Fermingarfræðsla sem þessi kynslóð þarf

Skiptar skoðanir hafa verið um fræðslukvöld í Glerárkirkju í síðustu viku, fyrir fermingarbörn og foreldra þeirra. Sigga Dögg kynfræðingur hélt þar fyrirlestur, sem fór fyrir brjóstið á einhverjum og ljóst er að ekki eru allir sammála um það, hvort að kynfræðsla eigi heima innan veggja kirkjunnar. Blaðamaður akureyri.net ræddi við prestana og djáknann sem skipuleggja fræðsluna, og forvitnaðist um breyttar áherslur og viðbrögð þeirra við umræðunni.
- Umfjöllun akureyri.net í fyrradag:
FERMINGARFRÆÐSLA VELDUR FJAÐRAFOKI
Glerárkirkja býður upp á nýtt fyrirkomulag á fermingarfræðslunni í ár, eins og í safnaðarstarfinu öllu, en það eru prestarnir Hildur Björk Hörpudóttir og Sindri Geir Óskarsson sem hafa þróað þessar breytingar ásamt djáknanum Eydísi Ösp Eyþórsdóttur. Eitt af því sem er nýtt af nálinni, er að bjóða upp á fræðslukvöld í kirkjunni, þar sem fermingarbörnin mæta ásamt foreldrum sínum.
„Við viljum gefa börnum og foreldrum vettvang til þess að ræða það sem er ótrúlega erfitt að ræða,“ segir Hildur Björk við blaðamann akureyri.net. „Eins og dauðann, sorgina, nándina, guðsmyndina og trúnna, svo eitthvað sé nefnt. Það sem er erfitt að brydda upp á við matarborðið heima, en skiptir gríðarlegu máli. Kirkjan er öruggur staður, til þess að nálgast þessi málefni í sameiningu.“
Hildur Björk, Eydís Ösp og Sindri Geir í góðum gír í kirkjunni. Myndir: aðsendar
Gestafyrirlestur einu sinni á ári
Fræðslukvöldin eru haldin einu sinni í mánuði, og það fyrsta var haldið í síðustu viku. Fræðslan verður í höndum prestanna sjálfra en einn gestafyrirlesari mun koma á hverju ári. Sigga Dögg kynfræðingur var gesturinn í ár, og hún hélt erindi fyrir fermingarbörnin og foreldra þeirra eins og hún hefur gert í öðrum kirkjum og skólum. Efni fræðslunnar vakti upp blendnar tilfinningar í foreldrahópnum, en Akureyri.net sagði frá viðbrögðum frá ósáttum föður, og fleiri fjölmiðlar hafa tekið upp umfjöllun um málið. Eftir það hafa fleiri foreldrar stigið fram á samfélagsmiðlum og lýst sinni upplifun, og lýsa þakklæti fyrir fræðslukvöldið.
Við trúum því að foreldrar vilji taka þátt í að ræða þessar stóru spurningar með börnunum sínum
Inga Huld Sigurðardóttir var ein af þeim sem hrósuðu fræðslu Siggu Daggar: „Ég var ekki bara viðstödd - ég sá með eigin augum hvernig Sigga Dögg skapaði öruggt rými þar sem unglingarnir fengu að vera manneskjur með spurningar, forvitni og öryggi. Hennar nálgun er nákvæmlega það sem þessi kynslóð þarf: Fullorðinn sem þorir að taka erfiðu samtölin með virðingu, heiðarleika og já - húmor,“ sagði meðal annars í færslu Ingu á Facebook.
Ingþór Örn Valdimarsson, faðir fermingarbarns sem sótti ekki sjálfur fræðsluna heldur kona hans ásamt dóttur þeirra, er sá sem gagnrýndi harðlega fræðslukvöldið á Facebook síðu sinni. Hann sagði kynfræðinginn meðal annars hafa hvatt börnin til sjálfsfróunar og „drusluvætt“ Maríu mey.
Sjálfsfróun er sjálfsþekking
„Við treystum Siggu Dögg, kynfræðingi og fagmanneskju, til þess að koma til okkar með þennan fyrirlestur. Hún hefur flutt hann í mörgum skólum og í fermingarfræðslu á fleiri stöðum en hér. Sigga ræddi sjálfsfróun sem leið til þess að þekkja sinn eigin líkama og sín eigin mörk. Hún lagði áherslu á það við krakkana, að áður en þau færu að koma nálægt öðrum líkömum þá þyrftu þau að þekkja sig sjálf. Hluti af okkur öllum, er að við erum kynverur,“ segir Hildur Björk.
Hvað varðar meinta drusluvæðingu Maríu, segir Sindri að það sé einmitt í kirkjunni, sem sé öruggt rými til þess að tala um persónur úr Biblíunni og viðra skoðanir sínar og vangaveltur eins og Sigga Dögg hafi gert.
