Verkstæði jólasveinsins í Amaro
SÖFNIN OKKAR – 101
Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Eitt nýtískulegasta vöru- og verslunarhús landsins var Amaro, en samnefnd stjarna er enn eitt af einkennandi jólaskreytingum í miðbæ Akureyrar þó að verslunin hafi hætt starfsemi. Það var þó fleira sem var hluti jólastemningarinnar í miðbænum sem tengdist versluninni.

Skarphéðinn Ásgeirsson stofnaði klæðagerðina Amaro árið 1940. Hún framleiddi m.a. nærföt sem voru seld um land allt. Árið 1947 hóf Skarphéðinn verslunarrekstur í Hafnarstræti 101. Árið 1959-60 stækkaði verslunin þegar byggt var vöruhús að erlendri fyrirmynd með ólíkum deildum á sex hæðum. Amaro var sannkallað vöruhús með dömu- og herradeild, stærstu búsáháhaldadeild landsins. Þar var vefnaðarvörudeild, barnafatnaður, undirfatnaður og snyrtivörudeild. Leikfangadeildin var oft áfangastaður barna bæjarins sem litu leikföngin í leikfangadeildinni hýru auga. Lyktin í sælgætishorninu finna margir enn í dag við tilhugsunina eina saman.

Andlit hússins voru sýningargluggarnir, sem ásamt innganginum voru hannaðir að erlendri fyrirmynd. Þeir voru hafðir sérstaklega stórir og „byggðir í boga til beggja hliða við hinn stóra forsal, þannig að skoða má allar útstillingar án þess að standa úti á götunni“ sagði í Verzlunartíðindum árið 1961 stuttu áður en að nýja verslunarhúsið opnaði.

Áður en stórverslunin opnaði hafði Amaro verslunin notað stóra glugga litla timburhússins við hliðina sem útstillingarglugga. Fyrir jólin voru þeir sérstaklega skreyttir með nýjustu vörum en það var þó ekki síst jólaskreytingarnar sem drógu fólk að glugganum. Þar bar einna hæst verkstæði jólasveinsins sem fengið var frá Bandaríkjunum.
Þessar gluggaskreytingar ásamt myndum úr Amaro og jólastemningunni í bókaverslunum miðbæjarins verður til sýnis á Minjasafninu á Akureyri, en Amaro-fjölskyldan færði safninu þessa gömlu gripi sem prýddu Amaro gluggana í nóvember og hefur verið unnið að því að lagfæra þá fyrir jólasýninguna sem opnar um helgina.

