Að klára verkefnin – hvað er í gangi á Ásnum ?

Eins og Akureyringar og sér í lagi knattspyrnuáhugafólk vita eflaust stóð til að vígja frábæran nýjan gervigrasvöll á félagssvæði Þórs núna í lok júní. Sé litið þar yfir nú sést að framkvæmdir við völlinn eru langt á eftir áætlun og það sem verra er, einhverra hluta vegna virðist svo gott sem engin vinna vera í gangi við verkið, sem þó átti að vera lokið eða að minnsta kosti mjög langt komið á þessum tímapunkti.
Til samanburðar má geta að hafist var handa á svipuðum tímapunkti í Vestmannaeyjum og í Vesturbæ Reykjavíkur og er vallargerð lokið í Eyjum og í Reykjavík eru verklok nú í júlí og það þrátt fyrir mikil skakkaföll sem upp á komu í þeirri framkvæmd.
Ég er svo sem enginn sérfræðingur í iðnaði tengdum gerð knattspyrnuvalla en líklegt verður að teljast að það standi afar tæpt að völlurinn verði tilbúinn í ár, ekki er einu sinni búið að klára jarðvegsskipti á vellinum, hvað þá leggja allar lagnir, vökvunarkerfi, gúmmípúða, gervigras, innfylliefni og flóðljós.
Ótti minn snýr fyrst og fremst að því að ef verkið tefst mikið meir verður ekki hægt að koma grasinu á völlinn áður en ágústmánuður klárast og þá er það orðið of seint fyrir veturinn. Sem aftur merkir þá að gras kemst ekki á völlinn fyrr en í fyrsta lagi í maí á næsta ári, eða hátt í ári á eftir áætlun.
Þetta hefur gerst áður hér í bæ, ekki nema fyrir tveimur árum lenti KA í nákvæmlega þessari stöðu með nýjasta gervigrasvöll sinn með tilheyrandi raski. Vonandi verða þau mistök ekki gerð aftur.
Ég veit ekki hver ber ábyrgðina en ég vona að sá hinn sami átti sig á að þessi völlur skiptir börn og unglinga gríðarlegu máli í bæjarfélaginu. Völlurinn verður nefnilega til þess að loksins loksins verður aðstaða til knattspyrnuiðkunar til samræmis við iðkendafjölda. Börn og unglingar munu ekki þurfa að æfa til kl. 22.00 á kvöldin og rýmra verður um starfsemi Þórs, KA og Þórs/KA. Iðkendur þessara aðila telja vel á annað þúsund ef tölurnar svíkja mig ekki. Þá á eftir að telja alla þá sem „bara“ leika sér í fótbolta og/eða nota t.d. Bogann til annarra nota en knattspyrnu.
Undirritaður veit að hann talar fyrir hönd ansi margra foreldra hér í bæ þegar hann skorar á þá sem að verkinu standa að standa við gefin loforð þegar verkið var boðið út og sjá sóma sinn í því að klára völlinn áður en haustar svo að börn og unglingar geti notið þessarar frábæru viðbótar við íþróttalífið í bænum.
Jón Stefán Jónsson er knattspyrnuþjálfari


Verulegt rými til framfara

Látið hjarta Akureyrar í friði

Fiskeldi og samfélagsábyrgð

Hver borgar brúsann?
