Fara í efni
Menning

Vel heppnað málþing um Akureyrarveikina

Frá vinstri: Berglind Ásgeirsdóttir, fyrrum sendiherra og málþingsstýra, Kristín Sigurðardóttir læknir, Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður og skipuleggjandi, Sigurveig Sigurðardóttir, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítalans, Ásgeir Jóhannesson, einn þeirra sem veiktist af Akureyrarveikinni, Friðbjörn Sigurðsson læknir, Sigurður Arnarson, einn þeirra sem glímir við langtíma eftirköst covid-19, Númi Sveinbjörn Adólfsson, einn þeirra sem veiktist af Akureyrarveikinni, Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Mynd: Akureyrarbær.

Um þessar mundir eru liðin 75 ár frá því að (dularfullur) faraldur stakk sér niður á Akureyri og fleiri stöðum á norðanverðu landinu. Af því tilefni var haldið málþing á Amtsbókasafninu á Akureyri síðastliðinn laugardag þar sem fjallað var um þennan faraldur frá ýmsum hliðum. Sjúkdómurinn var nefndur Akureyrarveikin og hefur fram á þennan dag vakið mikla athygli erlendis.

  • Neðst í greininni tengill á upptöku á málþinginu, en því var streymt á YouTube-rás Akureyrarbæjar.

Akureyrarveikin og ME – síþreytufaraldrar?

Í fyrstu var talið að Akureyrarveikin væri mænusótt, en svo reyndist ekki vera. Hluti þeirra sjúklinga sem veiktust af Akureyrarveiknni náðu sér aldrei og mynduðu ME sjúkdóminn (Myalgic Encephalomyelitis). Fjölmörgum faröldrum eins og Akureyrarveiknni hefur verið lýst í heiminum en það sem gerði Akureyrarveikina fræga var hversu vel honum var lýst af læknum í helstu erlendu læknaritum þess tíma. Faraldurinn náði hámarki veturinn 1948-49 og stakk sér niður víða um land.

Í því sambandi er svo Björn Sigurðsson, læknir á Keldum, oftast nefndur, en hann og félagar hans gerðu ítarlegar rannsóknir á faraldrinum á sínum tíma. Þessi nákvæma skráning upplýsinga og rannsóknir Björns hafa gagnast þeim sem hafa á síðari tímum rannsakað faraldurinn og fólk sem fékk sjúkdóminn, en um 25% þeirra sem veiktust náðu ekki góðum bata. Langtíma eftirköst höfðu í för með sér mikla þreytu, vefjagigt og fleira sem skerti mjög lífsgæði þessa fólks.

Auk faraldra eins og Akureyrarveikinnar eru fjölmargar sýkingar þekktar að geta valdið langtímaáhrifum eins og ME sjúkdómnum. Þar má sérstaklega nefna Covid-19. Þema málþingsins var því tengsl Akureyrarveikinnar við viðfangsefni samtímans þar sem hluti þeirra sem hafa veikst af Covid-19 sitja uppi með langvarandi eftirstöðvar.

Samstarf Akureyrarbæjar og Sjúkrahússins

Málþingið var haldið í samstarfi Akureyrarbæjar, Amtsbókasafnsins og Sjúkrahússins á Akureyri.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri setti málþingið og Alma Möller landlæknir flutti ávarp úr fjarlægð, en hún hafði ekki tök á að mæta til Akureyrar til að flytja sitt erindi. Fjallað var um Akureyrarveikina út frá ýmsum hliðum, af læknum og vísindafólki. Einstakt var að heyra frá tveimur einstaklingum sem lýstu því hvernig Akureyrarveikin hafði langtímaáhrif á líf þeirra og jafnframt einum sem glímir við afleiðingar af covid-19.

Þá var einnig fjallað um faraldurinn út frá bæjarlífinu á tíma faraldurins.

Sérlega áhugavert var að heyra Sigurveigu Sigurðardóttur, yfirlækni ónæmisfræðideildar Landspítala, kynna að í bígerð væri stofnun íslensks rannsóknarhóps um ME sjúkdóminn og skyldra sjúkdóma. Það er því von um að Íslendingar komist aftur í fremstu röð í rannsóknum á sjúkdómnum.

Þögn um sjúkdóminn, en bók í fæðingu?

Akureyrarveikin lagðist á fjölmarga nemendur á heimavist Menntaskólans á Akureyri. Þó svo faraldurinn hafi stungið sér niður víða á norðanverðu landinu, svo sem í Skagafirði og Ísafirði og síðar á Þórshöfn og Patreksfirði, veiktust langflestir á Akureyri. Enginn dó af völdum Akureyrarveikinnar þó sóttin væri skæð og langtíma eftirköstin alvarleg fyrir um fjórðung þeirra sem veiktust.

Fram kom á málþinginu og hefur einnig verið nefnt í viðtölum við fólk sem veiktist og afkomendur þess að þögn hafi ríkt um sjúkdóminn og þó sér í lagi eftirköstin sem margir sjúklinganna áttu við að etja þegar fram liðu stundir.

Óskar Þór Halldórsson, blaðamaður og rithöfundur, hefur enda áhuga á að rita bók um faraldurinn. Hann hefur lengi haft áhuga á að skrifa um Akureyrarveikina og er alvarlega að velta fyrir sér núna að hefja ritun bókar um hana. Hann hefur áhuga á að komast í samband við fólk sem hefur reynslusögur tengdar Akureyrarveikinni. Núna þegar 75 ár eru liðin frá því að veikin stakk sér hér niður eru ekki margir eftirlifandi sem smituðust af Akureyrarveikinni og hafa tekist á við afleiðingar sjúkdómsins allar götur síðan.

Þá kom einnig fram á málþinginu að lítið sem ekkert sé að finna um Akureyrarveikina í sögu Akureyrarbæjar og sögu Menntaskólans á Akureyri. Sú þögn hefur staðið fram á þennan dag og hefur tilvísan til lítillar, en sem betur fer vaxandi umræðu um ME sjúkdóminn og eftirstöðvar covid-19.

Fjölmargir lögðu leið sína í Amtsbókasafnið og hlýddu á erindin á málþinginu. Hér er hægt að horfa á upptöku á málþinginu, en því var streymt á YouTube-rás Akureyrarbæjar.