Fara í efni
Fréttir

130 brautskráðir frá MA í ár – þar af 40 strákar

Gamli skóli, hið fallega, lifandi hús brosti mót sólu í morgun eins og hefur gert svo oft í liðlega öld. Ljósmynd: Sverrir Páll

Menntaskólanum á Akureyri verður að vanda slitið 17. júní í Íþróttahöllinni. Athöfnin hefst klukkan 10.00. Annað árið í röð er brautskráning með óvenjulegu móti vegna heimsfaraldurs, en að þessu sinni verður að sögn Jóns Más Héðinssonar skólameistara ögn meiri dagskrá vegna brautskráningar en í fyrra þótt færri fái að vera viðstaddir sjálfa athöfnina nú en þá.

Stúdentsefnin koma saman í skólanum og ganga þaðan í fylkingu til Hallarinnar. Þar verða ættingjar þeirra og vinir í tveimur aðskildum sóttvarnarhólfum, 300 manns í hvoru. Allir verða þeir með grímu og nákvæmlega skráðir fyrirfram. Nýstúdentar verða grímulausir. Að athöfninni lokinni verður gengið að útisvæðinu við Möðruvelli og þar tekin hefðbundin hópmynd. Að því loknu mun – ef veður leyfir – marserað um Lystigarðinn og nágrenni og þar lýkur opinberri dagskrá. Engin stórveisla verður í Höllinni um kvöldið en því fleiri heimaveislur. Þannig verður þetta að þessu sinni en vonandi verður unnt að hafa hefðbundna dagskrá á næstu árum. Og hlýlegri veðurspá.

Í upphafi brautskráningarathafnar er tónlist i flutningi Eikar Haraldsdóttur og Styrmis Þeys Traustasonar. Að lokinni ræðu skólameistara munu fulltrúar afmælisárganga flytja stutt ávörp, Einar Gunnar Pétursson 60 ára stúdent, Ingunn Svavarsdóttir 50 ára stúdent, Alma D. Möller 40 ára stúdent, Anna Guðrún Jónsdóttir 25 ára stúdent og Inga Bryndís Árnadóttir 10 ára stúdent. Eva Líney Reykdal, Íris Orradóttir og Styrmir Þeyr Traustason flytja svo tónlist og að lokinni brautskráningu flytur Ína Soffía Hólmgrímsdóttir ávarp nýstúdents. Siðameistari við skólaslit nú er Sonja Sif Jóhannsdóttir.

Að þessu sinni verða brautskráðir 130 nýstúdentar en í þeim hópi eru einungis 40 strákar. Þeim hefur á undanförnum árum farið hlutfallslega fækkandi og að sögn brautarstjóra hefur strákum á félagsgreinabraut fækkað áberandi á síðustu árum. Skýringin kann að vera sú að fleiri drengir velji nú iðnnám en bóknám.

Að sögn skólameistara er talsvert meira um það nú en í fyrra að stúdentahópar, júbílantar, hittist hér og hvar þessa daga í kringum 17. júní, og jafnvel einhverjir sem misstu af endurkomu á síðasta ári. MA-hátíðin í Höllinni fellur niður í annað sinn, en hóparnir gera sér glaðan dag þar sem húsnæði og aðstaða fæst á Akureyri og í nágrannabæjunum. Allir vona hins vegar að nú sé þessu ástandi að ljúka og framvegis megi halda hátíðir eins venja er til.

Akureyri.net sendir nýstúdentum og aðstandendum þeirra hamingjuóskir með stúdentsprófið.