Fara í efni
Menning

Ofboðslega skemmtileg og fyndin fantasía

AF BÓKUM – 40

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Aija Burdikova_ _ _

Tress frá Smaragðhafinu eftir Brandon Sanderson

Ég hafði um tíma stefnt að því að lesa bækur eftir Brandon Sanderson einn þekktasta fantasíuhöfundinn en hafði ekki gert það því flestar bækur hans eru vel yfir 1000 blaðsíður (eða ca 45 klukkutíma langar hljóðbækur) sem mér fannst ekki heillandi. Mig langaði samt að prófa þennan höfund og sjá hvort bækurnar hans væru fyrir mig þar sem flestar fantasíur sem ég hef lesið undanfarið hafa verið eftir kvenkyns höfunda.
 

Ég var mjög ánægð með val mitt að prófa bókina Tress of the Emerald Sea (bara 369 bls. eða 12 klst.) því þetta er ofboðslega skemmtileg og fyndin fantasía. Ég hló upphátt mörgum sinnum. Bókin er innblásin af sögunni Princess Bride sem er vinsæl bók og kvikmynd þannig að ég mæli með þessari bók sérstaklega fyrir þau sem kunna að meta hana.

Tress er ung kona sem býr með fjölskyldu sinni á eyju sem bannað er að yfirgefa. Hún er góður kokkur, safnar bollum frá öllum heimshornum en vinnur við gluggaþvott. Besti vinur Tress heitir Charlie og er sonur hertogans en segist vera garðyrkjumaður þó að Tress viti hvað er satt og hvað er logið. Hann fer í ferðalag og er tekinn í hald af galdrakonu en faðir hans neitar að greiða lausnargjald. Tress finnur leið til þess að flýja eyjuna og bjarga vini sínum sem hún er ástfangin af. Þá hefst ævintýralegt ferðalag á sjó sem er ekki úr vatni en úr gróum sem verða að risastórum og hættulegum plöntum ef vatn kemst í snertingu við þau. Á ferðalaginu verður hún sjóræningi og eignast marga vini þar á meðal rottu sem talar og lækni sem borðar lík og safnar auka líkamshlutum.

Þetta er fyrsta bók í Secret Projects seríu sem kom út árið 2023 og er partur af Cosmere heiminum. Eftir Tress las ég aðra bók eftir Brandon Sanderson Yumi and the Nightmare Painter sem var líka frábær. Mér fannst skemmtilegt að hitta eina af mínum uppáhalds sögupersónum að nafni Hoid úr Tress bókinni líka í bók um Yumi og ég hef heyrt að hann birtist í fleiri bókum Brandons. Ég hlakka til að lesa enn fleiri bækur eftir þennan höfund þar á meðal Mistborn og The stormlight archive seríurnar. Ég vona að bækur hans verði þýddar á íslensku svo að fleiri fái tækifæri til að lesa þær.