Menning
Sigurjón Herbertsson skipstjóri Sæfara í 25 ár
07.01.2026 kl. 06:00
Sigurjón Herbertsson skipstjóri í brúnni á Sæfara. Mynd: Anna María Sigvaldadóttir.
Sigurjón Herbertsson fagnar um þessar mundir 25 ára starfsafmæli sem skipstjóri á Grímseyjarferjunni Sæfara og segist hafa myndað sterk tengsl við Grímsey eftir allan þennan tíma. Rætt er við Sigurjón á Facebook-síðu Akureyrarbæjar.
Ferjan Sæfari siglir milli Dalvíkur og Grímseyjar allt árið. Yfir vetrartímann er siglt þrisvar til fjórum sinnum í viku en fimm sinnum í viku á sumrin. Sigurjón rifjar upp að hann hafi byrjað á skipinu árið 1996, þegar Örlygur Ingólfsson var skipstjóri. Hann hafi síðan tekið við af Örlygi árið 2000.
Siglingin út í Grímsey tekur um þrjá klukkutíma. Sigurjón segir í viðtalinu að siglingin sé ekki alltaf auðveld og veðrið geti verið alls konar. Oftast hafi þó allt gengið vel. „Tvisvar sinnum hef ég fengið á mig brot og í annað skiptið þurfi ég að snúa við og fara í slipp á Akureyri. En ég hef aldrei orðið hræddur. Vissulega verður fólk oft sjóveikt og þótt það séu örugglega 40 ár síðan ég hef fundið fyrir sjóveiki, man ég alveg hvernig það er,“ segir Sigurjón.
Sigurjón býr á Dalvík en segist hafa myndað sterk tengsl við Grímsey eftir allan þennan tíma. Þegar hann varð sextugur segir hann að allir eyjarskeggjar hafi komið og sungið fyrir hann – sem hafi verið dásamlegt. „Það er alltaf jafn fallegt að koma að Grímsey og eins að sigla inn Eyjafjörðinn. Leiðirnar eru svo fallegar, og breytilegar eftir árstíðum. Við sjáum oft hvali og gríðarlega mikið af lunda á sumrin. Ég hef alltaf jafn gaman af þessu – annars væri maður ekki að þessu. Ég held áfram á meðan heilsan leyfir,“ segir Sigurjón Herbertsson skipstjóri á Sæfara.