Fara í efni
Menning

Sagan af Adoníusi kóngi hinum frækna

SÖFNIN OKKAR – XIIIFrá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Að þessu sinni drögum við fram söguna af Adoníusi kóngi hinum frækna, handrit sem skrifað var 1879 – 1880 og er 150 tölusettar síður. Ekki kemur fram hver skrifaði. Eins og jafnan í riddarasögum segir frá miklum afrekum og hetjudáðum og auðvitað endar sagan á brúðkaupi, þar sem Adoníus og Albaríu, dóttir Teódosiusar konungs/keisara í Róm, eru gefin saman. Í handritinu segir m.a. um brúðkaupið og framhald þess (aðlagað að nýrri rithætti):

….koma nú ákveðinn dag til Rómaborgar og sitja þar allir þetta virðulega brúðkaup, er gjört var með hinum mesta kostnaði og allri heimsins makt. Gefur keisarinn sinni dóttur 10 borgir sem hann átti á Ítalíu. En höfðingjum áður burt fóru voru góðar gjafir gefnar, gull og gersemar, kjör og klæði, hestar og harðneskjur, pell og purpuri. En að þessu öllu töldu og framkomnu fóru konungarnir heim til sinna landa og skildu með hinum mesta kærleik. Adoníus fer nú til Syríu og sest að sínu ríki með sinni frú Albaría; var hann öllum lofsælli í sínu ríki.

Það var Aðalheiður Benediktsdóttir sem afhenti safninu handritið árið 1970.

Á forsíðu handritisins er skrifað ,,Húsfrú Ólína Tómasdóttir Nesi” og ,,Ingvar Guðjónsson á bókina”. Með því að nota islendingabok.is og manntal.is kemur í ljós að þarna er átt við Nes í Staðarsókn í Grunnavík. Ólína Tómasdóttir (1856-1935) átti a.m.k. tvo eiginmenn og fluttist nokkuð milli staða. Árið 1910 var hún húsmóðir í Bolungarvík og þá var Ingvar Guðjónsson (1904-1965) tökubarn á heimilinu. Síðar urðu Ingvar og Aðalheiður Benediktsdóttir hjón og bjuggu á Akureyri en síðar á Selfossi og í Reykjavík. Eftir að Aðalheiður varð ekkja árið 1965 flutti hún aftur til Akureyrar, þá væntanlega með handritið í töskunni. Aðalheiður hét fullu nafni Friðrikka Ingunn Aðalheiður og lést á Akureyri 1976.