Fara í efni
Minningargreinar

Ágúst H. Guðmundsson

„Baráttuglaðir leikmenn tapa aldrei, þeir falla einungis á tíma“ (John Wooden).

Kæri Gústi, við bræðurnir kveðjum þig með miklum söknuði og vottum fjölskyldu þinni okkar dýpstu samúðarkveðjur. Við erum afar þakklátir fyrir að hafa kynnst þér, samverustundirnar innan sem utan vallar og veganestið til framtíðar.

Eftir feril þinn sem leikmaður með Haukum, Þór og UFA, komst þú sem stormsveipur inn í starf körfuknattleiksdeildar Þórs í byrjun 10. áratugarins þegar þú hófst að þjálfa drengi sem fæddir eru um 1980. Strákarnir þóttu ekki líklegir til afreka en þú sást góðan efnivið. Með mikilli vinnu innrættir þú mönnum aga, metnað og trú á sjálfan sig og liðsheildina. Innan fárra ára mótuðust meistaralið, unglingalandsliðsmenn og vinir fyrir lífstíð. Drengirnir urðu seinna uppistaðan í meistaraflokki Þórs í körfuknattleik, sem þú þjálfaðir með góðum árangri árin 1998 til 2001. Seinna endurtókstu leikinn með strákum fæddum 1986 og 1987 og gott betur með drengjum sem fæddir eru um 2001. Þú varst máttarstólpi körfuknattleiksdeildarinnar og við fullyrðum að enginn hefur markað dýpri spor í sögu körfuboltans á Akureyri og fáir hafa gert meira fyrir íslenskan körfuknattleik.

Þú varst leikmönnum þínum miklu meira en þjálfari. Þú varst lærifaðir sem fleyttir mönnum út í lífið með því að rækta með okkur vinnusiðferði og seiglu sem erfitt er að kenna. Þetta veganesti hefur hjálpað okkur á lífsins braut og fáum við það þér aldrei fullþakkað. Þú varst fyrirmynd okkar og við gátum ávallt leitað til þín. Þér þótti vænt um leikmenn þína og þeim um þig. Ekki síst fyrir þína tilstilli mynduðust sterk tengsl í okkar hópi, ævarandi vinskapur og virðing. Þú varst ætíð heill í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur og fyrir vikið nýtur þú ómældrar virðingar leikmanna þinna og annarra.

Sjálfur fékkst þú ekkert upp í hendurnar en lagðir þeim mun meira á þig. Það var gaman fyrir okkur leikmenn að fylgjast með afrekum þínum þínum utan vallar. Allt sem þú framkvæmdir leystir þú svo vel úr hendi að eftir því var tekið. Þú og Guðrún eiginkona þín eruð sannkallað afreksfólk og hafið komið fjölmörgu góðu til leiðar og börnunum ykkar frábæru kippir svo sannarlega í kynið.

Þú varst svo sannarlega í essinu þínu á körfuboltavellinum. Ef maður lokar augunum sér maður þig fyrir sér á hliðarlínunni í Íþróttahúsi Glerárskóla að brýna Þórsliðið þitt til dáða og að sjálfsögðu íklæddur Nike peysunni góðu. Þannig munum við minnast þín. Það er sárt að hugsa til þess að þú féllst á tíma langt fyrir aldur fram en arfleifð þín og minning um einstakan mann lifa áfram.

Kæra Guðrún, Jana, Júlíus og Berglind, hugur okkar er hjá ykkur.

Ásmundur Hreinn Oddsson
Bjarki Ármann Oddsson
Guðmundur Ævar Oddsson

 

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00