TF-SYN setur mikinn svip á Flugsafnið
SÖFNIN OKKAR – 103
Frá Flugsafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Í gær, þann 10. desember, fagnaði Landhelgisgæsla Íslands þeim tímamótum að 70 ár voru liðin frá því að stofnunin eignaðist sína fyrstu flugvél, TF-RAN, sem var af gerðinni Consolidated PBY-6A. „Landhelgisgæsla Íslands á flugi í 70 ár“ var yfirskrift pistils sem birtist á heimasíðu Gæslunnar í gær og er saga flugdeildarinnar rakin þar í stuttu máli fram til dagsins í dag - https://www.lhg.is/2025/12/10/landhelgisgaesla-islands-a-flugi-i-70-ar/
En árið er merkilegt í sögu Landhelgisgæslunnar fyrir fleiri sakir því að þyrludeild hennar var stofnuð í apríl 1965, björgunarþyrlan TF-SIF var tekin í notkun árið 1985 og stóra systir hennar björgunarþyrlan TF-LIF bættist síðan við flotann árið 1995. Sannkallað stórafmælisár í sögu þessarar merku stofnunar.

Flugvirkjanemar Tækniskólans í verknámi á Flugsafni Íslands. Mynd: Flugsafn Íslands
Þyrlurnar eru báðar varðveittar á Flugsafni Íslands, auk einnar flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, sem er safngripur vikunnar að þessu sinni.
Flugvélin TF-SYN er af gerðinni Fokker F.27-200 Friendship og var sérsmíðuð fyrir Landhelgisgæsluna árið 1976 og kom til landsins í byrjun árs 1977. Fyrir átti Landhelgisgæslan flugvélina TF-SYR, sem var af sömu gerð, en var nokkrum árum eldri og ekki jafn vel búin. Guðjón Jónsson þáverandi yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar sagði enda í viðtali sem tekið var í tilefni af fyrsta formlega gæsluflugi TF-SYN 26. febrúar 1977, að „[það] er að sjálfsögðu alveg sama hvar á er litið, nýja flugvélin er á öllum sviðum betri en sú eldri, enda öll tæki ný.“ Þá var hún langfleygari og aflmeiri en sú gamla.
TF-SYN var vel búin tækjum til eftirlits, leitar og björgunar. Aftast í vélinni er sextán manna farþegarrými en hægt er að koma fyrir sjúkrabörum ef hluti sætanna er fjarlægður. Í miðju vélarinnar eru átta sæti til viðbótar og tvö borð, og vinnuborð fyrir stýrimann og loftskeytamann.

TF-SYN og björgunarþyrlurnar TF-SIF og TF-GRO í oddaflugi á flugsýningu á Reykjavíkurflugvelli 1994. Mynd: Pétur P. Johnson.
TF-SYN þjónaði Landhelgisgæslunni dyggilega í yfir þrjá áratugi en henni var skipt út fyrir Dash 8 Q300, TF-SIF, árið 2009. Sama ár var henni komið fyrir á Flugsafni Íslands til varðveislu. Hún er ein af fáum sýningargripum safnsins sem gestum er boðið að ganga um borð í og vekur það ávallt mikla lukku. TF-SYN setur mikinn svip á Flugsafnið, ekki síst þegar viðburðir eru haldnir í safninu, og er ósjaldan notuð sem bakgrunnur fyrir ýmsar myndatökur.
Hún hefur einnig nýst vel til verknáms flugvirkjanema síðustu ár en frá árinu 2013 hafa tíu árgangar stundað verknám í Flugsafninu og þá unnið við „Fokkerinn“ eins og TF-SYN er jafnan kölluð í daglegu tali.
Auk þess hefur hún verið nýtt við kvikmyndatöku, m.a. við gerð heimildarmyndar Kringvarpsins haustið 2020 um flugslysið í Mykinesi í Færeyjum, þegar sams konar flugvél í eigu Flugfélags Íslands brotlenti á fjallinu í 26. september 1970.
Heimild: Dagblaðið, 28.2.1977.

TF-SYN á Flugdegi á Akureyrarflugvelli 2005. Mynd: Hörður Geirsson.

TF-SYN í Flugsafni Íslands. Mynd: Flugsafn Íslands/Axel Þórhallsson

TF-SYN er stór hluti af umgjörðinni sem veislugestir njóta í Flugsafninu. Mynd: Flugsafn Íslands

Horft inn í stjórnklefa TF-SYN. Mynd: Flugsafn Íslands

Aftast í TF-SYN eru sæti fyrir allt að sextán farþega. Almennt er vélin sýnd með tíu sætum og sjúkrabörum, en við gerð heimildarmyndarinnar um flugslysið í Mykinesi voru börurnar teknar úr og öll sætin sett í. Mynd: Flugsafn Íslands

TF-SYN nýtt við heimildarmyndargerð. Mynd: Flugsafn Íslands

Tónleikar í Flugsafni Íslands. Mynd: Flugsafn Íslands