aldrei hljóðna, þetta fallega ljóð Guðmundar Böðvarssonar fær að fylgja okkur inn í hugvekju gamlársdags.
Það er gildishlaðinn dagur í dag. Einum kafla lýkur og annars hefst, sonur minn bíður spenntur eftir árinu þegar hann verður sjö ára og fær þá að byrja í skátunum – ég á ljóslifandi minningu af því að hafa verið á sama aldri, og að hafa velt því fyrir mér hvernig fullorðna fólkið hefði nennt að bíða eftir að verða fullorðið, tíminn leið svo löturhægt, nú flýgur hann áfram og ég vildi stundum óska að hann gæti bara staðið í stað. Ég hef gripið mig við að skoða gömul myndbönd af eldri börnunum mínum frá því að þau voru á leikskólaaldri og það læðist yfir mig sorg – söknuður eftir faðmlagi lítilla handa og orðum sem voru borin fram á krúttlega rangan hátt, söknuður eftir tækifærum til að detta í leik og vera boðið inn í ævintýraheim barnshugans. Nú þegar þau nálgast það að vera unglingar eru auðvitað enn næg tækifæri til tengsla, samveru og leiks, en þessi söknuður er mín áminning um dýrmæti augnabliksins, tilfinningin sprettur af kærleika eins og öll sorg, og ef við förum vel með hana getur hún orðið drifkraftur frekar en að hún næri eftirsjá.
Ég upplifi að ljóð Guðmundar og orð Jesú í lestri dagsins snerti á svipuðum þráðum – að við lifum vakandi, í eftirtekt, meðvituð um dýrmæti augnabliksins, sem er í raun það eina sem við eigum. Guðmundur dregur fram undrunina yfir því hvað tíminn líður og viðhorf þess sem horfir með eftirsjá yfir glötuð tækifæri – á meðan orð Krists gefa okkur nestið til framtíðar, hann segir: vakið. Lifið eins og þessi dagur skipti máli, látið ljós ykkar loga í myrkrinu – lifið ekki í tilgangsleysi eða eftirsjá – þessi dagur, tækifærin og tengslin skipta máli.
Það er ekki að ástæðulausu að þetta þema birtist í öllum guðspjöllunum. Þetta eru orð sem við þurfum á að halda því við flest eigum auðvelt með að flækjast og jafnvel festast í eftirsjá eða fortíðarþrá. Það getur átt sinn tilgang, það er öryggi í því sem var, því sem við höldum að við þekkjum. Í allri fortíðarþrá liggur löngunin í öryggi, hvort sem það er á skala einstaklingsins eða samfélagsins. Að þurfa ekki að hafa hugann við þá óvissu sem fylgir nýjum degi, nýju ári, nýju augnabliki – það getur verið huggun að sjá fyrir sér hvernig allt var, og vilja stefna þangað aftur.
En, það er tálsýn.
Það sem við köllum fortíð – hafði sínar glímur, sína óvissu – og sinn skert af fortíðarþrá. Núna í desember las ég dásamlega grein sem bar titilinn „Við þurfum að tala við börnin“. Hún er eftir Jón Kr. Kristjánsson kennara frá Víðivöllum í Fnjóskadal og birtist í ritinu Heimili og Skóli í febrúar 1957. Þar lýsir hann áhyggjum af börnum landsins og hnignandi orðaforða, og telur hraðann, glundroðann og hávaða útvarpsins eiga ákveðna sök á – fyrir utan það að fólk tali ekki nógu mikið við börnin sín. Við gætum brosað yfir þessu, og leitt hugann að samfélagsumræðunni um stöðu barna og ungmenna nú tæplega 70 árum síðar. Áhyggjum af lestri og samfélagsmiðla notkun. Ég er ekki að gera lítið úr áhyggjunum þótt að ég segi að viðkvæðið heimur versnandi fer eigi ekki við rök að styðjast.
Heimurinn breytist – og því þurfum við að vera vakandi. Nýta reynslu sem drifkraft frekar en að við sogumst inn í von eftir veröld sem var – því hún var ekkert eins gyllt og eftirsjáin vill meina.
Fólkið sem gekk á undan okkur sagði skilið við þessa fortíð, sigraði sínar glímur í von um að við myndum ekki þurfa að takast á við þær áfram. Kannski er einhver hroki í því sem ég ætla að segja núna – en ég vil meina að í gegnum það að heyra lífssögur fólks, skrifa minningarorð og að vera treyst fyrir innsýn í uppvaxtar ár kynslóðar sem sannarlega þekkti Ísland sem var – þá hef ég engan áhuga á að skapa framtíð sem byggir á baksýnisspeglinum.
