Fara í efni
Menning

Viltu skyggnast á bak við tjöldin í Listasafninu?

Í tilefni af 30 ára afmæli Listasafnsins á Akureyri býðst gestum að skyggnast á bak við tjöldin og fá svör við spurningum sem eflaust brenna á einhverjum.

  • Hvernig lítur Listasafnið á Akureyri út þegar verið er að skipta um sýningar?
  • Hvaða verkefni eru á dagskrá þegar sýningu lýkur?
  • Hvernig er skipulagið í listaverkageymslunni?

Afmæli safnsins verður fagnað á Akureyrarvöku eftir viku, 25. til 27. ágúst, en þangað til gefst áhugamönnum tækifæri í þrígang til að skoða safnið, fólki gefst jafnframt kostur á að hitta listamenn og starfsfólk Listasafnsins, sem er að undirbúa og setja upp sýningar.

Boðið verður upp á leiðsögn þar sem fólk getur fræðst um það sem gerist á milli sýninga og í aðdraganda uppsetningar á nýjum sýningum. Á tímabilinu sem um ræðir er verið að setja upp fimm nýjar sýningar í sex sýningarýmum og þar af leiðandi í mörg horn að líta. Gestir geta því upplifað þennan annasama og spennandi tíma í safninu og fá þannig innsýn í þá starfsemi safnsins sem oftast er ekki aðgengileg gestum.

  • Laugardagur 19. ágúst kl. 15
    Hvernig er skipulagið í listaverkageymslunni? Safngestir fá að skoða í listaverkageymslur og fræðast um safnkostinn.
    • Þriðjudagur 22. ágúst kl. 15
      Leiðsögn þar sem listamenn og sýningarstjórar fjalla um undirbúning og uppsetningu sýninganna Hringfarar og Að vera vera.

 

  • Fimmtudagur 24. ágúst kl. 12
    Leiðsögn þar sem listamenn og sýningarstjórar segja frá undirbúningi og uppsetningu þriggja sýninga, Afar ósmekklegt, Einfaldlega einlægt og Töfrasproti tréristunnar.