Fara í efni
Minningargreinar

Elín Stephensen

Hún kom til okkar eins og himnasending að hausti í fjólubláum smekkbuxum. Þessi unga kona bar með sér ferskan andblæ, hugmyndaríki og festu sem varð það öryggi sem mörg okkar þurftu á að halda. Árið var 1979 og hún Elín Stephensen, nýútskrifuð úr Kennaraskóla Íslands, tók við umsjón bekkjarins okkar og hélt um hann ákveðnum en blíðum tökum næstu þrjá vetur. Við urðum ,,Elínar bekkur” í 31. stofu í Lundarskóla og kennum okkur jafnvel enn við hann, miðaldra fólkið sem við erum.

Elín kynnti fyrir okkur nýja kennsluhætti m.a. samstarf við aðra bekki og einnig krakka í sérdeild með þroskaröskun. Hún fékk okkur til að læra á nýjan hátt, með því að prófa og reyna, t.d. að vera blind, með bundið fyrir augun, hluta úr degi og kljást við okkar daglega umhverfi með aðstoð bekkjarfélaganna. Við fórum í hjóltúr alla leiðina í Kjarnaskóg - sem þá var nær óþekkt fyrirbæri - skipulögðum bekkjarkvöld með hinum bekkjunum, þar sem hún fékk einu sinni hjá okkur sérstakt leyfi til að bjóða vinkonu sinni að að sunnan að vera með. Gott ef hún dró ekki gítarinn stundum fram í kennslustundum; því er ekki ólíkt skemmtilegra að læra lag og texta en skólaljóðin utanbókar? Hún kom fram við okkur af væntumþykju og virðingu og lagði sig fram við að hlusta eftir okkar hugmyndum, okkar barnsröddum.

Flest minnumst við nestisstundanna þegar Elín las fyrir okkur. Hún var óhrædd við að kynna fyrir okkur alvöru bókmenntir og meira fullorðins. Má þar nefna Hobbitann, en við vorum allra spenntust fyrir Dýragarðsbörnunum sem hún las fyrir okkur síðasta veturinn; sannsögulega frásögn af ungri stúlku í Berlín áttunda áratugarins sem ánetjaðist eiturlyfjum og hörmungunum sem því fylgdu. Elín las hana með tilþrifum og gott ef hakan á okkur lafði ekki ofan í bringu rétt á milli þess sem við smjöttuðum afar varlega á nestinu okkar til að trufla ekki lesturinn. Svo viðkvæmt efni bar hún ekki fram hrátt fyrir unga krakka, hún gætti þess ávallt að ræða málin og virkja okkur í þeim samræðum.

Fyrir Öskudaginn í 6. bekk, síðasta veturinn okkar með Elínu, kom hún með hugmynd sem okkur fannst alveg fáránleg í fyrstu. Við vorum orðin 12 ára, sum okkar jafnvel 13 ára unglingar og nógu þroskuð til að sækja félagsmiðstöðvar með eldri unglingum sem voru komnir í Gaggann. Vaxin upp úr þeim barnaskap sem öskudagslið er og því meginmarkmiði að syngja misgáfuleg lög fyrir sælgæti í verslunum. Elínu langaði þó að endurvekja með okkur stórt öskudagslið, sem höfðu verið algengari áður fyrr, með metnaðarfulla söngdagskrá. Með elju og sannfæringarkrafti tókst henni að fá okkur til liðs við sig og klæddumst öll fangabúningi, sem mæður okkar sátu sumar sveittar við fram á nótt að sauma. Með þétt skipaða söngdagskrá og Elínu í fararbroddi, klædda búningi fangavarðar, mynduðum við skipulagða fylkingu að morgni Öskudags. Að sjálfsögðu var lögreglustöðin einn af fyrstu stöðunum sem við sungum á! Aðalhittarinn, sem Elín var búin að kenna okkur, var hið undurfagra og sorglega ljóð Davíðs Stefánssonar um Hrafnamóðurina. Við vöktum mikla athygli og vorum stolt af sjálfum okkur og samtakamættinum en líka gríðarlega stolt af Elínu okkar.

Elín átti eftir að fylgjast með okkur áfram og gaf sér alltaf tíma til að heilsa, spjalla og spyrja frétta af okkur þegar við hittumst á förnum vegi. Þegar árgangurinn hittist allur fyrir nokkrum árum byrjaði hver og einn bekkur að hita upp fyrir skemmtunina í heimahúsi og einhver hafði fengið þá snilldar hugmynd að bjóða Elínu að koma og fagna með okkur. Að sjálfsögðu mætti hún og laumaði út úr sér að þessum erfiða bekk hefði eiginlega verið fleygt í nýliðann þar sem reynslumeiri kennarar hefðu beðist undan. Það kom okkur gríðarlega á óvart því í minningunum okkar höfðum við kannski ekki verið algjörir englar en aldrei svo erfið! En líklega er það einmitt Elínu að þakka að við minnumst okkar tíma með hlýju og gleði, hún var kennari sem gat breytt öllu til hins betra, líka okkur. Með þakklæti í huga vottum við aðstandendum Elínar okkar innilegustu samúð.

Blessuð sé minning Elínar Stephensen.

Bekkurinn hennar Elínar í Lundarskóla, 1979-1982.

Þór Sigurðsson

Valgerður H. Bjarnadóttir skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:00

Þór Sigurðsson

Kristín, Sigurður og Herdís skrifa
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Hörður Geirsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 09:30

Þór Sigurðsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 06:00

Þór Sigurðsson – lífshlaupið

10. júní 2024 | kl. 06:00