Mæður eða ömmur einhverra ykkar voru vinnukonur til sveita, unnu lengri vinnudag en vinnumennirnir fyrir helming laun þeirra. Frændur og afar einhverra ykkar örkumluðust eða létu lífið í störfum þar sem öryggi og aðbúnaður var hvergi nærri því sem okkur þykir sjálfsagt í dag. Langaömmur okkar fengu ekki að syrgja börnin sín. Úr stórum systkinahópi fékk kannski eitt tækifæri til skólagöngu. Og svo ég tali nú ekki um ofbeldið, gegn drengjum og stúlkum, konum og körlum, sem aldrei mátti segja frá. Eða feluleik og skömm þeirra sem upplifðu sig öðruvísi, á skjön eða hinsegin.
Þessi tími er liðinn, og hann var ekki betri en samtími okkar – hann var öðruvísi – og árið sem við mætum á miðnætti – það verður líka öðruvísi. Því heimurinn siglir áfram, sagan hefur sína framvindu – og á sama tíma og ég þori að segja „heimur batnandi fer“, þá dreg ég ekkert í land með það, að heimurinn batnar aðeins fyrir tilstilli þess að við mætum augnablikinu vakandi, af hugrekki og vilja til að bæta og gera heilt.
Það er svo ótalmargt galið og bogið í heiminum, en líka svo óendanlega margt heilt og fallegt – og á hverjum degi býðst okkur að stíga inn í veruleikann sem lyftir upp hinu góða og fagra, inn í það loforð Guðdómsins að vilja gefa okkur vonarríka framtíð. Og frammi fyrir allri óvissu, held ég að það sé ekki til sterkari kraftur en þessi von kristindómsins - sú fullvissa að Guð sé með okkur, og ef við gefum færi á því – þá vilji Guð leiða okkar í átt að friði, von, réttlæti og kærleika.
Nú þegar við mætum nýju ári vona ég að við tökum hvatningu Krists með okkur, látið ljós yðar loga og vakið, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.
Við vitum ekki hvað morgundagurinn færir, en ef við látum von leiða okkur frekar en ótta, hugrekki frekar en eftirsjá, leggjum rækt við okkar andlegu leit og trúarlega vöxt, tökum eftir blessununum og fólkinu í lífi okkar, lifum meðvituð um augnablikið og veginn sem við göngum - þá veit ég að við vöxum í átt að því marki sem Kristur ætlar okkar – og við þurfum aldrei að óttast að lokalínur ljóðs Guðmundar „þó undrast ég mest, að ég gekk þar, og vissi það eigi.“ – verði lokalínurnar í okkar sögu.
Dásamlegi söfnuður – Guð gæti ykkar og leiði á nýju ári – öndum djúpt, treystum Guði og veljum kærleikann, alla daga. Amen.
-
Kirkjubæn á gamlárskvöld
(úr nýrri handbók kirkjunnar)
Biðjum saman í Jesú nafni:
Guð, þú stendur við dyr og opnar gáttir.
Þú leiðir þennan dag til lykta
og hylur hinn ókomna.
Af náð þinni gefur þú okkur aðeins eitt andartak í einu.
Við þökkum þér árið sem senn er liðið,
fyrir gleði þess og sorgir,
allt sem það gaf og tók.
Fyrirgef okkur skuldirnar,
synd, afbrot, vanrækslu alla.
Lát engan líða okkar vegna,
heldur opna fyrir okkur leiðir
til að bæta fyrir það sem við höfum gert rangt,
eða látið ógert.
Leys okkur frá gremju yfir því sem að baki er
og kvíða fyrir komandi degi.
Kenn okkur að telja daga okkar
svo að við getum öðlast viturt hjarta.
Við felum þér land okkar og líf þess,
byggðir landsins og börn þess öll,
samfélag, menningu, tungu og trú,
stjórnvöld og þau önnur sem áhrif hafa í samfélaginu,
atvinnulíf og efnahag,
alla tímanlega og eilífa farsæld.
Í þínar hendur felum við árið liðna,
og í trausti til handleiðslu þinnar
höldum vér inn um dyr hins nýja.
Vísa okkur vegu þína, Drottinn,
og leið okkur gegnum skammdegi lífsins,
að við náum því marki sem þú hefur sett jarðlífsgöngu okkar.
Amen.