Fara í efni
Menning

Sáttafundur árið 1857 vegna ósamlyndi hjóna

SÖFNIN OKKAR – 82

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Wilhelmínugata er í Hagahverfinu er ber þó ekki haga endinguna eins og hinar göturnar enda liggur hún syðst við enda hverfisins og við hana eru engin hús. Gatan er kennd við Wilhelmínu Lever (1802-1879) höndlunarborgarinnu. Líklega þarf ekki að hafa mörg um Wilhelmínu, flestir Akureyringa vita um hvaða konu er að ræða. Þetta var jú konan sem fyrst kvenna kaus í opinberum kosningum á Íslandi þótt þá væri nokkuð í að konur fengju kosningarétt á Íslandi. Þetta var 31. mars 1863, þegar Akureyringar kusu bæjarstjórn í fyrsta sinn. Wilhelmína tók einnig þátt í kosningum 1866.

Wilhelmína var engan veginn dæmigerð fyrir íslenskar konur á 19. öld. Hún var fráskilin en eiginmaður hennar sagði skilið við hana vegna framhjáhalds hennar. Hún átti barn í lausaleik með dönskum stýrimanni og var orðuð við Friðrik Danaprins. Hún rak verslun og veitingasölu, stundaði búskap, var frumkvöðull í tómstundamálum Akureyringa, svo fátt sé nefnt.

Skjal dagsins tengist Wilhelmínu óbeint, eða kannski beint eftir því hvernig á málið er litið. Skjalið kemur úr gjörðabók sáttanefndar á Akureyri 1853-1909 og er mynd af einni opnu bókarinnar, þ.e. fundargerð sáttafundar sem haldinn var í nóvember 1857 í máli hjónanna Hans Wilhelms Lever og Sigurbjargar Hallgrímsdóttur útaf ósamlyndi þeirra. 

Hans Wilhelm var sonurinn sem Wilhelmína Lever eignaðist með danska stýrimanninum Mads Christensen árið 1833. Hans Wilhelm og Sigurbjörg voru gefin saman í hjónband í júní 1856.

 

Í gjörðabókinni segir:

Partarnir vóru mættir. Kjæruskal frá Sigurbjörgu með áteiknuðu fyrirkalli var framlagt og einnig var framvísuð sáttatilraun aðstoðarprests Herra Sveinbjarnar Hallgrímssonar sem er fyrir hönd hlutaðeigandi sóknarprests.

Var svo reynd sætt milli partanna en árángurslaust, þareð Madama Sigurbjörg vill með aungu móti fara í íbúðarhús teingdamóður sinnar en á hinn bógjinn vill hvorki hún njé sonur hennar madur Sigurbjargar leyfa henni að fara aptur í hús það er hún ásamt manni sínum hefur til skammst tíma búið í.

Það tókst sem sagt ekki að koma á sáttum og kannski hefur skapgerð Wilhelmínu haft eitthvað með það að gera, hver veit. Í öllu falli vildi Sigurbjörg með engu móti búa undir sama þaki og Wilhelmína og var komin til Vopnafjarðar árið 1861, skilin að skiptum við mann sinn. Hans Wilhelm hefur ekki fengið góð eftirmæli, sagður lítt að manni og hafði oftast stöðuna ,,hjá móður sinni“ á manntali. Honum þótt sopinn góður og það átti fyrir honum að liggja að drukkna í Búðarlæknum snemma árs 1867.

Þess má geta að hlutverk sáttanefnda var að koma á sáttum milli deiluaðila ef það gæti komið í veg fyrir óþörf og kostnaðarsöm málaferli. Sáttabókina sem vitað er til hér að framan má skoða í heild sinni á þessari slóð:

https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a99_1_sattabok_akureyrar_1853_1909?fr=xIAEoAT3_NTU1