Fara í efni
Menning

Fjölskylduveisla í Hofi á Akureyrarvöku

Menningarfélagið býður til veislu í menningarhúsinu Hofi á Akureyrarvöku. Veislan hefst í kvöld, föstudagskvöldið 29. ágúst, á suðrænum nótum, þegar hópur tónlistarfólks úr bænum flytur brasilíska tóna undir heitinu Minningar frá Brasilíu. Tónleikarnir hefjast kl 22 og verða í Nausti. Á morgun, laugardag, verður svo fjölskyldumiðuð dagskrá frá kl. 13.45 - 17.

Hamraborg breytist í ævintýralegt fuglabjarg kl 14, þegar Fuglakabarettinn verður sýndur. Samkvæmt lýsingu á heimasíðu Menningarfélagsins er um að ræða fjörugan og frumlegan kabarett um íslenska fugla eftir Hjörleif Hjartarson og Daníel Þorsteinsson. Öll dagskrá í Hofi þennan dag er ókeypis, öll eru velkomin á viðburði á meðan salarrými leyfir.

Afmælisstarfsár og Gullkort

Í hönd fer afmælisstarfsár Menningarfélagsins, en það hóf starfsemi sína 2015. Efnt verður til formlegrar kynningar á Konfektkassanum svokallaða; þar sem fjölbreyttar sýningar ársins verða tilkynntar. Í ár er nýtt af nálinni, að hægt er að kaupa Gullkort, sem eru afsláttarkort á viðburði ársins. Hér er hægt að skoða Gullkortin, en eftir því sem menningarþyrstir viðskiptavinir velja sér fleiri viðburði - hækkar afslátturinn.

Einn heppinn gestur við opnun Konfektkassans, sem verður kl. 16.00, mun vinna Gullkort.

Margt verður á seyði í Hofi á laugardaginn auk þessara viðburða, en það verða tónlistaratriði, listasmiðja, myndataka með leikmunum, veitingar, blöðrur og víkingagjörningur svo eitthvað sé nefnt.

Hér má sjá viðburðina: