Fara í efni
Menning

Miðgarðakirkja skoðuð í sýndarveruleika

Skjáskot af þrívíddarmynd/sýndarveruleika af Miðgarðakirkju í boði Hermanns Valssonar. Ef farið er yfir rauða punktinn á myndinni birtast upplýsingar um söfnunarreikning heimamanna fyrir byggingu kirkjunnar.

Bygging nýrrar Miðgarðakirkju í Grímsey hefur oft ratað í fréttirnar enda um stórt verk að ræða fyrir lítið samfélag. Þrátt fyrir að hafa lent í talsverðum hindrunum við byggingu nýrrar kirkju halda Grímseyingar ótrauðir áfram verkinu með dyggri aðstoð víða að því verkefnið er að verulegu leyti kostað af frjálsum framlögum einstaklinga, fyrirtækja og samtaka. Meðal annars hafa farþegar skemmtiferðaskipa og aðrir ferðamenn sem heimsótt hafa Grímseyinga lagt sín lóð á vogarskálarnar með því að gefa í söfnunarkassa sem komið var fyrir framan við kirkjuna.

Akureyri.net sagði frá því í gær að Grímseyingar hafi að undanförnu unnið í sjálfboðavinnu við frágang á þaki kirkjunnar undir stjórn Kristjáns E. Hjartarsonar byggingarstjóra. Þá hefur verið unnið að frágangi utan dyra, jarðvegsvinnu og hellulögn við kirkjuna og skrúðhúsið, auk þess sem skrúðhúsið hefur verið innréttað því það mun meðal annars hýsa almenningssalerni. 

En sjón er sögu ríkari. Hermann Valsson sendi Akureyri.net krækju á þrívíddarmyndir/sýndarveruleika (VR) sem teknar voru af Miðgarðakirkju þann 3. nóvember. Hermann heimsótti þá Grímseyinga til að skrásetja þann dugnað sem þeir hafa sýnt við að endurreisa kirkjuna eftir brunann 2021.

Þegar smellt er á krækjuna byrjar skoðandinn framan við kirkjuna og getur ferðast í kringum hana og inn í hana eins og flest okkar þekkja til dæmis á Google street view, eða bara á já.is. Auk þess að skoða kirkjuna að utan og innan í þrívídd er hægt að taka næsta skref og skoða hana í sýndarveruleika með því að nota Meta Quest 2 eða 3 með til þess gerðum gleraugum.

Miðgarðakirkja - þrívíddarmynd/sýndarveruleiki.

Styrktarsíða Miðgarðakirkju í Grímsey

Söfnunarreikningur Miðgarðakirkju
Kennitala: 460269-2539
Reikningsnúmer: 565-04-250731
IBAN: IS76 0565 0425 0731 4602 6925 39
SWIFT: GLITISRE