Fara í efni
Pistlar

Að gleyma sér 

Við erum útbúin þessum öfluga og óútskýrða ofurkrafti sem er meðvitundin. Það mætti segja að við séum sítengd alla ævi, nema þegar meðvitundarstigið er lækkað eins og í svefni. En það getur verið erfitt að vera meðvituð um umhverfið og allt sem er að gerast, í áleitnu áreiti tæknisamfélagsins, allan daginn. Og það er ekki minna álag að vera sífellt meðvitaður um sjálfan sig, hugsanir sínar, áhyggjur, efasemdir og tilfinningar.

Það er því nauðsynlegt að geta gleymt sér. Helst á hverjum degi, líka í vinnunni, þó ekki væri nema örlitla stund. Komast í aðra vídd með því að njóta eða skapa list, verða hluti af einhverju æðra en baráttunni fyrir salti í grautinn, hvílast í nærandi samskiptum, týnast í algleymi kynlífsins, ná fullkominni slökun og hvíld í hreyfingunni hvort sem maður er úti í náttúrunni eða inni í ræktinni.

Núvitund og jóga eru dæmi um lærðar aðferðir til að ná góðri slökun og gleyma sér. Sjálfsagt er víman líka einhvers konar tilraun til að fá frið.

Við skiljum öll hve mikilvægt er að geta gleymt sér, aftengt hugann algjörlega, en við eigum mis auðvelt með þetta. Og stundum fáum við samviskubit og finnst við vera að svíkjast um ef við höldum okkur ekki við verkin.

En við þurfum að gera betur því sumir vísindamenn telja að skýringin á aukinni tíðni kulnunnar og athyglistruflunar gæti verið skortur á heilahvíld og að við séum að glata hæfileikanum til að aftengjast og slaka á.

Í dagsins önn og áreiti er því mikilvægt að finna og tileinka sér aðferðir til að gleyma sér. Helst einfaldar, nærtækar aðferðir og sem gefa hugarró, hafa áhrif á meðvitund og aftengja hugann. Kosta lítið eða ekkert. Eitthvað sem líka er hægt að gera á álagstímum.

Dæmi um slíkt er:

  • Dundur, dútl og droll.
  • Dagdraumurinn yfir kaffibollanum.
  • Hugarheimur bókarinnar sem þú sökkvir þér í.
  • Gönguferð í náttúrunni.
  • Vellukkaður sunnudagsgolfhringurinn.
  • Kjaftatörnin í kaffistofunni.
  • Kjánalegu leikirnir við barnabörnin.
  • Bíómyndin sem er svo grípandi að þú vonar að það sé ekkert hlé.
  • Allt föndrið og hannyrðirnar.
  • Púslið og myndgátan.
  • Bænin.
  • Tíuþátta heilalausa sjónvarpsþáttaröðin sem þú gleymir þér yfir í hámhorfinu og hálf skammast þín, því hún er hvorki menningarleg né spennandi.
  • Keleríið, knúsið og endalausu samtölin við kærastann.
  • Já og mörg störf eru þess eðlis að maður getur gleymt sér við þau. Skurðlækninum líður hvergi betur en við flóknar aðgerði á skurðstofunni og tónlistarkennarinn gleymir sér í heimi tónlistarinnar þó hann sé að spila verkið í hundraðasta sinn.
  • Margir geta líka gleymt sér við heimilisstörf eins og að ganga frá þvotti eða strauja.

Heyrðu! Hvað gerir þú til að aftengja heilann og gleyma þér?

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Á fjöllum erum við öll í sama liði

Rakel Hinriksdóttir skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 14:00

Þessi þjóð er hrædd við útlendinga

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak

Rakel Hinriksdóttir skrifar
15. ágúst 2025 | kl. 06:00

Andleg klósettþrif milli vídda

Rakel Hinriksdóttir skrifar
14. ágúst 2025 | kl. 11:30

Bláminn á barrinu

Sigurður Arnarson skrifar
13. ágúst 2025 | kl. 09:00

Ekki „gervigreind“ heldur upplýsingaverksmiðjur

Magnús Smári Smárason skrifar
12. ágúst 2025 | kl. 14:30