Fara í efni
Menning

Tvö jólatré voru á Ráðhústorgi 1955

Ráðhústorg á aðventunni 1955; annað tréð var gjöf frá Álasundi í Noregi en hitt frá Randers í Danmörku. Ljósmynd: Gísli Ólafsson/Minjasafnið á Akureyri.

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

6. desember – Gjöf frá vinabæjum

Jólatré hefur prýtt Ráðhústorgið á Akureyri síðan árið 1952 þegar Bergen í Noregi færði bæjarbúum tré að gjöf.

Árið eftir varð Akureyri formlega hluti norrænnar vinabæjarkeðju ásamt Lahti í Finnlandi, Västerås í Svíþjóð, Álasundi í Noregi og Randers í Danmörku. Upphaf vinabæjartengslanna má rekja til innrásar Sovétríkjanna í Finnland árið 1939. Sænsk yfirvöld vildu styðja við Finna án þess að brjóta stefnu Svíþjóðar um hlutleysi, því voru sænskir og finnskir bæir paraðir saman og sænskir íbúar réttu finnskum bræðrum sínum hjálparhönd um mat, klæðnað og byggingarefni svo nokkuð sé nefnt.

Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk var ríkur vilji meðal norrænna ríkja að efla tengsl sín á milli,  vinabæjasamstarf  var eitt af því komið var á laggirnar og myndaðist fyrrnefnd keðja árið 1949. Jólatréð á Ráðhústorginu er táknrænn hluti vinabæjarsamstarfsins, táknmynd vináttu. Árið 1955 var vinaþelið þó sýnu mest því þá stóðu tvö tré á Ráðhústorginu annað frá Álasundi en hitt frá Randers sem jafnan hefur gefið jólatréð síðan.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.