Fara í efni
Minningargreinar

Hilmar Gíslason

Hilmar Gíslason

Pabbi var harðduglegur, jákvæður og skemmtilegur karakter. Í kringum hann var oftast mikið líf og fjör og að sjálfsögðu skellihlátur. Hann var mikill áhugamaður um hvers konar íþróttir. Þegar hann var ungur lék hann knattspyrnu með Þór og ÍBA, síðar æfði hann skallbolta af miklum móð og lék með hinu víðfræga liði Early Sunrise. Í seinni tíð átti golfið hug hans allan og hann naut sín best á golfvelli í góðum félagsskap. Pabbi hvatti okkur systkinin og vini ákaft til íþróttaiðkunar en hann og mamma voru óþreytandi að koma okkur á íþróttaæfingar.

Við fylgdum pabba töluvert, bæði í leik og starfi. Við fórum með honum í vinnuna, morgunsundið, skallbolta í Laugargötu og fótbolta í Skemmunni auk þess sem við bræður spiluðu oft með honum golf. Pabbi var mikill keppnismaður og okkur er það til efs að margir eldri kylfingar hafi lagt jafn hart að sér við æfingar. Um tíma var pabbi samtímis skráður í a.m.k. þrjá golfklúbba, GA, GR og Hamar á Dalvík. Æfingarnar skiluðu sínu og okkar maður var stoltur þegar hann komst í landslið eldri kylfinga og spilaði með því í Slóveníu.

Pabbi var maður augnabliksins og það hefur sjálfsagt oft reynt á þolinmæðina hjá mömmu þegar skyndihugmyndum var hrint í framkvæmd. Pabbi kom kannski heim á miðjum vinnudegi og tilkynnti að hann ætlaði skreppa erlendis í golf. Þeir félagarnir höfðu þá hist yfir kaffibolla og ákveðið að drífa sig út. Hann var bara kominn til að sækja græjurnar.

Frægt var líka þegar pabbi ákvað að vera huggulegur og bjóða mömmu einn sumardag í bíltúr í Mývatnssveit. Þegar þangað var komið var ekið beint að húsi í sveitinni og mömmu tilkynnt að þarna ætluðu þau inn. Hún myndi fá sér kaffi með frúnni á bænum, sem mamma þekkti ekkert, og á meðan færi pabbi í golf með húsbóndanum. Það kom sér líklega oft vel í samskiptum foreldra okkar að mamma lét fátt koma sér úr jafnvægi. Á milli þeirra var góð sátt um verkaskiptingu á heimilinu og við munum ekki eftir að hafa heyrt þeim verða sundurorða.

Pabbi vildi öllum vel og átti oft erfitt með að segja nei, sérstaklega við barnabörnin. Minnisstætt er þegar eitt barnabarnanna, þá fjögurra ára, lýsti því hvernig best væri að biðja afa um eitthvað. Leiðbeiningarnar voru einfaldar: Ef hann segir nei, spurðu hann þá aftur.

Pabbi var oft á undan sinni samtíð. Þegar Stína byrjaði að æfa skíði lét hann hana alltaf vera með hjálm sem var alls ekki algengt á þeim tíma. Þegar hann hætti að vinna, fyrir tuttugu árum, gerði hann samkomulag við þáverandi íþróttafulltrúa bæjarins um að gera gönguskíðaspor á Akureyrarvelli og KA-velli. Þannig vildi hann hvetja fólk til útiveru og hreyfingar, sérstaklega eldra fólk.

Mamma og pabbi áttu einstaka vini og voru dugleg að rækta vinskapinn og njóta samvista þrátt fyrir annríki. Þau fóru í ótal ferðir til útlanda. Minnisstæð eru bein rútuflug frá Akureyri, sólarlandaferðir og lengri ferðir til Flórída.

Það reyndi svo sannarlega á þegar pabbi veiktist, ekki síst þegar hann missti bílprófið. Alltaf voru vinirnir klárir að aðstoða okkur til að hann gæti haldið áfram í golfinu, farið í morgunsundið, í kaffi með félögunum og margt fleira. Það var ómetanlegt.

Það var erfitt að sjá á eftir þér elsku pabbi en við huggum okkur við góðar minningar og að nú ertu laus undan Alzheimer sjúkdómnum. Við erum þess fullviss að mamma hefur tekið vel á móti þér með góðu bakkelsi.

Takk fyrir allt, elsku pabbi.

Þorvaldur, Ólafur, Kristín og fjölskyldur.

Þorleifur Jóhannsson - minning

11. janúar 2021 | kl. 06:45

Þorleifur Jóhannsson

Inga Dagný Eydal skrifar
11. janúar 2021 | kl. 06:50

Ágúst H. Guðmundsson

Ásmundur Hreinn, Bjarni Ármann og Guðmundur Ævar Oddssynir skrifa
13. janúar 2021 | kl. 07:00

Þorleifur Jóhannsson

Símon Jón Jóhannsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 09:30

Þorleifur Jóhannsson

Sævar Benediktsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 10:30

Ágúst H. Guðmundsson

Guðrún Gísladóttir skrifar
13. janúar 2021 | kl. 07:00