„Næst ætlum við að taka fyrir guðsmyndina og sjálfsmyndina, svo ætlum við að tala um sorgina, dauðann og áföllin og ljúkum svo árinu með dásamlegri jólasamveru,“ segir Hildur Björk. „Við ætlum líka að hafa fræðslu og dansmaraþon og fleira skemmtilegt. Fræðslustundirnar hefjast alltaf á helgistund, svo borðum við saman, hlustum á fyrirlestur og gerum svo verkefni saman.“
Þáttaka foreldra mikilvægur hluti
Veturinn byrjaði á því að fermingarkrakkarnir fóru saman í Vatnaskóg, þar sem þau voru í 4 daga með prestunum og farið var í ýmislegt sem tengist trúnni. „Við erum búin að vera með krökkunum í prógrammi, en nú er bara komið að því að leyfa foreldrunum að vera með,“ segir Sindri Geir. „Við viljum gefa þeim verkfærin til þess að eiga svolítið djúp samtöl við krakkana sína, sem oft er erfitt að finna vettvang fyrir.“
Þetta er ekki lengur staður þar sem þú kemur og átt bara að sitja og fylgjast þegjandi með
„Við erum að tækla kannski stærstu tilvistarspurningarnar sem við mætum í lífinu,“ bætir Sindri við. „Hver er ég, til hvers er ég hérna og er eitthvað meira? Er einhver Guð og hvernig birtist hann mér? Við trúum því að foreldrar vilji taka þátt í að ræða þessar stóru spurningar með börnunum sínum, hjálpa þeim að móta sína sýn og verða vitni að þeim mikla þroska sem á sér stað á þessum tíma. Okkur finnst foreldrarnir vera mjög mikilvægur hluti af fermingu barna sinna og við vonum að sem flestir foreldrar sjái þetta sem tækifæri til tengslatíma og samveru.“
Úr áhorfanda í þáttakanda
„Við viljum líka að foreldrar sjái að kirkjan hefur breyst,“ segir Eydís. „Þetta er ekki lengur staður þar sem þú kemur og átt bara að sitja og fylgjast þegjandi með. Nú er meiri þáttaka.“ Hildur bendir á að búið sé að afnema svokallað stimplakerfi í fermingarfræðslunni, sem gekk út á það að fermingarkrakkarnir áttu að mæta í ákveðið margar messur yfir veturinn og fá stimpla fyrir. Skylda er að mæta á fræðslukvöldin, og krakkarnir eru hvattir til þess að mæta í messur, en það er ekki ekki lengur kvöð.
„Við viljum vera staður sem fólk kemur á, af því að það vill koma en er ekki skyldugt til þess,“ segir Hildur Björk. „Við sjáum samt ekki fækkun í fermingarbörnum og foreldrum sem mæta, eiginlega hitt þó heldur.“ Sindri tekur undir og segir að það sé bersýnileg aukning í mætingu það sem af er hausti.
Aukin áhersla hefur verið á frumlega nálgun í samveru og nýtingu kirkjunnar fyrir samfélagið í Þorpinu. Síðasta miðvikudag í mánuði er t.d. boðið til Úlfatíma, þar sem fjölskyldur geta komið og gert eitthvað skemmtilegt saman, borðað kvöldmat og svo er kvöldkirkja í boði fyrir þau sem vilja. Mynd: Glerarkirkja.is
Kirkjan á að vera samfélag
Hildur Björk hóf störf í Glerárkirkju í upphafi árs 2025, og Sindri segir að hún sé mikill frumkvöðull í starfinu. „Hún kemur með ferska nálgun inn og hefur sett fókusinn á það að leiða saman kynslóðir á frumlegan hátt, að vera með fjölbreytt starf sem leiðir saman ólíka hópa. Fermingarfræðslan með foreldrum er hluti af þessari hugmyndafræði,“ segir Sindri um kollega sinn.
Upplifa þakklæti frá langflestum
„Okkur langar að segja að við höfum fengið miklu fleiri jákvæð viðbrögð frá foreldrum sem sóttu fræðsluna í síðustu viku, heldur en neikvæð. Öll neikvæðu viðbrögðin voru pósturinn frá Ingþóri og svo póstur með gagnlegum athugasemdum frá öðru foreldri,“ segir Sindri Geir að lokum. „Bæði lýsti fólk yfir ánægju með stundina á staðnum og svo í skilaboðum til okkar eftir að umræða skapaðist á miðlunum. En við höfum fulla trú á því sem við erum að gera af því að við sjáum viðbrögð og þakklæti frá foreldrum, að fá að taka meiri þátt í þessum tímamótum með börnunum sínum.“
Fyrri umfjöllun akureyri.net um fermingarfræðsluna:
20. október – FERMINGARFRÆÐSLA VELDUR FJAÐRAFOKI