Fara í efni
Menning

Akureyrarvaka fyrir nostalgíu og tímaflakk

Akureyrarvaka, árleg afmælishátíð bæjarins, verður í dag og á morgun. Viðburðir Akureyrarvöku eru fjölmargir, og oft er erfitt að sjá skóginn fyrir trjánum. Akureyri.net tekur saman hugmyndir að viðburðum fyrir mismunandi áhugasvið eða stemningu, en hér er það nostalgían sem ræður ríkjum:

 

Á Minjasafninu verður LEGO bær frá árunum 1978-1992, en elstu LEGO kubbarnir eru vísir með að kveikja á einhverjum minningum hjá mörgum. Hvort sem það er kynslóðin sem lék sér með þá, eða kynslóðin sem steig á þá eftir háttatíma. 

Fastur liður á Akureyrarvöku er fornbílasýningin í Listagilinu, en hún verður á laugardaginn á milli 13-17. Einhverjir geta eflaust svifið aftur í tímann þegar þeir spegla sig í stífbónuðum og glansandi stálfákunum. 

Fyrir sumar kynslóðir eru sveitaballalögin alveg bullandi nostalgía. Magni og Hreimur voru konungar sveitaballatímans, þar sem Magni var spenntur í Á móti sól og Hreimur var í ástarfári í Landi og sonum. Þeir ætla að vera með tónleika með frásagnarívafi á Græna hattinum á föstudaginn, þar sem þeir lofa að taka alla slagarana af böllunum í bland við júrótóna og fleira.

Flest eigum við æskuminningar um útilegur í misvinveittri íslenskri náttúru, eða á líflegu tjaldstæði á fallegum stað. Í GLUGGANUM við Hafnarstræti 88 hafa systurnar Áslaug og Brynja Tveiten sett upp nýja sýningu, en í þetta sinn er það útilegustemningin sem ræður ríkjum. Raulum Þórsmerkurljóð og rennum aftur í stígvélin og lopapeysuna.

Hlekkir á viðburðina: