Menning
Norskir strákar og konur frá Bretlandi
12.08.2025 kl. 09:45

AF BÓKUM – 39
Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
Í dag skrifar Þorsteinn Gunnar Jónsson_ _ _
Keltar - áhrif á íslensku tungu og menningu
Þegar ég og konan mín uppgötvuðum „töfra“ Skotlands í fyrstu ferð okkar þangað í nóvember 2016, þá hafði ég ekki lesið mig til um gelísk áhrif á íslenska tungu og menningu. Við fundum bæði fyrir óútskýranlegri tilfinningu um að tilheyra þessum stað, þessari menningu, þessari náttúru ... Skotland varð „okkar“ land. Og við eigum eftir að heimsækja Írland, sem við gerum án efa innan tíðar.
En til Glasgow höfum við flogið sjö sinnum og farið í margar ólíkar skoðunarferðir, keypt slatta af bókum um Skotland og sögu þess. Við eigum meira að segja fer-fet af landi þar og titlum okkar Dodda lávarð og lafði Veigu. Já, það má alveg hlæja.
Það kom mér því skemmtilega á óvart að lesa margt í bókinni Keltar - áhrif á íslenska tungu og menningu eftir Þorvald Friðriksson. Eins og til dæmis að Akureyri merki skipalægi eða höfn frekar en eitthvað tengt akri eða kornyrkju. Og Helgi magri ... landneminn sem var sveltur í æsku en nam samt allt þetta stóra svæði í Eyjafirðinum. Var hann svona rosalega mjór eða var hann kannski í gegnum gelíska útskýringu „hinn mikli“?
Hér nefni ég bara þessi tvö orð, Akureyri og magri, en í bókinni má finna yfirlit yfir miklu fleiri og höfundurinn Þorvaldur minnist á að mörg orð í íslenskunni séu ekki norræn heldur keltnesk, sem og mörg örnefni.
Þegar mér var boðið í hellaskoðun við Hellu í nóvember 2021 þá sagði leiðsögumaðurinn þar að í einum helli hefðu fundist ristuð tákn sem minntu ansi mikið á tákn Kelta frá því löngu fyrir landnám hér á landi. Því miður var ekki hægt að aldursgreina risturnar, þannig að þetta voru kenningar um að Keltar hefðu verið hér löngu áður en víkingarnir komu ... og mögulega ráku þá á brott.
Bókin Ireland in Iceland: Gaelic remnants in a Nordic Land eftir Manchán Magan (útg. 2025 og er til á Amtsbókasafninu) fer líka mjög vel yfir tengsl Írlands og Íslands, að það sé mun meira sameiginlegt með þessum löndum, menningu þeirra og sögu, heldur en áður var talið.
Þorvaldur Friðriksson er því langt því frá sá eini sem heldur þessu fram en ég fann þó nokkra dóma um bókina sem drógu úr þessum kenningum og stóð í einum að einn helsti galli bókarinnar væri heimildaleysi. Í svona bókum ættu að vera góðar heimildaskrár og ég er dálítið sammála því.
Ég er hins vegar alveg handviss um að Þorvaldur Friðriksson sé á réttri braut og að saga okkar og menning sé mun meira keltnesk en haldið hefur verið fram. Í bókinni talar hann um að gagnsemi bókarinnar kunni að vera sú að hreyfa við nýjum hugmyndum og vekja umræðu og áhuga nýrra kynslóða. Fólk megi hins vegar alveg vera ósammála hans túlkun.
Það er þessi lína sem mér finnst svo skemmtileg og áhugaverð, að ég varð bara að eignast þessa bók sem kom út árið 2022 og endurútgefin í byrjun 2023. Hún fékk Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana 2022, þannig að eitthvað er í hana spunnið.
Er bókin svar við öllu varðandi okkar uppruna? Nei. Er hún að umbylta öllum okkar hugmyndum um hverjir Íslendingar séu? Nei. Er hún skemmtileg aflestrar? Já. Er hún handhæg? Já, mjög svo.
Þorvaldur skiptir bókinni í átta meginhluta og er hver um sig mjög fróðlegur að lesa. Of langt mál væri að telja það upp hér en mér fannst mjög gaman að lesa að Grýla væri keltnesk eins og nafnið sem hún ber!
Titill dómsins er sóttur í orð fyrrum forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, Kára Stefánssonar: „Ísland var numið af norskum strákum sem fóru til Bretlands og náðu sér í konur.“
Ég lét mér nægja að ná í ísfirska konu hingað til Akureyrar.